Það hefur lítið veri bloggað að undanförnu. Ég fór vestur á Rauðasand á föstudaginn fyrir góðri viku síðan og var þar í góða viku við smíðar og girðingarvinnu. Það er verið að reyna að pota húsinu áfram. Nú náði ég að skjóta öllum panelinum, sem við fórum með vestur í vor, á veggina, girða í kringum húsið til að fría það frá skepnum, og mála alla glugga og hurð. Veðrið var afskaplega gott alla dagana. heiðskýrt og hlýtt alla daga nema tvo. Það hafði ekki rignt fyrir vestan síðan í byrjun maí svo jörðin var orðin ansi þurr og lítið í ánum. Umferðin var mikil og rykið því óskaplegt. Á laugardaginn eftir að ég kom vestur þá skrapp ég norður í Arnarfjörð í góða veðrinu. ég heimsótti Skrímslasafnið á Bíldudal og fékk þar fínar móttökur af stúlkunum sem starfa þar sem ég kannast við. Safnið kom mér skemmtilega á óvart. Ég hafði í sjálfu sér ekki hugmynd um við hverju var að búast. Tilurð þess er einnig skemmtileg. Það fór af stað umræða á Bíldudal hvernig væri hægt að fá ferðafólk sem væri á leið út í Selárdal til að stoppa í þorpinu. Hver væri sérstaða Bíldudals? Þá stoppuðu menn við sæskrímslin og hugmyndin var keyrð áfram. Brottfluttir Bílddælingar fjölmenntu vestur trekk í trekk til að gera gömlu matvælaiðjuna klára, leikmyndahönnuður vann og útfærði hugmyndavinnu um skipulag safnsins og svo var safnið opnað. Þarna eru myndverk margs konar um sæskrímslin í Arnarfirði sem hafa verið til svo lengi sem elstu menn muna. Þar var börnum ekki sagt að passa sig á að detta ekki í sjóinn heldur sagt að passa sig á sæskrímslunum. Viðtöl eru við menn sem hafa séð þau og þurft að flýja undan þeim. Skemmtileg var frásögn Gunnar Valdimarssonar sem setti upp myndavél inni á Krossnesi þar sem dularfull fótspor sáust við hvern stórstraum. Nælonþráður var tengur í myndavélina sem smellti af mynd þegar eitthvað fór um fjöruna. Eftir nokkra daga var myndavélin sótt og margar myndir höfðu verið teknar. Gunnar var að sögn spenntur þegar hann framkallaði filmuna. Viti menn, þar var mynd af kind, mynd af bóndanum á næsta bæ og síðan mynd af einhverjum skrattanum sem erfitt er að segja til um hvað er!! Að sögn þeirra stallna sem eru í forsvari fyrir safnið hefur verið mikill renningur gesta í það í sumar og svo var þá stund sem ég stoppaði þar. Síðan fór ég út í Selárdal en þar var haldin Sambahátíð til minningar um Samúel Eggertsson í Brautarholti sem skapaði m.a. styttugarðinn skemmtilega. Þar dvaldi ég fram á kvöld í grillveislu, spjalli við kunningja og njótandi skemmtiatriða heimafólks. Ef Bíldælingar geta eitthvað þá er það að skemmta sér og öðrum.
Á leiðini suður þá svipaðist ég eftir örnum á slóðum þar sem ég vissi af arnarhreiðri. Viti menn. í fjörunni framundan hreiðrinu sat eitt stórvaxinn. Það er alltaf tignarlegt að sjá erni enda þótt þeir séu misjafnlega vinsælir hjá dúnbændum.
þriðjudagur, júlí 19, 2011
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli