fimmtudagur, júlí 29, 2010

Í Morgunblaðinu í dag er skýrt frá því að vísitala neysluverð hafi lækkað annan mánuðinn í röð. Sasmtals hefur því vísitalan lækkað um 0,99% á þessum tveimur mánuðum. Rætt er við nokkra aðila sem málið er talið varða og allir eru mjög ánægðir með þessi tíðindi. Lánin lækka og ég veit ekki hvað. Þetta sýnir aðeins hvað umræðan er oft grunn hérlendis. Í hinum stóra heimi er verðbólga talin slæm en verðhjöðnun ennþá verri. Í verðhjöðnun dregur almenningur úr neyslu og fyrirtæki draga úr fjárfestingum því meginreglan er sú að beðið sé eftir að verðlag lækki enn meir. Að verðhjöðnunin verði enn meiri. Þeir sem eiga peninga í handraðanum eyða sem minnstu því þeir fá meira fyrir peningana á morgun heldur en þeir fá í dag. Nú skiptir kannski ekki máli þótt það verði verðhjöðnun í einn mánuð eða tvo en ef hún verður viðvarandi þá fer þetta að skipta máli. Það er til dæmis hægt að skoða þróun efnahagsmála í Japan í þessu sambandi. Þar var verðhjöðnun ríkjandi um áraraðir. Vextir voru komnir nær því niður í 0 í þeim tilgangi að örva hagvöxt. Ef halda á verðbólgu í skefjum skiptir hins vegar mestu máli að hafa hemil á ríkisútgjöldum. Eyða minna en menn afla. Það þýðir hins vegar meira atvinnuleysi. Það er því erfitt að gera svo öllum líki.

Nú er verið að senda út álagningarseðla skattstofunnar. Sumir hafa vangreitt en aðrir fá endurgreiðslu. Ellilífeyrisþegar verða að endurgreiða marga stórar fjárhæðir sem þeir hafa fengið ofgreitt. Hluti af ástæðu þess er að þeir hafa verðbætur á peninga sem þeir eiga í banka. Þarna er ekki við starfsfólk TÍ að eiga heldur fer það vitaskuld eftir lögum. Lögin eru hins vegar arfavitlaus. Ef maður á 100 krónur í banka um áramót og verðbólgan er 0% þá á maður 100 krónur í lok ársins í bankanum. Innistæðan er jafngild að verðmæti í ársbyrjun og í árslok. Tryggingabætur skerðast ekki. Ef maður á 100 krónur í ársbyrjun í 10% verðbólgu og fær verðbætur á inneignina þá á maður 110 krónur í árslok. Verðmæti og kaupmáttur innistæðunnar er jafnhátt í ársbyrjun og árslok. En þá eru 10 krónurnar sem eru bætur fyrir minna verðmæti hverrar krónu reiknaðar sem tekjur og gerðar eru kröfur um endurgreiðslu á ofgreiddum tryggingabótum sem þessu nemur. Ríkið græðir því á verðbólgunni sem þessu nemur. Ég veit ekki hvaða mannvitsbrekka hefur fundið það út að verðbætur á innistæður séu launatekjur. Í mínum huga eru þær bætur fyrir minnkandi kaupmátt hverrar krónu yfir árið þannig að innistæða sé jafngild í árslok eins og hún var í ársbyrjun. Þarna fer í raun fram eignaupptaka hjá öldruðum sem hafa getað lagt fyrir einhverjar krónur í gegnum árin.

Fjölmiðlamenn keppast hver við annan að vitna í bloggfærslur út og suður og svokallaðar undirskriftasafnanir á Facebook eins og þetta sé einhver alvörufaktor í samfélaginu. Síðan er endalaust vitnaði einhver undarleg samtök sem nefna sig t.d. "Hagsmunasamtök heimilanna", "Samtök skuldara" "Samtök lánþega" og ég veit ekki hvað. Ég hef áður velt fyrir mér hverjir standa á bak við þessi samtök. Eru það einhverjir örfáir einstaklingar? Hvaða vigt hafa þeir? Fyrir hverja tala þeir? Alla vega er það svo að ef þeir senda frá sér texta í fjölmiðla þá er hann lesinn aftur á bak og áfram eins og hann kæmi frá ASÍ eða SA.

Engin ummæli: