sunnudagur, mars 04, 2007

"Tú og jeg på ástarting". Færeyskir tónar eru í útvarpinu. Það er verið að rifja upp gömul og góð lög frá því fyrir um 40 árum eða á árunum í kringum 1964 - 66. Þetta voru náttúrulega bestu og ógleymanlegustu popptímar allra tíma. Hvaða maður ætli muni hlusta á gömul rapp og hip hop lög sér til ánægju eftir fjörutíu ár? Það fylgja því ákveðnir kostir að vera orðinn svo gamall sem raun ber vitni því þá fékk maður nasaþefinn af straumum þessara ára enda þótt að væri mest í gegnum útvarpið. Einu sinni sá ég Dáta á Patró þegar þeir komu þangað vestur að halda ball. Líklega 13 eða 14 ára. Það var eins og að sjá alvöru poppstjörnur. Því gleymir maður ekki.

Tók daginn snemma í gær og í dag. Fór út kl. 7.00 báða dagana. Fór Poweratehringinn á laugardaginn og hitti svo Jóa og Halldór í Fossvoginum. Fórum vestur á Eiðistorg og síðan hefðbundna leið til baka í gegnum Laugardalinn. Breyttum þó út af hefðbundinni leið og litum m.a. inná listaverkagallerí. Jói hefur ítök víða. Sannfærðist enn frekar um að myndir eftir NT eru ljótar. Samtals um 30 km.

Tók Eiðistorgshringinn á sunnudagsmorgun. Rúmir 20 km. Var svo mættur niður í Laugardal kl. 10.00 því María var að keppa þar á meistaramóti Íslands fyrir 12-14 ára. Alltaf jafn gaman að fylgjast með krökkunum og sjá hve þeim fer mikið fram. Það unnust verðlaunapeningar báðum megin í Rauðagerðinu svo við erum bara tiltölulega sátt.

Engin ummæli: