mánudagur, júní 21, 2010

Ég kom heim frá Borgundarhólmi í gærkvöldi. Að fara í gegnum tollskoðun á þessum leiðum er eitt af því sem er ekki sérstaklega áhugavert en partur af svona ferðalögum. Mér finnst það þó frásagnarinnar virði að halda til haga muninum á að fara annars vegar í gegnum tollinn á Kastrup og Keflavík hinsvegar í gær.

Á leiðinni heim var ég í bol sem ég fékk í hlaupinu á Borgundarhólmi því hreinu fötunum var farið að fækka aðeins. Þegar ég var búinn að láta töskuna, tölvuna og þetta vanalega á bandið í Kastrup við tollskoðunina (þar þarf maður aldrei að fara úr skónum) þá gekk ég í gegnum píphliðið. Þegar ég kom í gegn um það þá vissi ég ekki fyrr en það sveif á mig stærðarinnar tollvörður í fullum skrúða, faðmaði mig, klappaði mér utan og hrósaði mér fyrir að taka þátt í hlaupum af þessu tagi. Ég hef aldrei séð manninn áður en honum fannst það greinilega svo ánægjulegt að sjá að einhverjir væru að takast á við erfið hlaup að hann vílaði ekki fyrir sér að svífa á ókunnugan mann og faðma hann að sér af aðdáun. Þetta var bara skemmtilegt og gott að sjá svona mannlega tollara.

Svo kom ég heim til fyrirheitna landsins, náði í töskuna, keypti tollinn og ætlaði svo að ganga út í gegnum græna hliðið eins og lög gera ráð fyrir. Tveir strákar í búning voru við gæslu og það skipti engum togum að ég var einn kallaður til hliðar það ég sá. Þar voru engin faðmlög. "Megum við skoða í töskuna hjá þér?" spurði annar valdsmannslegri röddu. Ég hélt nú það og sagði þeim að skoða í hana eins og þeir hefðu lyst til. Súr hlaupaföt á öðrum degi eru ekki skemmtilegasti dammur sem maður kemst í. "Hvaðan varstu að koma?" spurði hinn og reyndi líka að sýnast valdsmannslegur. Ef það er eitthvað sem pirrar mig þá eru það svona bjánaspurningar. Farþegar frá Kaupmannahöfn voru þeir einu á vellinum. Ég sagðist vera að koma frá Danmörku og spurði hvort ég mætti það ekki. "Jú jú" svaraði valdsmaðurinn og sagði svo: "Þú varst að hlaupa, til hamingju með góðan árangur" Þá skildi ég hvað klukkan sló. Þeir þekktu mig, vissu alveg hvað ég hafði verið að gera og biðu sérstaklega eftir að ég kæmi til að gegnumlýsa allt sem ég var með meðferðis. Hvað heldur þetta lið að maður sé að gera? Smygla dópi eða hvað?? Það er allt annað að vera pikkaður út úr fjölda sem nafnlaus persóna en svona lagaðar trakteringar kann ég ekki við. Ég ansaði engu um hamingjuóskirnar en spurði hvort þeir vildu ekki líka kíka í brennivínspokann. Þeir höfðu engan áhuga á því. Öðruvísi mér áður brá. En þetta var ekki búið. Þegar minni taskan kom úr gegnumlýsingunni þá rumdi í öðrum: "Það er eitthvað mikið af rafmagnstækjum í töskunni" Ég var orðinn hálf snefsinn og sagði sem var að þarna væri tölvan og einhver hleðslutæki og bað hann endilega að fara í gegnum hana alla til að sannreyna það sem ég segði. Líklega hef ég þó gleymt að gera grein fyrir litlu myndavélinni sem ég keypti fyrir fimm árum síðan og var þarna samanvið. "Nei, nei þetta er gott" sagði hann og með það fór ég í gegn, bálillur.

Ég er búinn að fara í gegnum tollskoðun í London, París, Jóhannesarborg og Kastrup á undanförnum vikum með sama hleðslutækjadraslið í töskunni. Þar deplaði ekki nokkur maður auga yfir því sem í henni var. Í Keflavík þarf maður að tæta allt svona lagað upp og leggja það í bakka áður en taskan fer í gegnum gegnumlýsingu. Sama er með skóna. Ég spurði þegar ég fór síðast út hverju þetta sætti. Mér var sagt að það væri út af kröfum vegna Ameríkuflugs. Ég hefði náttúrulega átt vita þetta. Það flýgur vitaskuld engin vél til Bandaríkjanna frá Heathrow, París, Kastrup eða Jóhannesarborg. Það segir sig sjálft.

Takk fyrir góðar kveðjur. Ég renni inn frásögn af hlaupinu innan skamms.

2 ummæli:

Hvekkur sagði...

Til hamingju enn og aftur!
Þú getur alltaf á þig blómum bætt!
Frábært hjá þér!

Bestu kveðjur frá okkur öllum!

Ágúst Eiríkssonhotifi

Nafnlaus sagði...

Til hamingju með undanfarna daga Gunnlaugur. Þú stendur þig vel.
Kv. Hólmfríður Vala