mánudagur, október 25, 2010

Á útmánuðum 1970 fór ég í fyrsta sinn að vinna formlega launavinnu. Það var í frystihúsinu á Geirseyri við Patreksfjörð. Það var auðvitað ákveðin upplifun fyrir óreyndan ungling að fá greitt í peningum vikulega fyrir það sem maður gerði. Þessir tímar í frystihúsinu voru eftirminnilegir á margan hátt. Meðal annars man ég eftir að á þessum tíma höfðu konur í frystihúsinu lægri laun en karlarnir. Það voru niðurstöður kjarasamninga þeirri tíma. Nú myndu einhverjir úr meðvitaða liðinu segja að þetta sé eftir öðru hjá karlahelvítunum. Alltaf hafi þeir kúgað kvenfólkið. Það var hins vegar víðar pottur brotinn í launamálum á þessum árum. Sjómenn á vetrarvertíð (sem voru því sem næst 100% karlar) fengu t.d. ekki launin gerð upp fyrr en eftir vertíðarlok. Þeir fengu trygginguna greidda út eftir hvern mánuð en heildaruppgjör fór ekki fram fyrr en undir mánaðmót maí/júní fyrir vetrarvertíðina. Tryggingin jafnaðist á við lág dagvinnulaun. Þarna lánuðu sjómennirnir útgerðunum verulega fjármuni um margra mánaða skeið, vaxtalaust. Oft í mikilli verðbólgu. Þetta var hins vegar hvorutveggja lagað nokkrum árum síðar. Á þessum árum sáu bændur varla peninga. Kaupfélögin vildu fyrst og fremst hafa vöruskipti. Bændur lögðu afurðirnar inn og þeir áttu síðan helst að kaupa vörur til baka hjá sama kaupfélaginu. Þetta breyttist ekki fyrr en uppúr 1990.
Þegar maður man fyrst eftir var ekki allstaðar talið jafn sjálfsagt að stelpur færu að læra eins og strákarnir. Það var þó vissulega misjafnt. Konur til sveita áttu ekki formlega aðild að búrekstrinum enda þótt þær ynnu jafnmikið við hann og karlarnir. Launamisrétti kynjanna var vafalaust víða til staðar. Svona mætti áfram telja. Margir vildu breyta þessu, auka jafnrétti og veita konum aukið brautargengi til áhrifa. Upp úr þessu andrúmslofti spratt m.a. umræðan um kvennafrídaginn 1975. Upp úr þessu andrúmslofti skapaðist einnig stemmingin í kringum forsetakjör Vigdísar Finnbogadóttur 1980. Ég man enn hve spenntur maður var að bíða eftir tölunum frá Austfjörðum sem komu ekki fyrr en undir kl. 6:00 um morguninn. Upp úr þessu andrúmslofti spratt kvennalistinn á sínum tíma o.s.frv. o.s.frv. Á þessum árum fylgdi maður þessari umræðu af heilum hug. Ég verð hins vegar að segja að viðhörf öfgafeminista og karlahatara sem hafa á margan hátt tröllriðið jafnréttisumræðunni á seinni tímum hafa orðið til þess að þessi umræða höfðar ekki jafnmikið til mín eins og áður. Maður er einnig orðinn gagnrýnni.
Í dag stendur upp úr flestum flestum fjölmiðlum svo og þeim sem unnu að undirbúningi baráttudagsins í dag að launamunur kynjanna sé 30%. Þessa staðhæfingu étur hver eftir öðrum en enginn gerir tilraun til að kryfja þessi mál og greina hvort þessi staðhæfing standist. Ég vil leyfa mér að fullyrða að svo sé ekki. Að launamunur sé 30% að jafnaði er gríðarlega mikill munur. Mér þætti við hæfi að fjölmiðlamenn myndu spyrja sjálfan sig hvort karlar séu ráðnir á 30% hærri laun heldur en konur þar innan dyra fyrir sömu vinnu, sama vinnutíma, sömu menntun og sömu ábyrgð. Hjá sveitarfélögunum er unnið eftir svokölluðu starfsmati. Þar eru störfin krufin og greind eftir ákveðnu kerfi sem á að tryggja að það séu greidd sömu laun fyrir sömu vinnu og aðrar aðstæður jafnar. Um þetta kerfi ríkir sátt. Hægt er að áfrýja ágreiningsmálum inn í ákveðinn farveg. Ætla menn að halda því fram að karlar sem kenna í framhaldsskólum séu kerfisbundið ráðnir á 30% hærri laun en konur þegar sömu störf eru unnin og menntun álíka svo dæmi sé nefnt. Mér hefur ekki verið sýnt fram á að svo sé. Þannig mætti áfram telja. Hafi launamunur viðgengist í formi óunnar yfirvinnu, aksturspeninga og annarra aukagreiðslna þá hafa slíkar sporslur verið skornar miskunnarlaust niður á síðustu tveimur árum svo launamunur sem kom til af slíkum orsökum er að miklu leyti horfinn. Segjum svo að opinberi geirinn sé þokkalega jafn hvað launamun kynjanna varðar þá hlýtur munurinn hjá einkageiranum að vera enn meiri til að ná meðaltalinu upp í 30%. Stenst það að launamunur sé svona 50% í einkageiranum fyrir sambærileg störf, sambærilega ábyrgð fólks með sömu menntun? Það eru vafalaust aðrir betur hæfir til að svara því en ég en ég vil fá staðreyndir á borðið en ekki eitthvað fjas utan úr vindinum. Ég man ekki betur en að þegar allar forsendur voru lagðar jafnar þá var sannanlegur launamunur metinn svona 6-7% fyrir ca tveimur árum. Ég er alls ekki að segja að hann sé réttlætanlegur en þessi niðurstaða er allt annar hlutur en 30%. Þetta er svolítið dæmigert fyrir umræðuna á Íslandi. Fullyrðing kemur út úr þokunni, hún er gripin á lofti og er orðin að óyggjandi staðreynd í flestra munni fyrr en varir.
Í stöðu dagsins má ekki gleyma ýmsum hlutum. 2/3 þeirra sem útskrifast úr háskólum hérlendis eru konur. Verulegur meirihluti atvinnulausra eru karlar. Brottfall stráka úr framhaldsskóla er miklu hærra en stelpna. Meiri hluti unglinga á framhaldsskólaaldri sem selja sig í vændi eru strákar. Það er undantekning ef pabbinn fær dæmda forsjá barna við skilnað og alltof oft er þeim gert illmögulegt að ná fram eðlilegum umgengnisrétti við börnin. Konur eru afar sjaldséðar í erfiðum og óþrifalegum störfum eins og í byggingariðnaði og sjómennsku. Staðan í jafnréttismálum getur tekið á sig ýmsar myndir.
Það hefur verið haft á orði meðal harðlínufólks í jafnréttismálum að það þurfi fléttulista til að tryggja konum sæti á framboðslistum. Annars troði karlarnir þeim beint eða óbeint aftur fyrir sig. Af 535 einstaklingum sem buðu sig fram til setu á stjórnlagaþingi voru einungis 30% konur. Þarna voru þó engin höft nema hjá einstaklingunum sjálfum. Það þýðir ekkert að segja að konur hafi ekki sömu tækifæri til að taka svona verkefni að sér eins og karlar og því hafi þær ekki gefið kost á sér.

Engin ummæli: