mánudagur, september 14, 2009

Það var frábær mynd í ríkissjónvarpinu í kvöld. Hún fjallaði annars vegar um innrás Sovétmanna í Ungverjaland árið 1956 og inn í þá sögu fléttaðist barátta Sovétmanna og Ungverja í sundknattleik á Ólympíuleikunum í Melbourna 1956. Síðan voru leidd fram örlög nokkurra ungmenna sem trúðu því að hægt væri að koma á frjálsu þjóðfélagi í Ungverjalandi. Það liðu um 36 ár frá þessum atburðum þar til Ungverjar lifðu þá tíma. Maður fann óhugnað lögregluríkisins streyma frá myndinni í upphafi þegar í ljós kom hvað einstaklingurinn var lítils virði í þessu samhengi öllu. Innrásin í Ungverjaland varð reyndar til þess að margir sanntrúaðir kommúnistar hérlendis fóru að efast um sæluríkið í austri væri slíkt sæluríki sem af var látið og að "Sovét - Ísland óskalandið" væri akkúrat það sem menn ættu að stefna að. Mögnuð sundknattleikskeppni varð síðan að symboli fyrir baráttu lítilmagnans gagnvart stórveldinu því þar voru þó allavega bara sjö á móti sjö. Það væri fróðlegt að vita hvar Sovéska sundknattleiksliðið lenti eftir heimkomuna eftir að hafa tapað fyrir Ungverjum af öllum liðum á þessum tímum.

Manni er spurn hve lengi konan sem vígðist fyrst kvenna til prestverka hérlendis afgreitt umræðuna um upptökuheimilið á Bjargi með því að segja að hún neiti að tala um þær ásakanir sem bornar eru á hana. Hve lengi getur kirkjan látið þessa umræðu eins og vind um eyrun þjóta? Málið er enn alvarlega en ella þar sem um er að ræða kirkjunnar þjón. Nóg er nú samt.

Fyrir nokkrum árum var sýnd í sjónvarpinu mynd um svokallaðar Margaretusystur á Írlandi. Hún gerðist á árunum fyrir 1970 og fjallaði um líf írskra stelpna sem höfðu verið teknar og settar í klaustur sem nokkurskonar betrunarhúsvist fyrir einhverja hegðan eða minni háttar afbrot. Meðferðin á stelpunum var alveg svakaleg. Klaustrin voru rekin af einhverjum trúar og ofstækisfasisma þar sem einstaklingurinn mátti sín einskis. Smám saman opnuðust augu Íra fyrir hvað fór fram innan veggja þessara klaustra og því síðasta var lokað árið 1996. Mér finnst það sé skylda samfélagsins að koma að lágmarki til móts við þá einstaklinga sem dvöldu á upptökuheimilum hér á árum áður að leiða allt það fram í dagsljósið sem hægt er og fellur undir ofbeldi og aðrar misgjörðir gagnvart varnarlausum börnum og unglingum. Mörg þeirra báru þess aldrei bætur eftir dvölina á þessum heimilum. Í því sambandi þýðir ekki að tala neitt lagatæknimál heldur þarf að tala hreina íslensku.

Það var eins og ég vissi að meðvitaða fólkið greip til tölvunnar og fór að fordæma það að þess hefði verið getið í fréttum að glæpagengi frá Póllandi og Litháen hefðu farið rænandi og ruplandi um landið. Þess var reyndar einnig getið í fréttum að íslenskir þjófar hafi stolið hlassi af leðursófum. Mér finnst það ósköp einfaldlega vera fréttnæmt ef þjófagengi eru farin að koma skipulega hingað erlendis frá og fara ránshendi um landið. Það er ennþá meir fréttnæmt ef þau eru frá ákveðnum löndum hvað sem hver segir. Það segir okkur ýmsa hluti. Þjónar það kannski ekki okkar hagsmunum að vera meðlimir af Schengensvæðinu þar sem ekki er gerð krafa um að hafa ákveðið landamæraeftirlit innan þess. Eigum við að vera innan Schengensvæðisins eða ekki? Hér hafa hreiðrað um sig alþjóðlega eftirlýstir glæpamenn án þess að yfirböld hefðu hugmynd um. Þjófagengi hafa samkvæmt fréttum stolið ógrynni af verkfærum og búnaði frá byggingafyrirtækjum og komið þeim úr landi. Sagan segir að tæki merkt íslenskum fyrirtækjum séu algeng á útimörkuðum í fyrrgreindum löndum. Þetta kemur okkur ósköp einfaldlega við hvað sem meðvitaða fólkið segir. Síðan á að koma þessu liði sem er hankað við glæpi úr landi eins fljótt og hægt er því ég vil ekki sjá mína skatta fara í að halda erlendum bófum uppi við fínan kost. Tuttuguogfimmþúsundkall á sólarhring og bófa. Nóg er nú annað sem þarf að gera við skattana.

Ég fór niður í Laugar í morgun og ætlaði að hitta Vini Gulli. Gulla var vinafá í morgun því ég mætti einn. Fór góðan túr út á Eiðistorg og svo heim.

Þvílíkur happadráttur það var fyrir land og þjóð að hafa fengið Evu Joly til að liðsinna okkur í þeirri vandasömu og erfiðu vinnu sem stendur yfir og er framundan. Hún er ekki einungis að riða netið til að hanka bófana með heldur talar hún máli lands og þjóðar í virtum erlendum fjölmiðlum. Sá liðsauki er virði þyngdar hennar í gulli. Það skyldi þó ekki fara svo að skilningur umheimsins á því hvílíkum fantabrögðum Bretar beittu sl. haust fari vaxandi.

Ég setti nokkrar myndir frá ferðinni að Merkigili inn á myndasíðuna. Slóðin er http://www.flickr.com/photos/gajul/sets/

6 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Í fyrsta lagi: Það er óumdeilt að það eykur fordóma að birta þjóðerni í fréttum af afbrotum og fordómar bitna á saklausu fólki. Talsmenn þess að þjóðerni brotamanna sé birt í fréttum tala stundum eins og það sé einhverskonar aukarefsing falin í því að greina frá þjóðerni brotamanna. Glæpamönnum af þessu tagi er nokk sama hvort sagt er frá því hvaðan þeir eru. Þeir eru ekki hluti af samfélaginu. En það bitnar hins vegar á löndum þeirra. Ef maður kýs að líta svo að í birtingunni felist aukarefsing þá er alveg ljóst að refsingin fellur ekki á brotamennina sjálfa, heldur saklausa landa þeirra.

Í öðru lagi: Það eru almennt mjög slæm rök fyrir því að skaða fólk, að aðrir geri það líka. Jafnvel þó maður telji sig vera að hefna sín á einhverju óréttlæti. Ég get ekki fallist á það sem rök fyrir þjóðernisbirtingum að það sé, eða væri gert, í útlandinu.

Í þriðja lagi: Af einhverjum ástæðum eru afbrot útlendinga á Íslandi fréttnæmari en afbrot innfæddra. Ég minnist til dæmis hrynunnar af nauðgunarfréttum sem gekk yfir í fyrra. Ef maður rýndi í útgefnar tölur, þá kom í ljós að að meðaltali voru tilkynntar um 3 nauðganir á viku í Reykjavík. Um níutíu prósent gerenda voru íslendingar. Fréttaflutningur var ekki í samræmi við þetta. Eins með þessi þjófnaðarmál. Nú hafa alltaf verið framin innbrot og þjófnaðir í Reykjavík. Það hefur verið innbrotahrina um verslunarmannahelgina síðan ég fór að hlusta á fréttir. Tilhneiging hefur verið að gera þjófnaði „góðkunningja“ lögreglunnar að einhverskonar kómík (Lalli Johns o.fl.), en sambærilegir þjófnaðir erlendra afbrotamanna eru útmálaðir sem stóralvarleg brot. Punkturinn er sá að það er verulega andstyggilegt að vera fórnarlamb afbrots. Þá skiptir engu máli hver brotamaðurinn er eða hvaðan hann kemur. Langflest afbrot á Íslandi eru framin af íslendingum.
Fréttaflutningur af þessu tagi veldur því að sá sem verður fyrir afbroti, eða fréttir af einhverjum sem hefur orðið fyrir afbroti, dettur fyrst í hug að brotamaðurinn hafi verið útlendingur. Ef afbrotið upplýsist ekki, þá heldur sú (rang)hugmynd áfram að grassera að útlendingur hafi brotið á honum. Fordómarnir aukast og fólk af öðru þjóðerni á sífellt erfiðara uppdráttar í íslensku samfélagi.

Í fjórða lagi: Íslenskt samfélag er að breytast. Það ekki bara að útlendingum á Íslandi hafi fjölgað. Fyrir utan sjálfsprottnar breytingar, þá verðum við fyrir alls konar áhrifum utan að, bæði æskilegum og óæskilegum. Þetta gerum við bæði með því að fá útlendinga hingað og með því að fara sjálf út í heim. Allir sem eru á Íslandi eru gerendur í að þróa samfélagið. Bæði til góðs og ills. Það er grunnhyggli að tengja alla aukningu á afbrotum við fjölgun útlendinga.

Í fimmta lagi: Hvernig skildi standa á því að menn eru svona uppteknir af þjóðerni brotamanna? Hvaða skýringargildi hefur það?

En punkturinn er semsagt þessi: Þjóðernisbirtingar í afbrotafréttum auka fordóma, sem bitna á saklausu fólki og bæta þar að auki sjaldnast neinu við fréttirnar.

M.a.o. ertu búinn að redda þér Icesave bol fyrir London – Brighton hlaupið?

Grímur

Börkur sagði...

Þegar verið er að greina frá ránum og öðrum afbrotum hér í Noregi sýnist mér að í meirihluta tilfella er greint frá þjóðerni. Oftast er um að ræða Rúmena en þjófagengi frá Rúmeníu virðast vera mjög skipulögð hér í Noregi.

Það er bara sjálfsagt og eðilegt mál og fólk af viðkomandi þjóðerni hefur áhyggjur af fordómu í sinn garð þá einfaldlega hættir það að fremja afbrot.

Þ.e.a.s. don´t treat the symptons, treat the cause!

Nafnlaus sagði...

Mér finnst það ósköp einfaldlega skipta mig máli ef erlend þjófagengi eru farin að streyma til landsins. Mér finnst skipta máli að vita frá hvaða löndum þau eru. Mér finnst það skipta máli að íslensk fangelsi eru orðin svo yfirfull af erlendum bófum að það horfir til vandræða. Nóg er nú að hafa þá íslensku fyrir þótt svo að allt hitt bætist ekki þar ofan á. Ég fylgist það mikið með fréttum frá öðrum Norðurlandanna að ég veit að þar er yfirleitt tekið fram ef um erlenda glæpamenn er að ræða. Almenningur vill fá að vita hvað er að gerast í samfélaginu. Það er alveg dæmigert fyrir íslendinga að vera allt í einu orðnir svo svo meðvitaðir og júniversal að það megi ekki ræða hlutina eins og þeir eru af því að það gæti verið óþægilegt fyrir einhvern.
Ég geri svo ráð fyrir að hlaupa í bol með íslenska fánanum í LB. Ég gæti best trúað því að menn myndu trúa því að Icesafe hefði sponsörerað mig ef ég birtist í slíkum bol ef þeir væru á annað borð eitthvað að spekúlera í því sem ég efast um.

Nafnlaus sagði...

Gunnlaugur: Ég held við séum sammála um að ekki sé rétt, að allir fái alltaf að gera allt það sem þá langar til. Stundum sé rétt að neita mönnum um að fullnægja fyllstu löngunum sínum vegna þess að samfélagsheill krefjist þess. Meiri hagsmunir þurfi stundum að víkja fyrir minni eins og orðaleppurinn segir. Hins vegar virðist okkur greina á um alvarleika kynþáttafordóma. Í mínum huga eru kynþáttafordómar algert eitur og rökin gegn því að þeim sé leyft að vaxa og grassera í samfélaginu fjölmörg: efnahagsleg, siðferðileg, uppeldisleg, menningarleg o.s.frv. Kynþáttafordómar bitna ekki einungis á þeim sem verða fyrir þeim. Lífsgæðin minnka hjá þeim sem haldnir eru fordómum og samfélagið í heild þjáist ekki síður.

Orðalag eins og að "gæti verið óþægilegt fyrir einhvern" lýsa nokkuri léttúð þegar um kynþáttafordóma er að ræða, en ég geri ráð fyrir að þú hafir bara tekið svona til orða.

Allnokkru er fórnandi fyrir samfélag án fordóma og vönduð fréttamennska og varfærni í þjóðernisbirtingum eru ekki stór fórn í mínum huga.

Fólk er oft mjög viðkvæmt fyrir því að maður nefni kynþáttahatur þegar innflytjendur á Íslandi ber á góma. Til að fyrirbyggja allan misskilning, þá er ég ekki að kalla þá sem vilja þjóðernisbirtingar rasista, heldur að benda á, að þess háttar fréttamennska hefur í för með sér hættu á auknum rasisma.

Börkur: Mér sýnist á skrifum þínum að við séum báður búsettir í Skandinavíu. Fyrir skömmu bárust fréttir af löndum okkar sem brutu alvarlega af sér hér um slóðir. Annar misþyrmdi konunni sinni og fékk aðra til þess að nauðga henni og hinn nauðgaði tíu ára stelpu. Það er engu líkara en að þú gerir ráð fyrir að síðasta hugsunin sem fór í gegn um kollinn á þessum glæpamönnum áður en þeir frömdu voðaverkin hafi verið : "Ég ætti náttúrulega ekki að vera að gera þetta. Ég gæti valdið löndum mínum óþægindum hérna úti". Hefði sú hugsun aðeins verið örlítið sterkari, þá hefðu fórnarlömbin sloppið.

Eða er ég að missa af einhverjum hárfínum punkti í röksemdafærslunni?

Er ekki rétt hjá mér að þú sért að líta framhjá þeirri staðreynd að menn sem fremja alvarlega glæpi, kæra sig almennt kollótta um hvort gjörðir þeirra valdi auknum fordómum í garð landa sinna eða trúbræðra? Eða hvaða afleiðingar það hefur?

"Þetta er gert svona í útlöndum" eru slæm rök, nema eitthvað fleira fylgi með.

En varðandi fjölda útlendinga í íslenskum fangelsum þá má ekki líta fram hjá þrennu: Það komu 502 þúsund manns til Íslands í fyrra, íslensk fangelsi rúma ekki marga og íslenskir krimmar hafa lengi verið með n.k. klippikort. Fyrstu 4 dómarnir fríir og settir inn eftir fimmta dóm (sic.). Útlendingum er hins vegar almennt stungið inn strax eftir dóm.

Grímur

Nafnlaus sagði...

Ég held að það sé nú rétt að hafa eitt alveg á hreinu. Pólverjar eru ekki kynþáttur. Litháar eru ekki kynþáttur. Þarna er um þjóðir að ræða. Einhverra hluta vegna koma fleiri bófar hingað til lands frá þessum löndum en t.d. frá Danmörku, Svíþjóð, Noregi og Englandi. Hvers vegna skal ég ekki segja til um en mér finnst mjög eðlilegt að vera upplýstur um það. Að fara að fjasa um kynþáttafordóma í því sambandi segir segir mest um þann sem það gerir.

Nafnlaus sagði...

Það má alveg fallast á að pólverjar og litháar séu ekki kynþáttur ekki frekar en gyðingar, tútsar eða norsk-sómalir. En þeir verða engu að síður fyrir fordómum. Mér hefur alltaf þótt auðveldast að tala bara um kynþáttafordóma eða rasisma. Þótt óþarfi að gera greinarmun á kúki og skít.

Reyndar hefur orðið kynþáttur verið notaður um ýmislegt. Því var til dæmis haldið fram að danir og íslendingar væru sinnhvor kynþátturinn þegar sjálfstæðisbaráttan stóð sem hæst. En til að búa til umræðugrundvöll, þá gætum við búið til (eða fundið) orð fyrir það sem ég kalla kynþáttafordóma en þú ekki. Þá á ég við fordóma sem nota uppruna fórnarlambana sem átyllu.

En hvaða orð sem við notum, þá þurfum við íslendingar engu að síður að halda vöku okkar þegar „fordómar sem nota uppruna sem átyllu“ eru annars vegar. Það er erfitt að snúa ofan af ruglinu þegar það nær sér á strik.

Aftur; svo það sé á hreinu. Ég er ekki að saka þá sem vilja þjóðernisbirtingar um kynþáttafordóma, heldur að vara við hættunni á auknum kynþáttafordómum þegar þeirri stefnu er fylgt.

Sumir hafa haldið því fram að allir þeir sem pressa stíft á að þjóðerni erlendra afbrotamanna sé birt séu haldnir kynþáttafordómum. Þeir vilji fá staðfestingu á þeim og stuðning við þá í fjölmiðlum. En ég er ekki einn af þeim. Að mínu mati geta verið fullkomlega eðlilegar hvatir að baki krafna um þjóðernisbirtingar, en ég tel hins vegar sterk rök gegn því að farið sé að þeim kröfum. Þau rök snúast um hættu á auknum kynþáttafordómum og skaðleg áhrif þeirra á samfélög og einstaklinga.

En nóg um það. Gangi þér vel í London – Brighton.

Grímur