laugardagur, desember 01, 2007

Vaknaði frekar seint í morgun en náði þó að fara út um kl. 8.00 og hitti Neil og Jóa við brúna. Fórum Kársneshringinn í fínu veðri og tókum tröppurnar og nokkra brekkuspretti. Kom heim eftir rúma 20 km því ýmsu var að sinna. Komum við í Fífunni og húsvörðurinn var svo upprifinn af að sjá okkur að hann mátti halda aftur af sér til að hlaupa ekki frá skyldustörfunum og koma með okkur. Sagðist hafa hlaupið lengi enda var hann léttur á fæti og snöfurlegur að sjá.

Fann í morgun að rauðvín er ekki mjög gott hleðsluefni fyrir morgunhlaup. Það var jólahlaðborð hjá okkur í vinnunni í gærkvöldi á Grandhotel með rauðvínsívafi!! Þeir mega skerpa sig í þjónustunni þar því á barnum þar sem við fengum fordrykkinn var mikill hörgull á sumum tegundum glasa og einnig var lagerinn á barnum ekkert sérstakur. Sum okkar þurftu að bíða langtímum saman eftir að þvottavélin kláraði sitt starf. Slakt af hoteli sem er að lansera sig sem klassahotel. Maður vorkennir starfsfólkinu sem lendir í svona uppákomum.

Um daginn hélt utanríkisráðherra erindi á fundi hjá Félagi Sagnfræðinga. Það var ekki í frásögur færandi utan það hún kynnt á fundinum sem fyrsti utanríkisráðherrann í sögu lýðveldisins sem kynni ensku. Utanríkisráðherra andmælti þessu ekki öðruvísi en svo að hún sagðist þó vera betri í dönsku en ensku. Svona söguskoðun er náttúrulega fásinna. Vitaskuld er það svo að ráðherrar hafa gegnum tíðina verið misjafnlega vel mæltir á erlendar tungur. Það þarf hins vegar ekki að fara lengra aftur en í ráðherratíð Jóns Baldvins og Steingríms Hermannssonar að finna fyrirtaks enskumenn. Jón Baldvin hélt svo innblásnar ræður á alþjóðavettvangi um ágæti evrópusamvinnunnar að eftir var tekið. Steingrímur bjó árum saman í Bandaríkjunum á sínum námsárum og þar á eftir og talar fyrirtaks ensku. Maður gæti skilið að svona löguðum fullyrðingum væri slegið fram hjá einhverjum kjaftaklúbbi en að forsvarsmenn Félags Sagnfræðinga séu ekki betur að sér í samtímasögu er klár falleinkunn.

Það voru tvær athyglisverðar greinar í morgunblöðunum í dag. Sá prúði piltur Þorsteinn J. segir skoðun sína umbúðalaust á tölfræðiarmi feminista sem vill takmarka málfrelsi og innleiða ritskoðun í samfélaginu. Útsýnisturninn í því verki er náttúrulega sú þúfa sem þær standa á prívat og persónulega.

Í annan stað skrifar þingfréttamaður Moggans varnarpistil fyrir þingmanninn sem vill klæða nýfædd börn í föt sem hlutgera kynin ekki og rannsóknastofa í kynjafræði gúdderar. Ég hélt í fávisku minni að hlutverk þingfréttaritara hjá fjölmiðlum eins og Mogganum væri að skýra hlutlaust frá því hvað er mest spennandi að gerast á Alþingi hverju sinni en ekki að bregðast til varnar fyrir flokkssystkyni sín í pólitískri umræðu í pistlum sínum frá Alþingi.

Það er fagnaðarefni að umræða um hugarheim islamista hefur farið vaxandi hérlendis á seinni tímum. Nú síðast berast fréttir af því að þeir hafi æst óupplýstan múginn í Súdan svo upp að hann flykkist um götur og torg með kröfuna að kennslukonan sem nefndi bangsann Múhameð verði skotin með það sama. Ef maður hefði sagt frá svona uppákomum eða öðrum álíka þá væri maður sagður ljúga og vera með illgirnislegar skítabombur á aðra trúarhópa. Þegar frásagnir frá þessu koma aftur á móti í fjölmiðlum þá geta menn ekki annað en trúað þessu. Sama gildir um stúlkuna í Sádí Arabíu sem á að fá 200 svipuhögg fyrir að hafa verið nauðgað. Þótt svo að þessar frásagnir eigi uppruna sinn vegna atburða í fjarlægum löndum þá verða menn að horfast í augu við þá staðreynd að þeim sem aðhyllast íslamska öfgastefnu fer sífellt fjölgandi í nágrannalöndum okkar, Noregi, Svíþjóð og Danmörku. Hún er nefnilega ekki svo langt undan.

Rétt er að minna á það í þessu sambandi að Þórbergur Þórðarson var á sínum tíma dæmdur sekur fyrir að tala óvirðulega um nazista.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Ævinlega sæll frændi. Get nú ekki annað en kímt yfir rauðvínshugleiðingum þínum - man vel eftir einni ballferð á Bíldudal í den þar sem minn góði frændi var með rauðvínskút sem hann slengdi yfir öxl sína ;-). Varðandi Grandhotel......tja, ég hef í þónokkur skipti verið þar í veislum, erfidrykkjum og svo í jólahlaðborði. Ég get ekki skilið undir hvaða formerkjum orðið GRAND er í nafni þessa staðar. Tel mig ekki gikk varðandi mat, en því miður hefur staðurinn aldrei staðið undir nafni. Fyrir fáeinum árum fór ég á 3 jólahlaðborð m.a á Grandhotel og það stóð hinum laaaaaaangt að baki.
Varðandi kennslukonuna og bangsann Múhameð....fæst orð bera minnsta ábyrgð, en hvað þá með alla í suður-Evrópu sem heita Jesu og Maria og allar Maríurnar um gervalla veröld? Þessi dómur er víst eitthvað sem við í vestrænum heimi skiljum ekki - ekki frekar en þau sem kváðu upp dóminn skilja okkar vestræna lífsmáta og vestrænt siðferði. Því miður er ekki virðing fyrir "andstæðingnum" ef andstæðing skyldi kalla - allavega ekki virðing fyrir náunganum.
Bestu kveðjur,
Sólveig frænka.

Nafnlaus sagði...

Þau voru oft góð böllin í Baldurshaga hér í denn að maður tali nú ekki um Birkimel en nú er Snorrabúð stekkur....