föstudagur, september 21, 2007

Spartathlon er virtasta ultrahlaup í Evrópu. Það er hlaupið milli Aþenu og Spörtu í Grikklandi. Hlaupið er í flokki með Western States í Sierra Nevada fjöllunum í Californíu og Badwater í Dauðadalnum en það er draumur flestra ultrahlaupara að takast á við þessi hlaup og ljúka þeim. Daninn Kim Rasmussen er eini maðurinn í heiminum sem hefur lokið Western States og Spartathlon á sama árinu en það gerði hann árið 2005. Hann lauk síðan Badwater í sumar þannig að hann hefur tekið þrennuna. Það eru ekki margir sem það hafa gert, líklega innan við tíu manns. Það ég best veit eru það einungis fjórtán hlauparar sem hafa lokið bæði Western States og Spartathlon. Ég ætla mér að verða sá fimmtándi. Hvort það tekst kemur í ljós.

Það er saga á bak við Spartathlon eins og flest stór hlaup. Sagan dregur sig aftur til ársins 490 f.kr. þegar orustan um Maraþon var háð. Sendiboðinn Pheidippides var sendur til hershöfðingja Herodotusar sem staddur var í Spörtu til að kalla eftir meira liði til að verja Aþenu. Að sögn Herodotusar kom sendiboðinn til Spörtu daginn eftir að hann lagði af stað frá Aþenu.

Árið 1982 var John Foden, breskur námsmaður, lesa gríska sögu og þá meðal annars frásagnir af dáð Pheidippidesar. Hann fór þá að velta fyrir sér hvort mögulegt væri að hlaupa milli Aþenu og Spörtu á innan við 36 klst. Hann komst að þeirri niðurstöðu að eini möguleikinn til að sannreyna þetta væri að hlaupa leiðina sjálfur. Hann lagði af stað þann 8. október árið 1982 ásamt fjórum félögum sínum sem leið lá frá Aþenu áleiðis til Spörtu í þeim tilgangi að fara í fótspor Pheidippidesar. Það segir ekki af ferðum þeirra fyrr en daginn eftir þegar John kom að styttu Leonidasar í Spörtu eftir 36 klst. ferð. Félagi hans, John Scholten hafði náð á áfangastað hálfri klukkustund fyrr og sá þriðji komst á leiðarenda eftir um 40 klst hlaup. Niðurstaðan lá ljós fyrir, þetta var mögulegt.

Fyrsta formlega Spartathlon hlaupið var skipulagt árið 1983. Alls tóku 45 hlauparar frá 11 löndum þátt í því. Þar með var boltinn farinn að rúlla. Í haust taka um 300 hlauparar þátt í hlaupinu sem er með því almesta ef ekki mesti fjöldi sem hefur lagt af stað. Hlutfall þeirra sem ná á leiðarenda undir 36 klst er um 60%. Hitinn hefur mikil áhrif á hve erfitt hlaupið er. Hann verður nálægt meðallagi í ár eða um 27 oC.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Já ég ásamt mörgum öðrum munum fylgjast spennur með þér Gunnlaugur þegar þú ferð að takast á við mestu þrekraun sem nokkur íslenskur hlaupari hefur tekist á við.
Gangi þér allt í haginn vinnur minn.
Ásgeir