miðvikudagur, október 27, 2010

Það var um ræða um Herbalife á Bylgjunni í morgun undir forskriftinni "Herbalife veldur lifrarskaða". Nú er það mjög slæmt ef satt er. Ekki skiptir máli í því sambandi að ég bæði nota Herbalife sjálfur og er formlegur dreifingaraðili þótt ég selji svo sem ekki mikið. Ef Herbalife er ekki hollt þá er eins gott að það komi þá fram. Það sem mér fannst hins vegar vera afar dapurlegt er hvað umfjöllunin var ófagleg og frumstæð. Það var ekkert í henni sem hægt er að kalla fræðilega hvað þá að viðbrögð fréttamanna væru gagnrýnin eða krefjandi. Það höfðu fundust fjögur dæmi um að það höfðu fundist breytingar á lifur af notkun Herbalife. Nú er fjöldinn allur af Herbalifevörum til. Loks var hægt að greina það út úr samtalinu að um var að ræða grænt te sem hafði verið neytt í miklu magni. Ekkert var skýrt út hvað þessir fjórir umræddu kæmu úr stórum hópi. Var hópurinn 10 manns, 100, 1000. 10.000 eða 100.000. Auðvitað skiptir það máli. Ekki er rokið af stað með stórar fyrirsagnir í blöðum um að pencelín valdi ofnæmi enda þótt borgarstjórinn í Reykjavík liggi á sjúkrahúsi vegna bráðaofnæmis af völdum pencelíns. Síðan var aldrei komið inn á hvað mikið magn af þessu tei viðkomandi einstaklingar hefðu drukkið. Var það einn bolli á dag, 10 bollar á dag eða 100 bollar? Vitaskuld skiptir það máli. Það er hægt að éta sig til andskotans af flestum hlutum ef þeirra er neytt í miklu óhófi. Síðan er mjög ófaglegt að ræða svona hluti undir fyrirsögninni "Herbalife veldur lifrarskaða". Þá eru allar Herbalife vörurnar settar undir einn hatt en ekkert kom fram í fréttaumfjöllunni að það væri nokkur fótur fyrir því. Þessi fréttaflutningur er því miður bara enn eitt dæmið um afar óvandaðan málflutning og frumstæða umfjöllun sem nóg er að í fjölmiðlum þessi misserin.

Ég nota fæðubótarefni einungis í sambandi við erfiðar æfingar og erfiða keppni. Ég hef þá reynslu að það sé til bóta. Ég sé aftur á móti enga þörf fyrir að nota próteindrykki enda þótt fólk sé eitthvað að dingla sér í líkamsræktarstöðvum og leggur ekki meir á sig en svo að það sést varla svitablettur á bakinu á þeim. Fyrst og fremst á fólk að borða góðan og heilnæman mat.

Ég sé í mogganum í morgun að það hafa verið gerðar kannanir á launamun kynjanna hjá VR og SFR. Í báðum tilvikum var hægt að færa nokkur rök fyrir að launamunur væri um 10%. Engu að síður er verulegur munur á tölfræðilegum skekkjum í slíkum útreikningum svo líkur benda til að launamunurinn sé enn minni. Engu að síður gagnrýnir enginn að það hafi verið básúnað á Lækjartorgi á mánudaginn og í allri umræðu í kringum þann dag að launamunur kynjanna væri 30% að jafnaði á landinu. Þorir enginn annað en að kóa með eða er gagnrýnin blaðamennska fyrir bí.

Það er oft gott að gera sér grein fyrir stærðum með því að bera þær saman við eitthvað annað sem er þokkalega þekkt. Laugardalsvöllurinn tekur um 10.000 manns í sæti í báðar stúkurnar ef þær eru fullsettar. Það er dágóður hópur. Samkvæmt frásögn nærstaddra voru fimm sinnum fleiri en fullsetinn Laugardalsvöllurinn tekur í sæti staddur á Arnarhóli á mánudaginn. Dæmi hver fyrir sig hvort að það stenst.

Ég heyrði í dag rætt við bónda sem hafði framleitt um fimm tonn af repjufræi og ætlaði að pressa olíuna úr þeim. Líkur benda til að olían sé svona þriðjungur af korninu. Gera á tilraun með að nota olíuna til að blanda saman við hráolíu. Fréttamaðurinn byrjaði strax að tala um hagnað og sparnað án þess að ýja einu orði að því hvað olían sem kæmi úr repjufræjunum kæmi til með að kosta. Það væri nú allt í lagi að vita eitthvað um það.

Ég er sem Víkingur brjálaður út í handknattleiksdeild Vals. Í vor gekk fráfarandi stjórn handknattleiksdeildar Víkings frá leikmannasamningum við strákana sem voru að ganga upp úr 2. flokk. Þeir létu eðlilega það bíða komandi stjórn að ganga frá viðaukasamning við þá því að í þeim er fjallað um hugsanlegar greiðslur. Valsmenn notuðu sér þetta millibilsástand og lokkuðu til sín línumann félagsins þrátt fyrir að hann væri búinn að skrifa undir leikmannasamning. Það var talið standast þar sem ekki var formlega búið að ganga frá viðaukasamningum. Í samningalögum eru hins vegar munnlegir samningar taldir jafngildir skriflegum. Línumaðurinn hefur síðan ekkert fengið að spila með Val í haust þrátt fyrir að gengi liðsins hafi verið eingöngu niður á við. Að lokum var hann svo lánaður til Gróttu sem er að keppa við Víking í
1. deildinni. Það er ekki hægt að kalla þetta annað en skemmdaverkastarfsemi.

2 ummæli:

Hrafn Jóhannesson sagði...

Er þetta ekki Jón/Nonni sem er verið að brjóta á, á myndinni hjá þér?

Hann er nú hraustur strákur og hefur ekki látið þetta stoppa sig!

Nafnlaus sagði...

Það er Jón. Hann er fílhraustur og þá þarf oft að grípa til örþrifaráða. Þarna voru dæmdar tvær mín og víti.