sunnudagur, desember 26, 2010

Ég hef ekkert hlaupið í viku. Ég tek vanalega frí í hálfan mánuð eftir löng hlaup. Ég held að það sé alveg nauðsynlegt til að hreinsa mögulegar bólgur og eftirstöðvar úr fótunum. Með því að hvíla sig vel eftir mikið álag þá minnka líkur á meiðslum og öðrum leiðinlegum eftirköstum. Ég finn það líka að það tekur tíma fyrir skrokkinn að jafna sig svo sem vökvajafnvægið. Maður drekkur gríðarlega í löngum hlaupum og það hefur í för með sér mikið álag á nýrun. Þau þurfa einnig tíma til að ná jafnvægi aftur.

Það var gaman að horfa á myndina um Ragnar Bjarnason í sjónvarpinu í gærkvöldi. Kallinn er náttúrulega allt að því einstakur. Orðinn 75 ára gamall en á fullu í bransanum. Það var flott kombakk hjá honum á sjötugsafmælinu en um nokkurn tíma þar áður hafði hann verið hálf gleymdur. Ef það er eitthvað sem Ragnar kann þá er það að skemmta fólki. Það reyna ýmsir fleiri en með misjöfnum árangri.

Tvær fréttir hafa komið fyrir á undanförnum dögum sem ættu að vekja umræðu en gera það vafalaust ekki. Sú fyrri er fréttin af stúlkunni frá Nepal sem stendur frammi fyrir því að vera send aftur heim til sín og renna þar í farveg heimalandsins, vera gift einhverjum eldri manni og gangast undir ríkjandi hefðir. Eftir að hafa kynnst öðru lífi og þeim möguleikum sem henni bjóðast þá reynir hún vitaskuld að öðlast vald yfir eigin tilveru. Hefðbundna leiðin er farin með því að fara í fjölmiðla og reyna að skapa almenningsálit. Út úr því kemur einhver niðurstaða en því miður standa fjölmargar aðrar ungar stúlkur í svipaðri stöðu. Það þarf svo sem ekki að fara langt til að leita að álíka dæmum. Í Noregi, Svíþjóð og Danmörku reyna ungar stúlkur sem fæddar eru inn í strangtrúaðar múslímafjölskyldur oft að brjótast undan hefðinni og stjórna sínu lífi sjálfar. Það endar stundum með ægilegum afleiðingum þegar þær eru hreinlega drepnar af einhverjum fjölskyldumeðlimi. Það varðar heiður ættarinnar svo miklu að halda ríkjandi hefðum að til þvílíkra örþrifaráða er gripið. Búrkurnar eru eitt dæmi um birtingarmynd kvennakúgunar hjá strangtrúuðum íslamistum. Um daginn var með og móti umræða í Fréttablaðinu um búrkur. Kona sem er múhameðstrúar en ég man ekki hvað heitir mælti á móti búrkunum en vitaskuld tókst að finna einhverja konu úr meðvitaða liðinu sem mælti með búrkunum og fann þeim flest til ágætis. Það er svo sem ekki að því að spyrja.

Hin fréttin sem vakti nokkra umhugsun var fréttin um staðgöngumóðurfædda barnið í Indlandi. Staðgöngufæðingar eru bannaðar hérlendis sem og í öðrum norrænum ríkjum. Sumt fólk lætur það ekki stöðva sig heldur steðjar til útlanda, semur þar við eitthvað fólk, líklega bláfátækt, um að fæða barn og ætlar síðan að koma til baka með barnið eins og ekkert hafi í skorist. Sem betur fer ganga málin ekki svona fyrir sig. Hjónin sitja enn í Indlandi með barnið þrátt fyrir að Alþingi hafi hlaupið til eins og eftir pöntun og veitt barninu ríkisborgararétt. Það er gert þrátt fyrir að farið hafi verið í einu og öllu á svig við hérlend lög og gildandi reglur. Reynt er að réttlæta gjörninginn með þvi að segja að það sé til staðar formlegur samningur um staðgöngumálið milli aðila. Só. Mér finnst að það þurfi vægast sagt að fara sér hægt í þessum efnum. Eiga reglur landsins að vera þannig að það eigi að vera heimilt að fara út í fátækustu lönd heimsins, veifa seðlabunkum framan í fólk sem á sér enga möguleika og kaupa allt það sem menn vilja fá. Hver er samningsstaða fátæka fólksins? Á að vera heimilt að kaupa lifandi börn? Þau eru víða til sölu. Á að vera hægt að kaupa líffæri úr lifandi fólki? Þau eru víða til sölu. Á að vera hægt að kaupa fólk? Það er víða til sölu. Þannig mætti áfram telja. Mér finnst Alþingi hafa sett niður með þessum fljótræðislega gjörningi. Það er merkilegt að feministafélagið þegir þunnu hljóði í þessu máli. Öðruvísi mér áður brá. Svo var náttúrulega farið að fjasa um að það eigi auðvitað að leyfa staðgöngumæðrun hérlendis. Engin umræða. Engin siðfræðileg greining. Bara að brussast áfram og fylgja þeim sem hæst galar.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Mikið er ég sammála þér með þetta blessaða Indlandsmál. Nú hef ég sjálf komið á þessar slóðir og þar er eymdin og fátæktin gífurleg. Þetta er auðvitað ekkert annað en vændi af verstu gerð.
Að auki er mikið um svik og pretti í þessum málum, ég man vel eftir dönskum þætti um þetta mál þar sem dönsk pör fóru til suðurameríku og borguðu konum fyrir að vera staðgöngumæður - mörg pörin lentu svo í því að barnið lést við fæðingu og þau fengu aldrei að sjá barnið - það þarf enga snilli til að átta sig á því hvað gerðist þar - þarna voru fædd ljóshærð bláeygð börn sem voru svo seld einhverjum sem var tilbúinn að borga meira.
Sorglegt frá upphafi til enda.

Jana