föstudagur, febrúar 23, 2007

Maður er heldur að hjarna við. Ætli það verði ekki reynt að fara að hlaupa upp úr helgi. Þetta er orðið alveg nóg.

Ég veit ekki hvað maður á að segja. Ég er búinn að þurrka það sem ég hef skrifað nokkuð oft út því maður er hræddur um að segja eitthvað sem betur væri ósagt. Hvað er að gerast? Eru einhverjir öfgafullir atvinnubloggarar farnir að skilgreina sig sem þjóðina. Blaðamannaliðið á Mogganum lítur alla vega svo á. Ætlar borgarstjórnin í Reykjavík og alþingismenn að fara að renna yfir gestalista hótela í framtíðinni og leggja mat á hvort þeir sem áhuga hafa á að koma til landsins séu æskilegir eða ekki, ekki vegna þess hvort þeir hafi drýgt glæpi eða ekki heldur vegna þess "af því bara" og " mér finnst" o.s.frv. Svo æðir frambjóðandi til Alþingis fram og segir "Valdið til fólksins". Er þetta það sem við viljum að einhverjir hysterískir einstaklingar sitji við tölvuna og bloggi sig sárhenta og séu með þeim hætti orðinn valdfaktor í samfélaginu. Það er ekkert nýtt að almenningur veiti stjórnmálamönnum aðhald hvað varðar siðferði og framgöngu, en þegar þetta er farið að færast yfir á þau svið sem maður hefur orðið vitni að að undanförnu þá gegnir öðru máli. Ætla menn nú ekki að hreinsa klámið út úr öllum verslunum, banna þess eðlis blöð og myndir o.s.frv. Verða þeir kaupmenn sem hafa slíkan varning á böðstólum eltir uppi og þeim velt upp úr fiðri og tjöru ef til þeirra næst. Ég man ekki betur en rás 90 á Digital Ísland sé blá adult stöð. Á ekki að ráðast næst á 365? Hvað með útihátíðarnar um verslunarmannahelgarnar þar sem nær því árvisst er að einhverri stúlku er nauðgað. Ætla menn bara að kaupa sér hvíta samvisku með því að útdeila bolum og frisbydiskum með einhverjum áletrunum. Mjög líklega.

Þegar búið er að segja A verður líka að segja B. Maður verður alla vega að gera kröfu til að ábyrgir stjórnmálamenn átti sig á því.

Maður sá dæmi um svona massahysteríu í þáttunum um Kína um daginn þegar skríllinn sem Maó sigaði á þjóðina æddi um og dró alla fyrir dómstól götunnar sem féllu ekki undir hina einu sönnu hugsun. Það er líklega þetta sem við viljum. Nútíma galdraveiðar. Forræðishyggjan er engurm takmörkunum háð hjá ákveðnum hluta þjóðarinnar. Maður heyrir í fréttum að VG ætli að samþykkja á landsfundi sínum að það eigi að lögbinda það að jafnt kynjahlutfall sé í stjórnum fyrirtækja. Þau fyrirtæki sem ekki vilja gangast undir það geti þá líklega bara hypjað sig úr landi. Áran verður að vera hrein. Mér er einfaldlega spurn. Hvað kemur einhverju fólki við Austurvöll það við hverja ég vildi hafa í stjórn míns fyrirtækis með mér ef ég hefði það góða viðskiptahugmynd eða ætti nóg af peningum til að stofna til rekstrar. Að mínu mati kæmi þeim það bara ekki nokkurn hlut við. Bara alls ekkert. Þetta forsjárhyggjulið er á annarri skoðun. Það er þess fullvist að það viti betur hvað mér er fyrir bestu með minn rekstur. Mér finnt að menn verði að fara að horfa á alvöru málsins ef svona stjórnarfar á að að verða við lýði hérlendis á næstu árum. Godbevares.

Nú eru vafalaust einhverjir sem segja að maður styði barnaníð, nauðganir, mannsal og sé kvenhatari af því maður kóar ekki með og slæst án umhugsunar í blaðurkórinn. Það verður þá bara að hafa það. Maður getur ekki annað en gengið út frá ákveðnum grundvallarsjónarmiðum í svona málum sem ekki er hægt að hvika frá. Vingulsskapur og heigulsháttur stjórnmálamanna í þessu Hótel Sögumáli er með ólíkindum, hreinum ólíkindum.

Engin ummæli: