sunnudagur, júlí 24, 2011

Ég skráði mig á meistaramót Norður Írlands í 24 tíma hlaupi einhvern tíma í vetur. Mér fannst tilvalið að slá tvær flugur í einu höggi, að taka þátt í erfiðri áskorun og fá ástæðu til að heimsækja Norður Írland en þangað hafði ég aldrei komið. En einhvern veginn náði ég aldri upp sérstökum dampi við undirbúninginn í vetur. Smá meiðsli í febrúar drógu undirbúninginn á langinn, nokkur óþarfa kíló höfðu bæst við á hvíldartímabilinu eftir áramótin og svo vantaði neistann einhvern veginn. Það var ekki fyrr en í byrjun maí að ég fór að hlaupa nokkuð skipulega en þó urðu löngu æfingarnar of mikið útundan. Ég var einnig í hálfgerðum vandræðum með hægri fótinn, það var tognunarvottur í aftanverðu lærinu sem gerði að verkum að skrefið með honum var styttra og síðan var hnéð eitthvað að plaga mig en þó ekki mikið. Kannski voru komin ákveðin ofþjálfnareinkenni í hús því mér fannst ekki eins gaman að hlaupa eins og fyrri ár. Það skiptir miklu máli að gleðin og löngunin sé til staðar. Það kom þó ekki til mála að hætta við og því skyldi tjaldað sem til var. Ég hvíldi mig alveg á hlaupum í tíu daga undir það síðasta í þeirri von að fóturinn myndi jafna sig en teygði þeim mun betur á honum. Svo tók ég þrjár rólegar æfingnar framan af síðustu viku til að liðka skrokkinn og það fór allt vel með sig.
Ég hafði ekki skoðað eða skilið upplýsingarnar sem ég fékk nógu vel því það kom mér hálfvegis í opna skjöldu þegar ég kom til Belfast að hlaupið skyld fara fram á íþróttavelli. Ég hafði aldrei hlaupið einn meter á hlaupabraut. Hlaupið skyldi hefjast kortér í sjö á föstudagskvöldið. Ég tók leigubíl út á völlinn sem er nefndur eftir Mary Peters sem var mikil íþróttastjarna hér fyrr á árum. Gott ef hún var ekki fjölþrautarkona en einnig mikill langstökkvari. Ég man eftir myndum af henni þegar hún kom til Íslands á íþróttamót. Nú hefur hún það hlutverk að vera konunglegur sendiherra frjálsíþrótta sem á að gagnast úrbreiðslu- og kynningarstarfsemi. Það var kynningarfundur við völlinn um kl. 17:30. Mér leið hálf skrítilega þegar ég var kynntur sérstaklega á fundinum sem norðurlandamethafi í 24 tíma hlaupi á bretti. Ég er ekki vanur slíkum hyllingum. Nú þýddi ekki annað en að standa sig fyrst svona var í pottinn búið. Á leikvangnum voru keppendur búnir að koma upp tjaldbúðum en fjöldskyldur margra þeirra lágu við allan tímann, þeim til stuðnings og aðstoðar. Þarna voru keppendur frá öllum ríkjum Bretlandseyja, Ungverjalandi, Lettlandi, Spáni og svo frá eyjunni í Norður Atlandshafinu. Ed Smith, framkvæmdastjóri hlaupsins, spurði sérstaklega eftir því hvort ekki væri farið rétt með hvað ég væri gamall. Við erum nokkuð jafnaldra svo hann skildi hvað klukkan sló. Þetta hlaup var sett á laggirnar í fyrsta sinn í fyrra og þá tóku 17 keppendur þátt í því. Nú voru þeir 42 svo mótshaldarar voru hinir kátustu með þróunina. Mary Peters mætti við ræsingu hlaupsins. Hún er hávaxin og gerðarleg kona með mikið sítt tagl. Örugglega góður íþróttasendiherra. Hlaupið var ræst á slaginu 18:45. Ég legg svona hlaup út með að hlaupa án þess að hægja á mér fyrstu