sunnudagur, júní 27, 2010

Börkur tók þátt í Western States nú á helginni. Því miður þurfti hann að hætta keppni þegar um 15 mílur voru eftir. Það var greinilega heitt á svæðinu þessa dagana. Þegar hitinn er mikill í Squaw Valley og Auburn þá er fyrir alvöru heitt í gljúfrunum sem farið er í gegnum um miðjan daginn. Þegar ég fór þarna í gegn fyrir fimm árum þá var tunna með ísmolum á Devils Thumb. Það var nærtækast að fylla húfuna af ís og troða henni svo á hausinn. Það svalaði um stund. Börkur lagði hart út og var í sæti 65-80 framan af en þegar ég opnaði fyrir vefinn í morgun þá sá ég að það var farið að draga af honum. Hitinn hefur greinilega slegið hann út. Það er synd að hann skuli ekki hafa náð að upplifa það að koma inn á íþróttaleikvanginn í Auburn eftir að hafa sigrað WS. Á hinn bóginn eru tímabundnir erfiðleikar bara til að styrkja mann. Reynslubankinn er dýrmætur við átök komandi tíma. Western States er hinsvegar ekkert "Walk in the Park" eins og einhver hélt á dögunum.

Jói minn þurfti að lesa Íslandsklukkuna í skólanum í vetur. Í byrjun var bókin eitthvað svarthol sem honum leist ekkert á. Við tókum þetta verkefnið hins vegar saman, fórum skipulega í gegnum bókina sem reyndist hin skemmtilegasta lesning fyrir okkur báða þegar upp var staðið. Honum gekk mjög vel í prófunum sem krakkarnir tóku úr bókinni svo eitthvað hefur síast inn. Það var langt síðan ég las Íslandsklukkuna svo þetta var einnig ákveðin upplifun fyrir mig að lesa bókina. Hún er tvímælalaust ein af allra bestu bókum Kiljans. Þar sem okkur féll svo vel við bókina þá var það ekki spurning að við myndum fara á leikritið sem sýnt var í Þjóðleikhúsinu í vetur. Við fórum svo um daginn og sáum þetta mikla verk.

Mér finnst það skera úr um hve vel leiksýning nær til manns er í hvaða fjarlægð ég sem áhorfandi er frá sýningunni. Er ég áhorfandi og án tengingar við það eða er ég hluti af verkinu. Það er fljótt frá sagt að ég náði aldrei sambandi við Íslandsklukkuna í Þjóðleikhúsinu. Vitaskuld er verkið langt og ég vildi ekki hafa horft á það nema að hafa rétt nýverið lesið bókina. Sama er, mér fanns vanta mikið í uppsetninguna til að hún gæti hrifið mig. Það var aldrei drama, hápunktur né spenna.

Í heild sinni fanns mér leikaravalið gengisfella sýninguna stórlega. Það virkaði hroðvirknislegt í mínum augum og hæpnar tilraunir gerðar til að poppa verkið upp með ungum leikendum. Snæfríður Íslandsssól. Konur sem virðast vera komnar langt á fertugsaldur verða ekki að unglingsstelpum við það eitt að flissa. Mér fannst leikkonan sem lék Snæfríði fyrst passa almennilega í hlutverkið á lokaköflum þess þegar hún var komnin undir fertugt. Magnús í Bræðratungu, sá mikli brennivínsberserkur og deli, virkaði á mig eins og ölkær nýstúdent sem hefur haldið aðeins of lengi upp á lélega lokaeinkunn. Það trix að láta kvenmann leika Jón Grindvigsen var algerlega mislukkað. Það kom enginn karakter út úr persónunni og hún hreif ekki. Það vantaði ekki að leikarinn sem lék Arenus kynni rulluna sína en það var líka það eina sem hann hafði upp á að bjóða. Það hefði eins verið hægt að hafa segulband á sviðinu, svo karakterlaus var náunginn sem fór með hlutverkið. Hann getur verið nothæfur í auglýsingu hjá FL group en þarna, nei takk. Presturin var hæfilega perralegur eins og hann átti svo sem að vera og Ingvar skilaði Jóni Hreggviðssyni þokkalega. Hann situr hins vegar ekkert í manni sem sterkur karakter. Mér fannst á hinn bóginn bæði danski grósserinn og hina danska eiginkona Arneusar skila sínu vel, svo maður nefni eitthvað jákvætt um leikarana. Leikmyndin var hins vegar sniðuglega útfærð og flott hvernig hægt var að skapa stemmingu og setja upp svið með tiltölulega fáum munum.

Ég vitna alltaf í Veisluna sem sýningu sem mér finnst erfitt að toppa. Þar sam maður kaldsveittur sýninguna út í gegn og þurfti að halda sér í stólinn þegar mest gekk á. Eins fannst mér Djöflaleyjan á sínum tíma vera afkaplega skemmtileg sýning sem hverfur ekki svo glatt úr innra minninu.

Engin ummæli: