sunnudagur, júlí 19, 2009

Ég hafði ekki sett Laugaveginn upp í ár sem hlaup hinna stóru markmiða. Ég hef ekki farið neinn Esjutúr eða undirbúið mig undir hann á neinn hátt. Á hinn bóginn er Laugavegurinn þannig hlaup að maður verður að vera með ef maður getur með nokkru móti þótt ekki sé nema til að njóta þess að vera uppi á fjöllum, fara um hið magnaða land á Torfajökulsvæðinu og síðast en ekki síst vera þarna í góðum félagsskap. Ég taldi síðan ekki ráðlegt að vera neitt að sperra mig ef Akureyrartúrinn myndi sitja eitthvað í fótunum. Það er betra að komast alla leið í þokkalegum gír heldur en að lenda einhversstaðar í vandræðum og eiga í streði og erfiðleikum með að klára hlaupið. Ég tók því myndavél með mér og hafði á dagsskránni að taka sæmilega myndasyrpu af leiðinni því mig vantaði hana í safnið. Pétur Helga tók slíka syrpu árið 2004 en nú bætti hann um betur og var með hreyfimyndaupptöku af ferðinni!!
Það var hlýtt i Landmannalaugum og spáði vel svo ég lagði af stað léttklæddur í hlýrabol. Það gekk alveg upp enda þótt svolítið rigndi á leiðinni frá Álftavatni niður á sanda. ég fór rólega upp í Hrafntinnusker og eins yfir í Álftavatn. Ég er farinn að fara mjög rólega niður löngu brekkuna í Jökultungum. Ég stoppaði fyrir ofan brekkuna og reimaði skóna betur og tóik myndir. Þá fór nokkuð stór hópur fram úr mér og fór all hratt niður brekkuna. Það skilaði þeim engu því ég var kominn fram úr þeim öllum á veginum niður að Álftavatni. Ég var mjög léttur og fínn í fótunum við Álftavatn og fór því að rúlla heldur hraðar austur, hlaupa brekkur og halda sæmilegum hraða á jafnsléttu. Á þeirri leið sem eftir var fór ég fram úr nokkrum tugum hlaupara en missti engan fram úr mér það ég man. Eftir því sem maður fer Laugaveginn oftar þá finnst manni hann vera styttri og styttri. Maður veit nokkuð hvað er framundan hverju sinni og sífellt koma kunnuglegar slóðir í ljós. Brekkurnar sem voru ógnvekjandi í fyrstu hlaupunum virka nú eins og gamlir kunningjar. Ég hafði sett mér að vera á svona 6.45 og sá við Bláfjallakvíslina að ég þurfti að herða mig svolítið til að ná því. Sandarnir voru vel stamir og því tóku þeir fljótt af. Það er merkilegt að það skuli ekki enn vera komið upp skilti þar sem beygt er út af aðalveginum á söndunum yfir á slóðann sem liggur í átt að Illviðrahöfðanum. Hvernig á ókunnugt fólk að vita að þetta sé leiðin? Útlendur hlaupari sem myndi leiða hlaupið eða ekki sjá til annarra hefur enga forsendu til að beygja þarna út af veginum. Það stytti upp skömmu áður en ég kom að Emstrum og nú var orðið hlýtt og fínt veður. Endalaus ánægja. Ég hljóp létt niður Fauskatorfurnar, skellti í mig kókglasi við drykkjarstöðina og nú var Kápan bara þægileg smáhæð. Fyrir fjórum stóð ég fastur neðst í henni um tíma vegna sinadráttar og var ég þó á nokkuð lakari tíma en nú. Nú var sinadrátturinn víðs fjarri svo og öll vandræði. Það er góð tilfinning að geta skokkað upp brekkur þegar liðið er að lokum Laugavegarins og nú var ekkert mál að hlaupa legginn frá Þröngánni í mark á góðum hraða og tína í leiðinni upp nokkra hlaupara. Mótttökur í markinu voru frábærar og aðstaðan þar öll til mikils sóma. Maður er matlystugur að hlaupi loknu og eftir pottsetu og sturtu var tekið hraustlega til matar síns. Eftir mitt fyrsta Laugavegshlaup þurfti maginn a.m.k. klukkutíma til að jafna sig þar til ég svo mikið sem gat farið að hugsa um mat. Ég var einshversstaðar nálægt fyrsta þriðjungi hlaupara og var það alveg ágætt. eftir aðstæðum.
Það voru unnin flott afrek í þessu hlaupi. Þorbergur massaði það og bætti besta tímann um nær 20 mínútur. Þetta er frábært hjá öflugum strák eins og hann er að setja sér metnaðarfull markmið og standa við það. Það væri gaman að sjá hann í alvöru utanvegahlaupum erlendis þar sem hann gæti att kappi við þá bestu. Það er alltaf spurning um að finna fjölina sína. Annað afrek sem ekki hefur farið eins hátt er afrek Jóhanns sem lauk hlaupinu á 5.31. Jóhann er fæddur 1948 og er því 61 árs. Þetta er náttúrulega alveg magnað af rúmlega sextugum manni að taka Laugaveginn á fimm og hálfum tíma. Hann hefur aldeilis sett viðmið þegar maður kemst í þennan aldursflokk. Hólmfríður Vala var einungis tveimur mínútum frá því að setja met í kvennaflokki en það hefur engin komist nálægt meti Bryndísar Ernstdóttur fyrr en nú. Frábært hjá henni. Margir fleiri hlupu á mjög góðum tímum og bætti sig verulega. Það sýnir öðru fremur hvað fólk er almennt í góðri æfingu og hverju metnaðarfullar æfingar og aukin reynsla skilar. Það kom vel í ljós í hlaupinu hvað það er miklu skemmtilegra að hlaupa Laugaveginn þegar þátttakendum hefur fjölgað svo mikið sem raun ber vitni. Það var alltaf fólk nálægt manni og það setur nýja vídd í hlaupið, keppnin vex og hlaupið batnar.

Almennt má segja að öll framkvæmd hlaupsins er orðin mjög fín og metnaðarfull. Það er ólíkt skemmtilegra að taka þátt í svona hlaupi þar sem framkvæmdin er öll snurðulaus og umgjörðin fagmannleg heldur en þegar ýmsir hnökrar voru að pirra fólk. Það dregur líka fólk til að starfa við hlaupið þegar þessi andi svífur yfir vötnum. Það er síðan ekki lítil ábyrgð í því fólgin að standa fyrir hlaupið þar sem á fjórða hundrað þáttakendur eru að þreyta langt hlaup inni á hálendinu. Við slikar aðstæður getur alltaf eitthvað komið upp á sem nauðsynlegt er að geta brugðist við.

Eitt vakti athygli mína í þessu hlaupi sem ég hef ekki veitt athygli áður. Það var hve margir köstuðu gelbréfum frá sér í götuna. Það er náttúrulega ekkert annað en argasti sóðaskapur. Óbyggðahlaup er allt annað en götuhlaup. Það er ekkert gaman að hafa gelbréfaslóðina á Laugaveginum vikum saman sem minnisvarða um vitund ýmissa hlaupara fyrir umhverfinu. Þetta á ekki að sjást. Annað sem Erla Gunnarsdóttir sagði mér sem mér fannst umhugsunarvert. Hún gekk frá Emstrum niður í Þórsmörk, m.a. til að hreinsa upp rusl. Hún sagði að það hafi verið áberandi hve mikið var af bréfum utan af íbúfeni, Voltaren og öðrum verkjalyfjum í slóðinni. Það er ekki síður umhugsunarefni. Ef fólk kemst ekki Laugaveginn án þess að hakka í sig verkjatöflur þá er eitthvað mikið að. Þá er annað tveggja að fara heim og æfa sig betur eða huga betur að skónum og almennri fótaumhirðu. Ef fólk á vanda til að verða sárfætt þá er hægt að nota secondskin plástur eða sérstök teip á fæturnar. Þótt mér hafi stundum orðið illt í fótum á löngum hlaupum þá er það princip að taka aldrei verkjalyf. Eina skipti sem ég hef gert það var í Western States hlaupinu en þá var ég í tilraunahóp. Ég var í hópnum sem tók 6 Íbóprófen töflur á leiðinni og síðan var annar hópur sem tók engin verkjalyf. Niðurstaðan var að niðurbrot vöðva var meira hjá hópnum sem tók verkjalyf en samanburðarhópnum. Ástæðan var líklega sú að maður deyfði verkina og þjösnaðist því meir á fótunum en innistæða var fyrir. Eftir það hlaup liðu um þrír dagar þar til ég gat sest niður og staðið upp harmkvælalaust. Síðan er rétt að hafa það í huga það ekkert gott fyrir nýrun að taka mikið af verkjalyfjum í svona hlaupum þegar álagið á þau er hvort eð er nokkuð mikið. Miðað við þetta þá ætti það að vera ástæða til að taka upp umræða um notkun verkjalyfja í svona hlaupum. Að mínu mati er hún í besta falli tóm vitleysa. Menn eiga að geta þolað smá sársauka þegar farið er af stað á annað borð út í langhlaup á hálendinu. Það er bara partur af dæminu og upplifuninni. Muna að sársauki er tímabundinn en upplifunin eilif.

Takk til allra hlutaðeigandi fyrir frábæran dag og vel lukkað hlaup. Hlakka til að mæta á næsta ári ef máttarvöldin leyfa. Myndirnar eru á myndasíðunni minni: (www.flickr.com/photos/gajul)

P.S. Ég veit ekki hvaða rugl þetta er í fjölmiðlum um að það hafi verið snjókoma við Hrafntinnusker í gær. Það var óvanalega mikill snjór á þessum slóðum en það var snjór sem féll einhvern tíma í vetur en alls ekki í gær.

5 ummæli:

Unknown sagði...

Sæll Gunnlaugur

Ég er stelpan sem lofsamaði A+D kremið þar sem ég vissi að ráðið var komið frá þér.
Mikið er ég sammála þér með ruslið, þetta vakti líka athygli mína hvað það var mikið af gelbréfum á leiðinni. Vonandi að hlauparar taki sig á gangi betur um í framtíðinni.
Kveðja
Borghildur Laugaskokkari

Nafnlaus sagði...

Sæl Borghildur. Gott að heyra að kremið dugði vel og að þér gekk vel. Fínt þegar reynsla eins gagnast öðrum. Þetta með ruslið er kannski eitthvað sem forsvarsmenn hlaupsins eigi að taka upp og leggja áherslu á að það sé bannað að henda rusli á leiðinni.
Mbk
Gunnlaugur

Nafnlaus sagði...

Ábendingin gegn verkjalyfjum í keppni þarf að fara víða. Verkur er aðvörunarmerki sem ekki má skella skolleyrum við. Það er áreiðanlega mjög til hins verra að hlaupa t.d. með þreytubrot sem deyft er með pillum.
Aðalsteinn Geirs

CFRHlaup sagði...

Óska þér til hamingju með hlaupaafrekin frá því snemma í vor og þar til nú!
Sammála þér með gelbréfin! Ég vakti athygli starfsmanna á þessu sem voru sammála mér um sóðaskapinn en sögðu að það færi eftirfari sem týndi upp gelbréf og annað rusl sem hlauparar henda frá sér á leiðinni.

Nafnlaus sagði...

Sæll Ásgeir ogh takk fyrir góðar óskir.
Mér finnst það í sjálfu sér ekki vera lausn að það þurfi að ganga Laugaveginn allann eftir hlaupið til að hirða upp rusl eftir hlauparana og þess vegna sé það í lagi að henda hverju sem er frá sér í götuna. Þegar ég tek gel á svona leið þá læt ég tómu bréfin alltaf í beltið aftur. Það er engin fyrirhöfn. Ef það er fyrir mér þá skil ég það eftir á drykkjarstöðvunum. Svo ég nefni Western States aftur sem dæmi þá sást ekki gelbréf eða annað rusl eftir hlauparana á stígnum þar. Það var bara ekki til siðs þar að henda rusli frá sér. Þetta er einfaldlega spurning um mannasiði.
Mbk
Gunnlaugur