laugardagur, október 21, 2006

Haustmaraþonið er búið. Þetta var fínn dagur, logn, sól og hiti rétt um frostmark. Kjöraðstæður á haustdegi þegar allra veðra er von. Svona er þetta yfirleitt þegar FM heldur þon. ég man eftir því úr einni af bókum Þórbergs að það mátti ganga að slagveðursrigninu vísri í denn tíð þegar Skautafélagið fór í útreiðartúr á sumrin. Svona líkar máttarvöldum misvel við íþróttagreinar. Fyrir marga er haustmaraþonið félagshlaup. Menn hittast og rúlla leiðina í rólegheitum, spjalla saman og bera saman bækur sínar. Tíminn er svolítið secúnder enda formið stundum ekki eins og á verður kosið. Svo var um mig í dag. Í raun var þetta hlaup prófraun á hvernig manni gengi í maraþoni miðað við minni en engann undirbúning. Ég hef næstum ekkert hlaupið af viti frá því í maílok nema sex tímahlaupið. Hlaupið var fínt. Framan af þá skokkuðum við Svanur, Sigmundur og Magnús frá Selfossi saman. Við bárum saman bækur okkar, töluðum um hlaup og upplifanir í þeim osfrv. osfrv. Seinni hluta hlaupsins töltum við Svanur saman. Hann hélt uppi hraðanum enda síungur. Hann er alveg búinn að ná sér að liðþófaaðgerðum þeim sem hann gekk í gegnum í fyrra en lítur nú á hvert maraþon sem bónus. Samt er hann að hugsa um 100 km hlaup. Ekki er að spyrja að þeim sem hafa fengið bakteríuna. Hann á vafalaust eftir að klára það. Mér leið vel allt hlaupið en þetta var ekki neitt afrekahlaup. Ég var ánægður með tímann enda ekki annað í stöðunni. Sigurður Hansen rann skeiðið á rétt rúmum 3 klst. Frábær tími. Jósep kláraði maraþonið á 3.15, algerlega æfingarlaus í löngum hlaupum. Ég hugsa að hann sé einn hæfileikaríkasti langhlaupari sem ég þekki en hann þarf að leggja alúð við undirbúinginn til að ná því út úr sér sem í honum býr. Hann er laufléttur og hraður en skortir reynslu og þarf að herða sig upp á löngum æfingum. Þórhallur lætur ekki deigan síga og kláraði á rúmum 3.20.
Þegar ég lá í grasinu eftir hlaupið og var að taka sólarhæðina með félaga Jörundi þá læsti sinadrátturinn sig í báðar fætur frá il og upp í klof. Ég þarf greinilega að sinna steinefnahleðslunni betur þegar farið er æfingalítill í löng hlaup. Maður á að bera virðingu fyrir maraþoni.

Þetta var fínn dagur. Takk fyrir mig.

Engin ummæli: