sunnudagur, júlí 11, 2010

Ég er farinn að rúlla ágætlega á nýjan leik. Það er alltaf smá stirðleiki til staðar þegar byrjað er aftur eftir nokkurt hlé. Það tekur því smá tíma að koma sér í gang á nýjan leik. Þetta þekki ég frá fyrri árum og veit því hvernig þetta er. Veðrið núna er reyndar svo gott að það kallar á mann út. Fór fínan túr í gær með Gauta, Jóa og Sigurjóni. Var aftur á móti einn í hringnum í morgun.

María var að keppa á meistaramótinu í frjálsum í gær. Hún varð 3ja í 100 m grind en langstökkið fór í vaskinn. Það er eins og gengur, hún er að koma til baka úr meiðslum og þá tekur smá tíma að fínstilla sig.

Fréttamennskan er ekki alltaf burðug. Í vikunni var forsíðufrétt í Mogganum þar sem kom fram að vaxtagreiðslur ríkisins væru um 20% af fjárlögum. Og svo ekkert. Það var ekkert sagt hvort þetta væri mikið eða lítið, hvernig þessi niðurstaða væri í samanburði við önnur ríki og svo framvegis. Svona tölur segja ekkert ef það er engin viðmiðun. Það er því miður staðreynd að þessi vaxtabyrði ríkisins er gríðarlega há og líklega með því alhæsta hér á Vesturlöndum.

Í framhaldi af þessu þá varð manni um og ó þegar fréttir birtust af því að verðlaunatillaga um nýjan ríkisspítala var afhjúpuð. Þetta projekt á að kosta 55 milljarða samkvæmt fjárhagsáætlun. Raunveruleikinn er hins vegar oftast miklu verri því kostnaðaráætlanir um opinberar framkvæmdir standast sjaldnast ef nokkurn tíma. Ekki þarf að líta á nema monthúsið við höfnina og nýbygginguna á Laugardalsvellinum. Stúkan á Laugardalsvellinum kostaði þó ekki nema rúman milljarð og monthúsið endar líklega í 26-8 en átti að kosta 12 í upphafi. Þetta hús kostar 55 milljarða samkvæmt fjárhagsáætlunum þannig að hvert prócent í frávik kostar 500 milljónir. Það eru miklir peningar fyrir þjóð sem nú þegar þarf að ráðstafa 20% tekna ríkisins í vaxtagreiðslur. Ég hef náttúrulega ekkert vit á þessu en mér fundust byggingarnar furðulega margar og flóknar. Það er örugglega ekki ódýrasta lausnin sem var kynnt á dögunum. Staðsetningin er annar hluti. Umferðarþunginn er mjög mikill vestur Miklubrautina á morgnana og síðan til baka síðdegis. Sjúkrahús þarfnast greiðra umferðarleiða. Af hverju það sé ekki stað sett miðsvæðis á höfuðborgarsvæðinu frekar en úti á útkanti höfuðborgarsvæðisins. Þarna er verið að taka ákvarðanir til næstu 50-100 ára en ekki til næstu vikna eða mánuða.

Síðan var sagt að lífeyrissjóðirnir fjármögnuðu bygginguna. Hvað þýðir það. Ætla lífeyrissjóðirnir að byggja spítalann fyrir sinn eigin kontó og thats it. Nei ekki aldeilis. Lífeyrissjóðirnir leggja líklega fram peningana en ríkið endurgreiðir þeim byggingarverðið á ákveðnum tíma, með vöxtum. In princip skiptir ekki máli fyrir ríkið hvort lífeyrissjóðirnir leggja fram fjármagnið og ríkið endurgreiðir þeim á ákveðmnum tíða eða hvort lán er tekið í banka. Ríkið tekur á sig skuldbindingu sem þarf að standa við. Það eru engin trix til í þessu sambandi.

Að lokum var sagt í fréttinni að það sem skipti kannski mestu máli væri að fólk fengi vinnu við bygginguna. Ég ætla rétt að vona að það sé ekki nein atvinnubótahugsun í þessu plani öllu. Á þeim tímum sem við lifum núna þá má alls ekki leggja í fjárfestingu af þessari stærðargráðu nema að hún sé þjóðhagslega hagkvæm og það töluvert mikið. Ef fjárfesting eykur skulda og útgjaldabyrði ríkisins til lengri tíma en léttir hana ekki þá er verr af stað farið en heima setið.

Hér áður fyrr á árunum voru meintir bandittar í Bandaríkjunum gjarna teknir og þeim velt upp úr tjöru og fiðri án annara réttarhalda en dómstóls götunnar. Síðan voru þeir teknir, settir upp á hestbak og þeir sýndir almenningi í bæjunum, þeim til háðungar og öðrum til varnaðar. Mér finnst ásókn ákveðinna einstaklinga í að nöfn einhverra karla sem hafa keypt sér þjónustu vændiskvenna vera af þessum toga. Þeir vilja birta nöfn þeirra og myndir af þeim til að rústa mannorði þeirra í eitt skipti fyrir öll, líklega svo að það verði öðrum víti til varnaðar. Hvað vissu þessir karlar um að þessar konur væru starfsmenn einhverrar kellingar sem stjórnaði þeim og hirti hluta af þóknuninni. Líklega ekki neitt.

Nú er HM búið. Þá er ekki lengur hægt að pirra sig á kynjahlutfallinu í hópnum sem fjallaði um leikina. Líklega verður hafin leit að nýju targeti.

Ítalir eru greinilega ekki meðvitaðir. Þeir voru óbangnir við að segja frá því í þarlendum fjölmiðlum að strákafíflin sem urðu til skammar þar í landi með fylleríslátum á götum úti fyrir skömmu (í Mílanó að því mig minnir) væru frá Íslandi. Hvað ætli meðvitaða liðið hérlendis segi um þetta?

Engin ummæli: