fimmtudagur, mars 15, 2007

Ég sé að skoðanir mínar á ákveðnum hlutum í skýrslu jafnréttisnefndar sem kynnt var nýlega hafa vakið nokkra athygli og er það ágætt. Ég sé einnig að það hefur vakið athygli að nafni mínu bregður fyrir í skýrslunni í stöðu varamanns í nefndinni og látið er það því liggja hjá einhverjum að ég hafi tekið þátt í vinnu nefndarinnar og leiki þannig tveimur skjöldum. Til að öllu sé til skila haldið þá skal tvennt tekið fram:

1. Sá sem er kjörinn eða skipaður varamaður í nefnd hefur enga sérstöðu gagnvart þeim störfum sem hann er tilnefndur sem varamaður til utan aðra þjóðfélagsþegna nema að hann sé kvaddur til fundar vegna forfalla aðalmanns.
2. Ég var boðaður á tvo (að því mig minnir) fundi í nefndinni vegna forfalla aðalmanns. Í bæði skiptin var það gert með svo skömmum fyrirvara að ég gat ekki mætt vegna anna við önnur viðfangsefni. Því hafði ég aldrei möguleika á að koma skoðunum mínum á framfæri í nefndinni né heyra röksemdafærslur annarra nefndarmanna og láta sannfærast og skipta kannski um skoðun í framhaldi af því. Því ber undirritaður ekki ábyrgð á einu orði sem þessi ágæta nefnd skilaði af sér í umræddri skýrslu.

Mér finnst ekki óeðlilegt að í svo umdeildu máli sem hér um ræðir sé þess getið hverjir hafi tekið þátt í störfum nefndarinnar og í hve mörgum tilvikum varamenn hafi verið kallaðir til starfa. Það fer þá ekki milli mála hverjir hafi unnið skýrsluna.

Í Skövde í Svíþjóð fer fram á helginni sex tíma hlaup. Þar eru 150 manns skráðir til þátttöku. Áhuginn fyrir þessari tegund ultrahlaupa fer sífellt vaxandi. Við í UMFR36 héldum fyrsta sex tímahlaupið á Íslandi í september sl. Þá komu fimm frumherjar til leiks. Þeir verða vafalaust fleiri í haust þegar næsta hlaup verður haldið.

Engin ummæli: