fimmtudagur, október 05, 2006

Ég las nýlega viðtal við Gunnar Fæhn, norskan ultrahlaupara. Hann var annar tveggja norðmanna sem gerði atlögu að 100 mílna beltissylgju í Bandaríkjunum í sumar - án þess að ná settu marki. Hann fer í viðtalinu yfir helstu atriðin sem gerðu það að verkum að þann náði ekki því sem stefnt var að. Hann var í fínu formi, betra formi en þegar hann hljóp maraþon á 3.06 klst fyrir nokkrum árum síðan. Það var því ekkert út á undirbúninginn að setja. Einnig var skrokkurinn í fínu lagi. Það sem hann sér eftir á að klikkaði hjá honum var undirbúningur fyrir smáatriðin. Það var meðal annars að lesa meira um hlaupið þannig að það væri eins fátt og mögulegt var sem kæmi á óvart, lesa reynslusögur annarra hlaupara, sérstaklega þeirra sem mistókst að fara allt hlaupið og stúdera leiðina þannig að hann vissi eins og hægt var við hverju var að búast. Hann var með of mikinn farangur (fullan úlfaldapoka) og hann tafðist við að fylla á pokann á drykkjarstöðvunum. Mínútur hér og mínútur þar telja þegar saman er talið. Hann kom of seint á staðinn þar sem hlaupið fór fram þannig að hann var ekki búinn að venjast aðstæðum, hvorki hæð eða mataræði.

Það er fróðlegt að lesa svona frásagnir. Það staðfestir það sem ég hef reynslu af að það verður að taka svona hlaup sem eina stóra samfellu. Undirbúningurinn sjálfur er einn fóturinn undir stólnum en hinir verða einnig að vera nokkuð jafnlangir svo hægt sé að sitja á honum. Smáatriðin sem manni finnst ekki skipta svo miklu máli úr fjarlægð geta orðið að aðalatriðum þegar á hólminn er komið. Þá skiptir allt máli. Það er ekki hlaupið út í búð ofan úr fjöllum ef eitthvað vantar.

Gunnar er með kenningu um að allir sem hlaupa maraþon á um og undir fjórum tímum eigi að geta klárað 100 mílna hlaup með skynsemi. Tíminn sem fer í 100 M hlaup er ca 7 sinnum maraþontíminn (þar sem heildarhækkunin er ekki óhófleg) samkvæmt hans kenningum. Hann reiknar með 4 klst á fyrstu 40 km, 10 klst á fyrstu 80 km og 24 klst á 160 km. Þar til viðbótar reiknar hann með hálftíma til viðbótar á hverja fimm hundruð metra hækkun. Því eiga að vera 6 klst til að hlaupa upp á hvað hækkunina varðar miðað við að tímamörkin séu 30 klst og hækkunin ekki óhófleg. Það má reyndar ekki gleyma því að lækkunin tekur í ef hún er löng og samfelld. Þetta eru áhugaverðar pælingar.

Hlustaði á auglýsingu frá Umferðarráði í útvarpinu í morgun. Skrifið á vefinn og lofið bót og betrun í umferðinni. Til hverra skyldi svona auglýsingar ná? Ekki til undirritaðs. Ég hef að vísu fengið sekt fyrir hraðakstur en það hefur helst verið fyrir að skríða rétt yfir leyfilegan hámarkshraða sem flokkast ekki undir ofsaakstur. Hvað ætli yrði gert ef einstaklingar sem væru nýkomnir með byssuleyfi gengju um skjótandi í allar áttir og lentu svo í því að hitta einhvern ókunnugan alveg óvart? Hvað ef menn væru kastandi hnífum í allar áttir sér til gamans og yllu með því óhöppum o.s.frv. Ætli yrði ekki gripið inn í með viðeigandi aðgerðum hraðar en hratt. Ég sé í sjálfu sér engan mun á að nota bíl sem drápstæki frekar en byssu. Hvorutveggja eru ágæt tæki til síns brúks en ekki sama með hvernig er farið.

Engin ummæli: