þriðjudagur, júlí 28, 2009

Nú stendur yfir aðalmeðferð í stóra skútusmyglmálinu. Það vekur athygli manns að dólgarnir sem ákærðir eru fyrir að smygla á annað hundrað kílóum af dópi til landsins fá leyfi til þess að mæta í dómssal með lambhúshettur, klúta og sólgleraugur fyrir andlitinu svo að þeir þekkist ekki. Hvað í heiminum ætli það viðgangist að dómskerfinu sé réttur fingurinn á annann eins hátt? Maður sér á myndum í erlendum fjölmiðlum að glæpamenn sem eru leiddir fyrir dómara fá stundum möppu til að bera fyrir andlitið. þeir geta líka haldið hendinni fyrir fésinu en önnur hjálpartæki fá þeir ekki að hafa. Þeir geta svo haldið möppunni fyrir andlitinu á meðan þeir hafa orku til. Þegar þeir þreytast þá er það bara þannig.

Hver er svo staða vitna í þessu kerfi? Það var brotist inn í Árbæjarapótek fyrir nokkrum misserum. Uppdópaðir strákabjánar ruddust þar inn með hótanir og dólgshátt og tæmdu einhverjar lyfjahirslur. Þeir náðust og fóru sína leið í réttarkerfinu. Þegar málið var tekið fyrir í dómskerfinu var starfsfólk apóteksins kallað fyrir sem vitni. Vitnaverndin var ekki meiri en svo að starfsfólkið sat allt að því við hliðina á innbrotsþjófunum í dómssalnum. Það var ekki spurning um að það fengi leyfi til að hylja andlit sitt eða á annan hátt að dyljast því það þurfti að þylja upp fullt nafn, kennitölu og heimilisfang framan í sakborninga jafnt sem starfsmenn dómsins. Þetta var ekkert sérstaklega skemmtileg staða fyrir starfsfólkið að þurfa að segja hvar það átti yfir alla hafandi fengið yfir sig hótanir um líkamsmeiðingar og þaðan af verra frá þessum bjálfum.

Ég sá um daginn frétt frá enskum skóla sem hafði sett upp eftirlitsmyndavélar í skólanum vegna sívaxandi skemmdarverka og annars konar óaldar innan veggja hans. Myndavélarnar gerðu það að verkum að ástandið varð allt annað og betra. Rektorinn átti ekki orð yfir hvílíkur munur þetta væri. Það leiðir hugann að því að rektorinn við Menntaskólann á Egilsstöðum vildi setja upp eftirlitsmyndavélar á heimavist skólans vegna svipaðrar óaldar fyrir nokkrum misserum. Persónuvernd bannaði það hins vegar vegna friðhelgis einstaklinganna sem bjuggu á vistinni. Gott ef vistinni var ekki lokað í kjölfarið.

Engin ummæli: