mánudagur, október 23, 2006

Vaknaði snemma í gærmorgun en skrópaði hjá Vinum Gullu. Fór þess í stað austur á Hellisheiði að taka myndir í sólarupprásinni. Það var ekki nógu gott því himininn var lítið skýjaður. Laugardagsmorguninn var mun betri hvað þetta varðar. Sólroðinn nýtur sín best þegar hann kemur upp undir skýjadreifina. Ég hefði betur asnast upp í Hvalfjörð þegar ég heyrði fréttirnar að taka myndir af komu Hvals 9. Það hefði verið gaman að eiga myndir af sögulegum atburði. Ég hef síðustu daga skipst á skoðunum við konu í Bandaríkjunum sem sendi mér orð á myndavefnum að nú gæti hún ekki heimsótt Ísland enda þótt hana langaði til þess. Hún hefur verið virk í hvalasamtökum sem fara út á haf og ættleiða hvali. Hún getur ekki heimsótt land sem drepur vini hennar að hennar sögn!! Þannig er nú það.

Ágæt umfjöllun á forsíoðu Fréttablaðsis í morgun þar sem fjallað var um hegðan barna í grunnskólum. Í 20% skolanna eru engin agavandamál, dálítil í um 60% og mikil í um 20%. Gaman væri að gera samanburðarrannsókn á skólastarfinu í þessum skólum og sjá í hverju ber á milli. Í fyrra skrifaði ég litla grein í moggann um skipulag kennslustunda í grunnskólum. Ég hafði skoðað stundaskrá dóttur minnar og sá að krakkarnir voru samtals 80 mín í kennslu samfellt án frímínútna. Ég þekki það vel bæði sem nemandi og sem kennari hvað athyglin er farin að dofna hjá fullorðnu fólki eftir 45 - 50 mínútur í kennslu hvað þá eftir 80 mín. Ég heim´sótti skóla í Finnlandi í fyrrahaust. Þar var skipulagið á þann veg að það er kennt í 45 mínútur og síðan 15 mínútna frímínútur. Alltaf, alla daga. Skólastjórinn sagði að það væri hreinlega bannað í Finnlandi að setja stundaskrá upp eins og ég lýsti stundaskrá dóttur minnar. Stundaskrá hennar var breytt eftir að greinin birtist en ég fékk nokkrar hringingar frá skólanefndarmönnum hér og þar á landinu þar sem fólk hafði farið að skoða skipulagið hjá sér og sá að það var kannski ekki allt með felldu í þessum efnum.

Í hádegisútvarpinu var margendurtekið að Sovétmenn hefðu bælt niður uppreisnina í Ungverjalandi árið 1956. Að bæla eitthvað niður er samkvæmt mínum málskilningi að beita mildi en ákveðni. Að berja eitthvað niður er sýnu sterkara orðalag. Að beita hervaldi til að geta kúgað aðra er enn sterkara orðalag. Ég get varla kallað það að bæla eitthvað niður þegar rauði herinn drepur hátt á þriðja þúsund manns og beitir vopnavaldi og herstyrk í því sambandi. Meðal annars er þjóðhöfðinginn tekinn af lífi af undirsátum sovétglæponanna. Það er ekkert annað en stríðsaðgerð með öllum þeim djöfulskap sem slíku fylgir. Ég geri ekki ráð fyrir að söguskýrendur telji að Vesturveldin hafi bælt niður aðgerðir Hitlers í seinni heimsstyrjöldinni.

Engin ummæli: