föstudagur, júlí 03, 2009

Í árdaga þegar maður byrjaði að hlaupa hófst ákveðin óvissuferð. Hún átti að vera stutt og einföld en hefur orðið lengri og flóknari en ætlað var. Ferðalokin eru enn ekki ráðin. Í upphafi var markmiðið einfaldlega að byggja sig upp til að geta hlaupið nokkurn spöl. Spölurinn lengdist með tímanum og kröfurnar jukust. Samtímis varð ánægjan meiri. Það var mikill áfangi að geta tekið þátt í kapphlaupum á nokkrum jafnréttisgrundvelli. Á ákveðnum tímapunkti fannst manni að maður hefði breyst úr skokkara í hlaupara. Það var einnig nokkur áfangi. Með tímanum hefur afstaða manns til hlaupa breyst. Í upphafi þegar maður var að byrja að skokka þá þótti manni nauðsynlegt að taka þátt í öllum keppnishlaupum sem tiltæk voru. Þá var tímamælingin á fullu. Markmiðið var að sarga nokkrar mínútur eða sekúndur af sínum besta tíma. Stundum tókst það en oftar ekki. Þegar hlaupin fóru að lengjast þá fór ánægjan og lífsfyllingin af því að geta hlaupið oft og lengi að taka yfirhöndina yfir því að þreyta kapphlaup hvenær sem tækifæri gafst. Félagslegi þátturinn er farinn að hafa meiri þýðingu. Í mörgum maraþonum er tilgangurinn ekki síður að vera með og hitta félagana á brautinni heldur en að setja sér ákveðin tímamarkmið. Ánægjan yfir því að geta hlaupið maraþon áreynslulítið verður sífellt meiri. Markmiðin hafa einnig breyst. Þau hafa orðið færri og stærri. Það er meira lagt undir en uppskeran hefur einnig orðið þeim mun betri þegar vel hefur tekist til. Maður er hættur að horfa á það sem sjálfsagðan hlut að geta hlaupið langt hvenær sem maður vill undir miklu álagi. Það eru í sjálfu sér einfaldlega ákveðin forréttindi. Um þetta erum við sammála sem erum komnir vel yfir fimmtugt á dagatalsmælikvarðanum sem er í sjálfu sér slls ekki óumdeildur sem hinn eini sanni mælikvarði. Hvað gera menn sem eru í forréttindahóp? Maður getur gert tvennt. Annað hvort haldið þessum forréttindum þétt upp að sér og sagt: "Det er mina kjöttbullar" eða maður getur deilt þeim með öðrum. Til þess eru ýmsar leiðir. Ég hef verið að velta því fyrir mér í vetur og vor hvernig það væri hægt á einhvern skynsamlegan hátt. Stundum er gott að hafa einhvern tilgang annan með hlaupum heldur en bara að komast á leiðarenda. Ég er kominn niður á ákveðna leið til að ná þessu markmiði. Kemur í ljós innan skamms.

María var í hópnum með meistaraflokk HK/Víkings þegar liðið spilaði við Selfoss í kvöld. Bæði liðin voru ósigruð svo mikið var undir. HK/Víkingur náði undirtökunum upp úr miðjum fyrri hálfleik og leiddi með þremur mrkum í hálfleik. María kom inn á þegar um 25 mínútur lifði leiks. Hún skoraði gott mark en það var dæmt ógilt vegna hárfínnar rangstöðu. Laglegt engu að síður sem veitir aukið sjálfsöryggi í hóp með eldri stelpum.

2 ummæli:

Börkur sagði...

Gangi þér vel í næstu viku

Nafnlaus sagði...

Takk Börkur