laugardagur, febrúar 03, 2007

Fór út í morgun kl. 7.00 og tók Poweratehringinn áður en ég hitti Jóa og Halldór á Kringlumýrarbrúnni. Við ætluðum fyrst að fara í austur en tókum svo ákvörðun um að fara suður á bóginn. Í stað þess að fara fyrir Kársnesið þá fórum við yfir Kópavogshálsinn. Við vorum komnir up að Marbakkabrautinni þegar Halldór kallar: Þarna liggur maður. Mikið rétt, það lá maður hreyfingarlaus þarna á grasbletti og taska við hlið hans. Halldór tók púlsinn og fann vægan púls. Jói var með síma og hringdi á 112 í snatri. Sjúkrabíll var kominn eftir örfáar mínútur. Þeir hófu strax hjartahnoð á meðan þeir voru að gera klárt til að koma honum á börur og héldu því síðan áfram inni í bílnum. Maðurinn hafði greinilega dottið niður á leið í sund eða aðra líkamsræktarstöð því íþróttaföt og handklæði voru í töskunni. Við héldum síðan sem leið lá suður í Hafnarfjörð en sáum Gísla Ásgeirs hvergi né aðra hlaupara frekar en fyrri daginn. Fórum til baka heim á leið og tókum tröppurnar. Þar sem Sigurður Snævarr sagði mér í gær að hann væri látinn hoppa á öðrum fæti í æfingum þá hoppaði ég á öðrum færi upp tröppurnar, skipti þeim reyndar á milli fóta. Þessi aðferð reynir meir á fætur en minna á lungu en hefðbundin aðferð. 34 kílómetrar lágu eftir morguninn.

Eftir hádegi fékk ég tölvupóst frá Halldóri þar sem hann sagðist hafa frétt frá lögreglunni að maðurinn sem við fundum hefði látist. Svona er þetta.

Hitti gamlan sveitunga og skólabróður að vestan eftir hádegið. Hann er ári yngri en ég. Hann hafði barist í sjö ár við eitthvern sjúkdóm sem var að fara með hann bæði andlega og líkamlega. Loks eftir áralanga baráttu fannst í fyrra hvað var að honum. Þá hafði gert um sig góðkynja æxli í nýrnahettunum sem ruglaði öll skilaboð sem þær senda frá sér. Eftir að það var fjarlægt þá stefnir allt upp á við hjá honum og gerir hann ráð fyrir að fara að vinna með vorinu. Stundum sér maður betur en ella hvílíkur lukkunnar pamfíll maður er.

Fór á fyrirlestur hjá Hannesi Hólmsteini vestur í HÍ á miðvikudaginn. Hann hélt skemmtilegan fyrirlestur um þróun samfélagsins, auð og fátækt. Að hans mati á maður ekki að hafa áhyggur af þeim sem eru ríkir heldur hugsa fyrst og fremst um þá sem minna mega sín. Hann vildi hvorki fara sænsku leiðina né þá bandarísku heldur halda sig í stórum dráttum við þá stjórnarstefnu sem unnið hefur verið eftir hérlendis því hún hafi gefist vel.

Eftir fyrirlestur Hannesar töluðu einhverjir brostinni röddu um fátæku börnin á Íslandi (mig minnir að þeu séu 4544). Hannes spurði hvernig þjóðfélag menn vildu, hvort menn vildu heldur ástandið hérlendis þar sem atvinnuleysi meðal ungs fólks er 0% og tækifærin fjölmörg fyrir alla á meðan atvinnuleysi ungs fólks er 10 - 20% í Svíþjóð eða 25% í t.d. Frakklandi. Fátt varð um svör.

Sá í Mogganum í morgun niðurstöður frá Hagstofu Íslands þar sem birtar voru niðurstöður evrópskrar könnunar um fátækt. Í þeirri könnun kom fram að staða mála er hvað best á Íslandi af öllum löndum Evrópu. Meðallaun þess 10% hluta þjóðarinnar sem hefur lægst launin eru 3,5 sinnum lægri en þess 10% hluta sem hefur hæst launin. Í Tyrklandi er þessi munur t.d. tífaldur. Það verður gaman að heyra hvað lýðskrumararnir sem hafa talað grátklökkir um að ójöfnuður sé hvað mestur á Íslandi af öllum löndum í heiminum segja eftir þessa niðurstöðu.

Andri Snær fékk í gær bókmenntaverðlaunin í flokki fræðirita fyrir Draumalandið. Draumalandinu hefur verið líkt við Bréf til Láru eftir Þórberg. Seint verður bréfið hans Þórbergs flokkað sem fræðirit. Ég get ekki skilið hvernig hægt er að skilgreina þessa bók sem fræðirit. Þetta er fyrst og fremst harðsoðinn áróðurstexti. Það er hverjum sem er heimilt að skrifa áróðursbækur en það er ekki rétt að klæða þær í einhvern falskufl, sérstaklega ef forsetinn stimplar undir. Það skýrir kannski málið að einn sem situr í þeirri litlu nefnd sem tekur ákvörðun um verðlaunin situr einnig í stjórn Framtíðarlandsins. Bullið ríður ekki við einteyming.

1 ummæli:

Gisli sagði...

Er enn slæmur í löppinni og fór bara stutt.