þrjá tímana. Þá er maður orðinn almennilega heitur og kominn rytmi í hlaupið. Það verður hins vegar að segjast eins og er að þessir klukkutímar eru yfirleitt þeir leiðinlegustu í hlaupinu. Þá er svo langt í tilbreytingu. Eftir þrjá tíma fer ég að ganga 100 m á hverjum 11-1200 metrum. Það brýtur upp hlaupið og einnig er gott að nota það sem teygjur fyrir aftanverð lærin. Maður finnur hvernig slaknar á þeim eftir gönguna. Margir voru léttir á sér til að byrja með og höfðu hringað mig margsinnis eftir fyrstu klukkutímana. Ég hafði ekki áhyggur af því heldur hélt mínu tempói sem var ca 6 mín á km. Ég fór maraþonið á 4 klst og 60 km á sex klst. Það fór að dimma upp úr kl. 22.00 og var dimmt þar til um 4:30 um morguninn. Völlurinn var flóðlýstur svo það kom ekki að sök. Það verður að segja eins og er að það er ekki það líflegasta sem maður gerir að hlaupa hring eftir hring klukkutímum saman á íþróttaleikvangi. Mótshaldarar spiluðu músík en hún var bæði það hátt stillt og lögin leiðinleg svo hún bara pirraði frekar en stytti mér stundir. Það endaði svo þegar leið á hlaupið að ég bað þá að lækka í tónlistinni. Þegar þreytan er farin að síga á og taugarnar orðnar næmari þá er svona glamur bara pirrandi. Það var heitt þegar hlaupið hófst eða um 20°C. Því svitnaði ég mikið og drakk eftir því. Það er ávísun á vandræði. Ef maður drekkur mikið of lengi þá hættir líkaminn að hafa við að taka vökvann upp og hann fer að safnast fyrir. Maður fær bjúg og þá eru magavandræði á næsta leiti. Þegar maginn er orðinn fullur af vökva þá verður öll föst fæða ógeðsleg og þá harnar vítahringurinn enn meir. Ég á að vita betur en að lenda í þessu en sama er, það gerðist engu að síður smám saman. Það kólnaði verulega þegar leið á nóttina og áfallið var svo mikið að það var allt rennblautt sem ekki var niður í tösku. Sólin fór að skína á sjötta tímanum og þá fór strax að hlýna og það svo um munaði. Það var alveg heiðskýrt og hvergi skuggi eða ský. Sólin var því mjög þrúgandi. Ég notaði sólarvörnina ótæpilega til að brenna ekki til skaða. Ég fór yfir 100 km markið eftir svona 10 klst og fjörutíu mín. Það var heldur hægara en ég hafði ætlað mér enda var maginn farinn að kvarta og klósettferðum fór fjölgandi. Ég sá að þeir sem höfðu verið hraðastir voru farnir að detta niður. Framan af var ég í 10-15 sæti en við 12 tímana vorum við ca 10 sem vorum fremstir í einum hnapp. Það var reyndar nokkuð erfitt að fylgjast með stöðunni því vegalengdin var bara birt á fjögurra tíma fresti og það tók stundum um 1 klst að koma henni fram. Því vissi maður ekki nógu vel hvernig hlaupinu vatt fram. Sá sem var fremstur þegar hlaupið var hálfnað lauk því t.d. í 8. sæti. Hann er mjög hraður hlaupari og hefur meðal annars lokið maraþoni á 2.47. Mér fannst hlaupið vera orðið mjög leiðinlegt þegar leið á morguninn. Í Danmörku hefur álíka hlaupum lokið um hádegi en hér skyldi því ljúka þegar klukkuna vantaði kortér í sjö síðdegis. Það er andlega mikið erfiðara. Það er auðveldara að koma út úr nóttinni, fara inn í hækkandi sól og vita að hlaupinu er að ljúka. Þarna átti maður eftir að streða í gegnum daginn og fram í lækkandi sól. Það var margt sem fór í gegnum hugann þegar streðið var sem mest. Hlaupafrír tími á næstunni lokkaði ef hlaupinu yrði lokið með nokkrum sóma. Einu lofaði ég mér og stóð við það en það var að fara beint út í súpermarkaðinn hér á móti þegar hlaupinu væri lokið, kaupa mér bjór og drekka heila dós á leiðinni til baka. Svona huglægar verðlaunaveitingar eru partur af því að berjast í gegnum svona aðstæður. Þegar sólin var farin að hita fyrir alvöru þá var svo heitt á klósettunum að það lá við að það syði á manni þar inni, sem var ekki ósjaldan. Kona nokkur leið út af á brautinni. Sjúkraliðar hlúðu að henni en eftir ca þrjá tima var hún mætt aftur til leiks. Tímabundinn vökvaskortur eða sykurfall hefur lagt hana af velli. Ég var þarna kominn í nokkur vandræði með næringuna. Ég var ekki með Herbalife próteinduft heldur aðra tegund. Ég veit ekki hvort það sé marktækt en mér fannst það ekki virka eins vel. Hitt er ég algerlega viss um að Herbalife orkudrykkurinn H3O er langbesti drykkurinn við þessar aðstæður ásamt kóki. Bragðið er frískandi og verður aldrei neitt sleesy. Ég var með annað orkuduft með sem hefur virkað vel en þarna gat ég ekki með nokkru móti komið því niður. Allt sem er sætt virkar svo slepjulegt og maginn gerir uppreisn. Ég reyndi að pína ofan í mig mat sem var þarna á boðstólum en það kom allt upp aftur. Þá var ekki annað að gera en að keyra hlaupið út á vatni, kóki og H3O. Ég var sá þriðji sem fór yfir 100 mílna markið og það var nokkuð langt í þar kom tilkynning um þann næsta. Því fór ég að hlaupa taktiskt til að halda þriðja sætinu örugglega. Ég gætti þess að keyra mig ekki út því að sykurfall og krampar voru yfirvofandi ef ég gætti ekki að mér. Þá væri fjandinn laus fyrir alvöru. Þannig þokaðist tíminn áfram, klukkutíma eftir klukkutíma. Á hádegi voru sex tímar eftir. Það virkaði mjög langur tími. Sól í hádegisstað og ætlaði allt að steikja. Sama var, menn þræluðust áfram. Ég verð að segja það að það er ekki það skemmtilegasta sem maður gerir að hlaupa hring eftir hring klukkutímum saman á hlaupabraut við þessar aðstæður. Vafalaust er hægt að æfa það upp eins og allt annað en sama er. Það var boðið upp á djús með ísmolum þegar langt var liðið á hlaupið og það var virkilega kærkomið. Allir drykkir voru orðnir glóðvolgir og sjóðheitt kók er ekki beint það sem mann langar mest í þegar maginn er kominn upp á rönd. Þarna hefði mér fundist að þeir hefðu getað gert betur s.s. að bjóða upp á vínber, appelsínur eða melónur. Tilbreyting í bragði sem er svalandi er mjög nauðsynleg við svona aðstæður. Síðasta klukkutímann eða svo var haldið vel utan um hlaupið að hátalaramanninum, hann skýrði frá hvernig hlaupinu fram yndi hjá keppendum, hver væri að ná hvaða marki, hver röðin væri hjá fremstu mönnum og svo framvegis. Vel að verki staðið hjá þeim. Loks gall flautan og maður gat lagst út af í grasið. Þvílíkur léttir. Ég held að ég hafi aldrei verið eins feginn að ljúka hlaupi. Það var öðruvísi í Grikklandi 2007 þegar ég hætti í Spartathlon en þarna náði maður þó settu marki og gat hvílst með góðri samvisku. Skrokkurinn var í góðu lagi, ein blaðra á tá en annars allt í sóma. Nú fékk ég hins vegar skafsár í báða handarkrika sem ég hef aldrei fengið áður. Eftir sturtu var maður orðinn fínn og allur annar. Maginn nær sér á svipstundu þegar allt er afstaðið!! Verðlaunaafhendingin var uppi í salnum á vellinum kl. 20.00. Verðlaunin afhenti maður með keðju, hvort að það var borgarstjórinn veit ég ekki. Þeir sem náðu yfir 100 mílur fengu síðan sérstaka viðurkenningu. Írarnir voru vinsamlegir og þægilegir þegar hægt var að fara að hugsa um annað en hlaupið sjálft. Þeir sýndu mér mikla vinsemd og gott viðmót, bæði á meðan á hlaupinu stóð og einnig að því loknu. Mér finnst töluverður munur á viðmótinu hérna eða í Danmörku sem ég hef heimsótt allnokkrum sinnum í samskonar erindagjörðum. Hér kvöddust menn með handabandi, kærleikum og þakklæti fyrir góða keppni á meðan ég get varla sagt að það hafi nema rétt örfáir rétt hendi til annars á Borgundarhólmi að hlaupi loknu nema þá félagi Kim. Hjón ein skutluðu mér heim á gistiheimilið að serimóníunni afstaðinni. Konan tók þátt í hlaupinu. Ég held að hún hafi haft blöðrur á fleiri tám en þær sem sluppu blöðrulausar. Ég benti henni á að hún skyldi fá sér stærri skó. Svona pína er óþörf. Konan á gistiheimilinu nagaði á sér neglurnar allan laugardaginn út af hlaupinu að sögn. Hún sagðist ekki skilja hvernig þetta væri hægt. Svo held ég að hún hafi sagt tiltektarkonunni að láta mig í friði í morgun því ég myndi örugglega sofa allan daginn. Ég fór hins vegar út fyrir kl. 9:00 í skemmtilega sightseeing rútuferð með ströndinni frá Belfast og langleiðina yfir að Derry. Það þýðir ekki annað en að nota tímann og sjá sig aðeins um. Gistiheimiliskonan var svo glöð að sjá að ég væri heill heilsu og allt hefi gengið upp þegar ég hitti hana í kvöld að hún faðmaði mig að sér þegar hún kvaddi. Það munaði ekki um það. Ekki fékk ég svona móttökur eða kveðju hjá blessaðri konunni í gistiheimilinu í Rönne á Borgundarhólmi og hef ég þó gist þar ófáum sinnum!! Ég er þegar upp er staðið ágætlega sáttur við árangurinn og ekki síst miðað við allt og allt. 196 km er ágætt miðað við aðstæður og undirbúning. Undirbúningurinn var ekki sérstakur en fæturnir héldu alveg og þar kom ekkert upp á. Sá sem sigraði hljóp 212 km og sá sem var í öðru sæti hljóp 203 km. Hann er írskur en býr á Spáni. Hann hefur til að mynda hlaupið tuttugu 24 tíma hlaup og yfir þrjátíu 100 km hlaup!! Þessir tveir eru báðir þrautreyndir landsliðsmenn í 100 km hlaupum og 24 tíma hlaupum og hafa sem slíkir tekið oft þátt í Evrópu- og heimsmeistaramótum í þessum tegundum hlaupa.

1 ummæli:

Stefán Gísla sagði...

Takk fyrir þessa skemmtilegu frásögn. En mikið óskaplega hlýtur þetta samt að hafa verið leiðinlegt hlaup. Samt hefur varla verið neitt leiðinlegt að vera kynntur sem Norðurlandamethafi - og dálítið gott þetta með aldurinn líka. :) Eins fannst mér sérlega gaman að lesa um viðmót heimamanna og alúðlegu konuna á gistiheimilinu; já og bjórinn í supermarkaðnum. Svona atriði skipta meira máli en margur kann að halda að óathuguðu máli. TIL HAMINGJU með þetta!