sunnudagur, maí 16, 2010

Heimsmeistarahlaupið og Evrópumeistaramót í 24 tíma hlaupi var haldið í Brive í Frakklandi á þriðjudag og miðvikudag. Mætingin var firna sterk og flottur árangur náðist. Lengst hljóp Inoue frá Japan 273,7 km. Annar var Scott Jurek frá Bandaríkjunum sem hljóp 266,7 km og þriðji var Cudin frá Ítalíu sem hljóp 263,8 km Allir settu einnig landsmet. Jon Harald Berge var fyrstur Norðurlandabúa en hann hljóp 255,8 km og varð í 7. sæti. Hann setti einnig norskt met. Þessi árangur sýnir hvað mikið er að gerast í þessari grein ofurmaraþona. Alls tóku 158 karlar og 78 konur þátt í hlaupinu. Mínir 217 km frá því í hitteðfyrra hefðu dugað til ca 58. sætis í karlaflokki og 67 sætis af öllum.

Það var gott viðtal við Scott Jurek í New York Times nýlega. Hann er kominn í mikið form og nú ætlar hann að fara að takast á við tímahlaupin. Þó er eitt hlaup sem hann segist eiga eftir að takast á við af fullum krafti en það er Mont Blanc hlaupið. Hann er búinn að reyna þrisvar við það, hefur hætt í tvö skipi og var í 18. sæti í þriðja skiptið. Hann langar til að sigra í því. Viðtalið er á þessari slóð http://www.nytimes.com/2010/05/13/sports/13runner.html?ref=sports

Ég tók síðustu löngu æfinguna á fimmtudaginn. Ég hljóp út í Fossvogsbotn, þá yfir Kópavogsháls, fram hjá Fífunni og upp á hálsinn, til baka fram hjá Smáralindinni og upp tröppurnar, niður þær til baka og áfram inn dalinn og upp HK brekkuna. Síðan þvert yfir Fossvogsdalinn og upp að Réttarholtsskóla, svo niður stokkinn ofan í Elliðaárdal. Síðan upp að sunnanverðu og upp skástíginn við stífluna sem leið lá upp að Breiðholtinu og síðan inn malarstíginn inn að stígnum fyrir neðan kirkjuna. Þá niður að brúnni innst í Víðidalnum og yfir að Árbæjarlauginni. Þar var fyllt á vatnsbrúsa og síðan niður í Elliðaárdal, svo Árbæjarstokkinn upp að Mjólkurfélagi, þar inn og niður í Grafarvoginn. Þá sem leið lá upp í Geislahverfið og síðan niður brekkuna og upp brekkuna og inn að brúnu heitavatnstönkunum. Þaðan lá leiðin til baka niður í Grafarvog, niður að Gullinbrú að sunnanverðu, gegnum Bryggjuhverfið og svo heim. Fínn túr. 30 mínútum fljótari en í október. Ég hef farið þessa leið einu sinni á ári frá því að við Pétur og Halldór fórum hana fyrst veturinn 2005. Þó hef ég bætt HK brekkunni við.

Í gær fór ég svo sjöttu hitaæfinguna í World Class. Þá setti ég á öfugan halla og hljóp 10 km á -3° á 40 mín. Það verða niðurhlaup í Comrades svo þetta er ágætis undirbúningur. Ég tek nokkrar svona æfingar í næstu viku og svo er þetta búið.

Við í Asicshópnum fengum sumarlínuna í vikunni. Það var fínt sett, síðar og stuttar buxur, bolir og blússa. Asics gerir virkilega vel við hópinn og fötin eru fín.

Það er með ólíkindum að fylgjast með afferunni í kringum réttarhöldin yfir lýðnum sem braust inn í Alþingishúsið í fyrra og slasaði m.a. þingvörð. Nú hafa þingmenn farið að skifta sér af dómsvaldinu. Maður veit ekki á hvaða leið þetta er. Ef þingmenn handa að þeirra hlutverk sé m.a. að hafa áhrif á dómsvaldið þá er kompásinn orðinn meir en lítið skakkur. Hvar í hinum vestræna heim ætli yfirvöld væru að velta fyrir sér að flytja dómshald vegna þess að æpandi lýður væri fyrir utan dómssalinn. Hver veit nema að þetta sé sami lýðurinn sem sótti að lögreglunni með grjótkasti í fyrra. Ég hélt að yfirvöld hefðu annað við tímann að gera en að hugsa um svona mál. Í New York komast svona ca 100 manns í dómssal. Fyrstir koma fyrstir fá. Þar bíða áhugasamir kurteisir í biðröð. Hér standa menn æpandi og öskrandi, rífast við dómarann og slást við lögguna.

Engin ummæli: