laugardagur, október 02, 2010

Ég er að lesa Millennium bækurnar eftir Stieg Larsson. Eins og þeir vita sem hafa lesið bækurnar þá er blaðamaðurinn Mikael Blomkvist eða Kalle "Jävla" Blomkvist miðpunktur sagnanna. Hann er prímus mótor blaðsins Millennium sem tekur á ýmsum málum í samfélaginu sem aðrir fjölmiðlar hafa ekki áhuga á eða sinna ekki. Samstarfskona Mikaels á Millennium er Erika Berger. Eftir að Millennium heur slegið í gegn með því að fletta ofan af Wennerström hneykslinu þá er Erika ráðin á Svenska Morgon Posten (SMP) sem er stórblað með mikla fortíð en öllu óljósari framtíð. Hún er ráðin til að taka til á ýmsum sviðum á blaðinu. Hún kallar meðal annars blaðamanninn Johannes Frisk fyrir sig þegar hann ætlar að birta fréttir sem hann hafði fengið upplýsingar um frá lögreglunni og vörðuðu Lisbeth Salander. Fréttirnar voru ekki beint hagstæðar fyrir málstað hennar. Erika gefur Jóhannesi smá lexíu í hvernig hann eigi sem metnaðarfullur blaðamaður að vinna og meðhöndla slíkar upplýsingar ef hann vilji verða trúverðugur. Hann verði að vera gagnrýninn og rannskaka krítiskt allar upplýsingar sem honum berast ef hann vilji verða trúverðugur. Það versta sem blaðamaður gerir sé að éta það beint upp eftir öðrum sem sem hafi jafnvel hagsmuna af því að nota blaðamenn til að koma slíkum upplýsingum á framfæri. Hæfileikaríkir blaðamenn verði fljótt ónothæfir ef þeir gleyma þessum princippum og láta nota sig á þennan hátt.
Mér kom þetta í hug þegar ég hlustaði á morgunútvarp RUV einn morguninn fyrr í vikunni. Þá var fyrsta frétt í fréttatímanum að einhver þingmaður væri hissa á því sem einhver annar þingmaður hefði sagt. Hvaða frétt er þetta? Vitaskuld er þetta engin frétt. Ekki fyrir fimm aura. Þarna hefur einhver spældur þingmaður hringt í vin sinn á útvarpinu og sagst vera hissa á því sem einhver annar hafi sagt. Fréttamaðurinn var svo ekki meiri maður en svo að hann veður beint með þetta í fréttatímann gagnrýnislaust og er þar með orðinn talsmaður ákveðins þingmanns en ekki gagnrýninn og hlutlægur fréttamaður. Þessi fréttamaður RUV hefði haft gott af því að vinna í nokkra mánuði hjá Eriku Berger á SMP til að læra einföldustu grunnatriði í blaðamennsku. Gagnrýni og princip. Maður tekur vitaskuld miklu minna mark á því sem maður heyrir frá fjölmiðlum sem láta svona rugl frá sér fara.

Erfiðleikar fólks eru fyrirferðarmiklir í fréttum þessa dagana. Atvinnuleysi er þar talinn einn helsti áhrifavaldurinn. Ekki ætla ég að gera lítið úr því. Atvinnuleysi er böl sem óskandi væri að sem fæstir þurftu að kynnast. Á landsþingi sveitarfélaganna norður á Akureyri í vikunni sagði hins vegar svetiarstjórnarmaður vestan af Snæfellsnesi að fyrirtæki á Nesinu fengju ekki íslendinga í vinnu og þyrftu því að sækja fólk til Póllands og Eystrasaltslandanna. Þarna er eitthvað sem stemmir ekki.

Ég ber mikla virðingu fyrir lögreglunni og því hvernig sem hún hefur tekist á við ýmsi erfið verkefni á liðnum misserum. Í gær klikkaði hún hins vegar alveg. Að leyfa fólkinu sem safnaðist saman á Austurvelli að standa svo nálægt Þinghúsinu og Dómkirkjunni að það gat grýtt þingmenn og aðra þá sem voru í Dómkirkjunni er gjörsamlega út í hött. Þegar fólk er grýtt í hausinn með eggjum þá er of langt gengið. Í svona hópi er alltaf hætta á að innan um séu einstaklingar sem hafi ekki stjórn á sér. Einhver í hópnum sagði í fréttum að þingmenn hefðu verið heppnir að það hefði ekki verið kastað grjóti. Það er nákvæmlega þetta sem ég meina. Ætlar lögreglan að bíða eftir að það verði stórslys svo farið sé að nota aðferðir sem duga til halda ástandinu undir kontrol.
Á Sturlungaöld voru kirkjur griðastaður. Það er að sjá svo sem það sé ekki lengur.
Ég verð síðan að segja að ef það opnar greiða leið inn í fjölmiðla að brjóta rúður, henda hlutum og grýta og slasa fólk sem er að sinna vinnuni sinni þá eru það hættuleg skilaboð. Fjölmiðlar bera mikla ábyrgð en það er oft sem svo að þeir geri sér ekki grein fyrir henni heldur hlaupi upp til handa og fóta ef einhver hasi er á ferðinni.

Engin ummæli: