miðvikudagur, september 16, 2009

Það voru tvær óvanalega góðar heimildarmyndir í sjónvarpinu í kvöld. Hin fyrri var frá Stuttmyndahátíðinni í Skjaldborg á Patreksfirði sem haldin var um mánaðamót maí/júní í vor. Einhverju snjöllu fólki á Patró langaði að gera eitthvað nýtt fyrir nokkrum árum og ákvað að prufa að kalla til Stuttmyndahátíðar. Það tókst heldur betur. Miðpunkturinn er Skjaldborg, gamla samkomuhúsið á Patró, sem var byggt árið 1936. Lionsmenn gerðu það síðan myndalega upp fyrir nokkrum árum svo það stendur virkilega undir nafni sem bíóhús, með hallandi sal, poppvél og öllu sem til þarf. Þarna sá maður sínar fyrstu alvöru bíómyndir hér áður. Það var líklega þegar átti að læra sund á Patró. Það var náttúrulega mikil upplifun að sjá alvöru bíómyndir á þeim tíma og bíóið var mikið sótt. Þetta hefur verið í kringum 1965. Þarna voru líka haldnir miklir dansleikir. Ekki gleymist þegar Dátar komu í bæinn og ég og annar strákur duttu í þann lukkupott að vísa þeim leiðina að Skjaldborg í hljómsveitarrútunni. Þá voru alvöru poppstjörnur komnar í bæinn. Hins vegar við götuna brá svo fyrir "Þórskaffi" þar sem haldnar voru fagrar veislur í kringum 1980. Gísli Þór var gjarna með opið hús að afloknum dansleikjum á Patró og þá var safnast saman í "Þórskaffi". Þetta voru fínir tímar. Gamla Vatneyrarsmiðjan er síðan gengin í endurnýjun lífdaga og hýsir sjóræningjasafn. Ekki man ég eftir miklu af sjóræningjum á Patró eða nærsveitum en sama er, þeir komu víst við þar vestra hér áður fyrr á árunum.

Seinni myndin var frá Grænlandi. Fín mynd sem gaf svolitla innsýn í hugarheim og umhverfi nokkurra listamanna í Nuuk sem unnu landinu sínu, vildu veg þjóðarinnar sem mestan og langaði alltaf heim þegar þau voru erlendis. Grænlenskar myndir og grænlenskir þættir eru mjög fáséðir í íslensku sjónvarpi, því miður. Grænlensk tónlist heyrist aldrei. Maður stendur alltaf frammi fyrir því þegar horft er á svona myndir hvað maður veit lítið um Grænland og grænlendinga. Næstum því ekki neitt. Ferðin sem við fórum yfir til Angmassaliq fyrir tveiur árum til að keppa í ATC keppninni er ógleymanleg. Hún er eitt af því sem gleymist ekki hvernig sem allt veltist. Það er allt svo allt öðruvísi þarna. Byggðirnar, fólkið, landið og menningin. Ég gæti alveg hugsað mér að búa á Grænlandi einhvern tíma. Fyrir utan daglegan kost þarf maður byssu og myndavél. Hraðbátur er æskilegur. Þetta er ekki flókið. Við Jói fórum fyrir skömmu á myndasýninu í fuglaverndarfélaginu niður í Borgartún. Þar voru sýndar myndir frá Angmassaliq annars vegar og hins vegar frá svæði fyrir norðan Scorisbysund. Það var dálítið merkilegt að dýralifið var miklu fjölbreyttari þar en fyrir sunnan sundið.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Já Gulli, það er mikil drift í menningunni á Patró þessi misserin sem betur fer. Mér finnst frábært að sjá hvað fólk er samtaka og hvers það er megnugt að rífa upp skemmtilega stemmingu. Skjaldborg á sinn stað í minningunni sem bíóhús og ballstaður. Fyrsta bíómynd sem ég sá í Skjaldborg var um Denna dæmalausa og fór ég með Mundadætrum að sjá myndina, í nýjum hvítum gammosíum og alles... sennilega um 4-5 ára ;-). Barnaböllin um jólin og síðar skröllin þegar ég eltist.....alltaf stanslaust gaman í Skjaldborg.