mánudagur, júlí 05, 2010

Það hefur verið gaman að fylgjast með krökkunum sem voru að keppa á Världsungdomsspelen i Gautaborg á helginni. VU spelen eru stærsta frjálsíþróttamót barna og unglinga í okkar nágrenni. Þarna keppir fjöldi ungmenna frá Norðurlöndunum. Flest eru þau frá Svíþjóð, Noregi og Danmörku. Nokkur komu frá Finnlandi og Færeyjum en svo voru þarna yfir 100 krakkar frá Íslandi. Þau stóðu sig mörg með mikilli prýði. Nokkrir sigrar unnust og alls komust þau 15 sinnum á pall. Síðan voru mörg í fremstu röð, komust í úrslit greinum þar sem keppt er í undanrásum og þannig mætti áfram telja. Í mörgum greinum voru milli 20 og 40 keppendur þannig að það er fínt að standa uppi meðal þeirra fremstu úr svo stórum hópi. Það er ljóst að það eru ýmsir góðir hlutir að gerast enda þótt vitaskuld vantar okkur meiri breidd. Það er reyndar ekki von til að við getum verið með unglinga í fremstu röð í öllum greinum frjálsra íþrótta sökum þess hve þjóðin er fámenn en sama er, það á alltaf að sækja á brattann. Góður árangur á svona mótum verður vonandi til að hetja krakkana til frekari dáða. Alla vega vantar ekki góða aðstöðu hér eftir að frjálsíþróttahöllin er risin. Hún gerist óvíða betri.

Vanir fjallgöngumenn búa sig vel út af klæðnaði og vistum þegar þeir fara aá fjöll þannig að þeir geta tekist á við breytilegar aðstæður.
Vanir fjallgöngumenn eru viðbúnir því að veður getir breyst á fjöllum.
Vanir fjallgöngumenn hafa meðferðis áttvita, kort og GPS tæki sem þeir kunna að nota til að komast leiðar sinnar enda þótt útsýni sé takmarkað um stund.
Vanir fjallgöngumenn vita hvernig þeir eiga að bregðast við ef veður breytist.
Vanir fjallgöngumenn láta ekki sækja sig í þyrlu upp á Fimmvörðuháls í góðvirði þegar bjart er allan sólarhringinn enda þótt setji á þá þokuslæðing um hríð.

Ég skil ekki hvernig svokallaður "Umboðsmaður neytenda", sem er opinber embættismaður, getur haldið áfram að tala fyrir ákveðinni leið í myntkörfulánamálunum þegar hann hefur gríðarlega persónulega hagsmuni af því að málinu verði lent á einn veg en ekki annan. Í öllum siðvæddum þjóðríkjum væri séð til þess að svona hagsmunaárekstrar gætu ekki átt sér stað.

Það var laukrétt sem fulltrúi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sagði í kvöldfréttum ríkissjónvarpsins að eftir því sem meira væri afskrifað af myntkörfulánunum því meira myndi lenda á ríkissjóði. Það hefði í för með sér annað hvort hækkaða skatta eða skerta þjónustu sem þýðir að það væri verið að dreifa kostnaðinum við þessi lán á allan almenning og þá líka á þann hluta þjóðarinnar sem tók aldrei nein áhættulán og stóð fyrir utan allt neyslufárið. Er það nú fair?

Engin ummæli: