laugardagur, maí 08, 2010

Ég skrapp austur fyrir fjall í gærkvöldi til að taka myndir af gosinu í Eyjafjallajökli. Ýmissa hluta vegna hef ég ekki komist þangað fyrr en nú. Það hefur verið dumbungur langtímum saman svo það hefur ekki verið mikið í að sækja. Einnig hefur maður ekki komist þá sjaldan þegar vel hefur viðrað. Það er dálítið merkilegt að sjá mökkinn rísa til himins strax af Kömbunum og ég tala nú ekki um þegar nær dregur. Með fullri virðingu fyrir aðstæðum þess fólks sem hefur lent í mekkinum þá má þó segja að landsmenn hafi sloppið eins vel og frekast er unnt. Hugsa sér ef mökkurinn hefði legið yfir Suðurlandsundirlendinu þann tíma sem liðinn er síðan fór að gjósa. Það var lágskýjað undir Eyjafjöllunum svo ég fór upp í Fljótshlíð. Þá var jökullinn laus við öll ský svo gosið naut sín vel. Þegar fór að dimma þá fóru hraunsletturnar að koma í ljós. Það var magnað að sjá þegar hraunflykkin þeyttust í háloft og voru lengi að svífa niður. Það var ljóst að vel var kynt undir. Það var töluverð umferð bíla inn í Fljótshlíðina í gærkvöldi í veðurblíðunni. Það var logn og hlýtt. Á bakaleiðinni lá dalalæða yfir miklum hluta Suðurlandsins í vorblíðunni.

Fór út í morgun tæplega 7:30 og fór 20 km hring. Ég hef hlaupið lítið í vikunni svo ég ákvað að taka hraða æfingu tilað bæta fyrir lítið innlegg og sjá hvernig hvíldin hefði skilað sér. Ég Þurfti einig að vera kominn frekar snemma heim til að ná að komast niður í Laugardal til að hjálpa til við Víðavangshlaupið. Ég hélt góðum dampi gegnum allt hlaupið. Hitti Jóa í miðbænum og við hlupum saman inn í Laugar. Fínt hlaup og allt í sóma. Prófaði Kayano skona og það liggur við að ég kunni betur við þá en Nimbus skóna. Báðir eru þó góðir.

Engin ummæli: