miðvikudagur, júlí 27, 2011

Það var á margan hátt gaman að koma til Belfast eins og flestra þeirra staða sem maður er að heimsækja í fyrsta sinn. Borgin sker sig úr öðrum borgum af þessari stærð sem ég hef séð að risamollin hafa ekki enn rutt smáverslunum úr vegi. Ég sá einungis eitt moll í miðbænum og það var ekki stórt. Á hinn bóginn var ógrynni af litlum verslunum út um allt það sem ég sá. Einnig var ágætis upplifun að sjá að samfélagið var ekki undirlagt af sömu alþjóðlegu vörumerkjunum sem maður þekkir svo vel héðan að heiman. Ég minnist þess þegar ég kom til Harstad í Norður Noregi að þar voru því sem næst sömu auglýsingaplakötin í búðargluggum og hér heima, sömu bíómyndirnar sýndar o.s.frv. Reykjavíkurborg nætti taka sér Belfast til fyrirmyndar um almenna snyrtimennsku á götum úti. Reykjávík er því miður bara subbuleg miðað við aðrar venjulegar borgir. Það verður bara að segtja það eins og það er. Hér er veggjakrotið út um allt og það er öskrað um tjáningarfrelsi og list ef einhver gerir athugasemd við þennen ófögnuð. Í Belfast sást varla veggjakrot nema að ég sá "IRA" krassað á vegg á einstaka stað. Sama mátti segja um þorpin sem við stopuðum í þegar ég fór í skoðunarferðina með norðurströndinni á sunnudaginn. Afburða snyrtimennska var gegnumgangandi. Að lokum kom góð umferðarmenning mér á óvart. Undantekningarlaust var stoppað kurteislega ef maður kom að gangbraut eða gerði sig líklegan að ganga yfir götu. Starfsmenn sveitarfélagsins ganga um og hirða upp rusl og það er ekki bara gert í miðbænum. Síðan er það mjög áberandi að fjölmenningarstefnan hefur ekki náð fótfestu á Norður Írlandi.
Það er náttúrulega með ólíkindum að í þessu friðsæla og snyrtilega landi hafi ríkt borgarastyrjöld þar til fyrir ekki mörgum áratugum síðan. Síðast var verið að drepa fólk þarna á níunda áratugnum. Almennir borgarar voru drepnir af morðingjasveitum og breski herinn hélt samfélaginu í herkví og myrti fjölda manns. Ég sá á skilti að það væri talið að um 1.100 manns hefðu verið drepnir af hernum gegnum tíðina. Greinilegt er þegar maður fer um vestur hluta Belfast að Bobby Sands og félagar eru ekki gleymdir. Minningu þeirra er haldið kröftuglega á lofti. Mér fannst verðlag ekki vera hátt þarna. Á mörgun sviðum var það nokkuð álíka og heima. Gistiheimilið sem ég rambaði á á netinu var fínt. Fjórir strætóar beint í miðbæinn og stórmarkaður beint á móti sem var opinn 24 tíma á sólarhring nema á aðfaranótt mánudags. Gistiheimið var fínt og snyrtilegt, gott rúm, fínt bað og velbúið eldhús þar sem maður gat haft alla sína hentisemi. Síðan var eigandinn afskaplega indæl kona sem naut þess að tala við fólk. Hvað biður maður um betra?
Ég var svo heppinn að rekast á auglýsingadreifara á föstudaginn sem var að dreifa auglýsingum um skoðunarferðir út á land. Ég dreif mig því af stað snemma á sunnudagsmorguninn og mætti í rútuna. 25pund er ekki mikið fyrir 10 tíma ferð. Við skoðuðum lítil strandþorp, kastala, heimsóttum wiskeybrugghús, strandlengjuna, heiðarnar, landbúnaðarhéröð, Causeway klettana og síðan kaðalbrúna góðu. Fínn dagur. Þarna sá maður gott dæmi um hverju góð markaðsetning skilar. Síðasti staðurinn sem við heimsóttum var við strandlengjuna þar sem er algerlega hafnlaust. Utan á einum stað var hægt að lenda í smá hólma en ókleyft sund var milli lands og eyjar. Sjómennirnir höfðu því sett upp hengibrú til að geta komist frá og til hólmans með fiskinn í land og vistir út til bátsins. Með tímanum varð það eftirsóknarvert fyrir venjulegt fólk að ganga yfir brúna. Nú er hún endurbætt og í fínu standi og undir umsjón Nature fund. Yfir hana ganga 250.000 manns á ári og hver borgar 4.50-5.00 pund í aðgangseyri. Þarna er svo sem ekki mikið að sjá utan að finna kikkið að ganga yfir brúna meðan hún sveiflast yfir djúpu sundinu. Þetta er flott markaðssetning sem við gætum lært af. Ég væri alveg til í að heimsækja Norður Írland aftur og gefa mér þá betri tíma til að skoða mig um. Það er örugglega vel þess virði.

Engin ummæli: