föstudagur, mars 23, 2007

Það voru fín viðtölin við Önnubellu og Evu í sjónvarpinu á þriðjudagskvöldið. Þær eru magnaðar hvor á sinn hátt. Gott hjá fréttamönnunum a sjá að það leynast víðar fréttir en í stóryrðaflaumnum á Alþingi. Ég hitti Önnubellu og Trausta í Laugum á miðvikudagskvöldið. Trausti sagðist vera farinn að velta fyrir sér að taka 100 k hlaup eða þaðan af lengra. Það verður gaman að því að sjá hann takast á við það verkefni. Þegar ég fór út gek ég fram hjá Trausta þar sem hann virtist skokka í rólegheitum á brettinu. Ég leit á mælinn hjá honum og hann stóð í 16 km á klst. Það verður gaman þegar maður kemst á þetta stig ef það verður nokkurn tímann.

Horfði á kastljóssþáttinn á miðvikudaginn þar sem rætt var um jafnréttismálin. Það er svo oft þessa dagana að það er minnst á jafnréttismál við mann þegar maður hittir gest og gangandi að maður verður að fylgjast með. Greinarhöfundurinn úr Þjóðmálum og stjórnmálamaður ræddu launamun kynjanna þarna í Kastljósinu. Á undanförnum misserum hefur veriið haldið á lofti fullyrðingum um að hann sé 15% eða 20% og það hefur ekki verið vel séð ef þessar fullyrðingar eru véfengdar. Greinarhöfundurinn úr Þjóðmálum skyggðist aftur á móti bak við tjöldin og skoðaði þá aðferðafræðis em beitt var við að ná fram þessum niðurstöðum. Þá kemur í ljós að svo miklir ágallar eru á aðferðafræðinni að það er vægast sagt hæpið að slá fram á grundvelli þessara kannana ákveðnum niðurstöðum sem fullyrt sé að séu óvéfengjanlegar. Ljóst er að til þess að hægt sé að ræða þessa hluti af fagmennsku verður að standa mun betur að upplýsingaöflun en gert hefur verið til þessa. Stjórnmálamaðurinn sagði að fræðasamfélagið teldi afnám launaleyndar vera mikilvægasta málið til að afnema launamun kynjanna. Nú veit ég ekki hvaða fræðasamfélag er verið að fjalla um en hitt veit ég að tveir háskólasprófessorar (stærðfræðingar en að vísu karlar) skrifuðu greinar í blöðin fyrir nokkrum misserum þar sem þeir véfengdu þá aðferðafræði sem beitt hafði verið í að kanna þessi mál og þar af leiðandi gagnrýndu þeir þær niðurstöður sem höfðu fengist. Þau viðbrögð sem þeir fengu í blöðunum voru vægast sagt nokkuð hörð og beindust þau fyrst og fremst að því að þeir skyldu efast um það sem allir áttu að vita og vera sammála um. Það má segja að viðbrögð konunnar sem óskaði greinarhöfundinum í Þjóðlífi til helvítis fyrir að hún sem kona væri að véfengja það sem aðrar konur segðu í þessum efnum sé af sama meiði. Þetta minnir á stéttsvikaraumræðu þeirra ára þegar kommúnisminn var sem fyrirferðarmestur.

Fór á múziktilraunir ÍTR á fimmtudagskvöldið í Loftkastalanum. Jói var að spila þar með félögum sínum úr MR og einnig var Haukur bróðir mættur á staðinn með fjölskylduna að fylgjast með Jónasi en hann barði trommur í rokksveitinni Soðin skinka. Svo fór að frændurnir komust báðir áfram, salurinn kaus Skinkuna en dómnefndin valdi Jóa og félaga í stórsveitinni <3 Svanhvít (10 meðlimir) þannig að það verður annað músíkkvöld annan laugardag þegar leikið verður til úrslita. Nú er það hins þegar ferming Maríu á sunnudaginn sem er efst á baugi.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Til hamingju með daginn og dótturina! Kær kveðja frá okkur öllum.