mánudagur, október 27, 2008

Ég horfði á viðtalið við Björgúlf Thor á Stöð 2 áfram. Nú veit maður ekkert um hver hefur rétt fyrir um atburðarásina helgina sem Landsbankinn var tekinn yfir. Björgúlfur segir eitt en Seðlabankinn annað. Úr þessu verður vafalaust hægt að skera með því að leita til forsvarsmanns enska fjármálaeftirlitsins sem átti að hafa verið ræstur út á sunnudegi. Hitt er rétt sem Björgúlfur segir að hann í fyrsta lagi auðgaðist erlendis eða nánar til tekið í Rússlandi. Í öðru lagi er það rétt að hann keypti Actavis fyrir um einu og hálfu ári síðan fyrir gríðarlega fjármuni og borgaði andvirðið út í evrum. Það veit ég því ág átti smá upphæð í Actavis (150 þúsund kall) og fékk það greitt á gengi dagsins inn í reikning í Landsbankanum. Þar lágu þessir peningar í rúmt ár og ávöxtuðu sig vel. Þetta er dálítið annað cv en Hannes Smárason hefur en það var einnig viðtal við hann á Stöð 2 í kvöld. Ég held að uppbygging á þjóðfélaginu sé betur komin án hans heldur en með hans atbeina. Þessum Hringrásarmönnum er hvergi treystandi þar sem peningar eru annars vegar.

Leiðarahöfundur Fréttablaðsins fer mikinn á laugardaginn og fjasar um að "við" höfum gert hitt og "við" höfum gert þetta sem hafi leitt af sér að allt hafi farið á verri veg í þjóðfélaginu. Ég veit ekki hvaða "við" hann er að tala um sem meinta óráðsíupésa. Ég keyri um á 16 ára gömlum bíl og við eigum 13 ára gamlan tjaldvagn sem dugar bara ágætlega. Ég á góðar myndavélar með linsum en hins vegar engan flatskjá. Kannski hefur það hjálpað til við að setja landið á hausinn. Hins vegar hjöfum "við" ekki gleymt því að það tókst með naumindum að bjarga því fyrir góðu ári síðan að orkulindir Reykvíkinga væru færðar í hendur útrásarjöfranna og "við" höfum heldur ekki gleymt því hverjir fóru þar fremstir í flokki.

Eitt af því góða fólki sem maður hefur kynnst gegnum hlaupin eru hjónin Áslaug og Kári. Þau eru jafngömul mér. Kári er góður hlaupari og Áslaug vitaskuld líka. Mér tókst einu sinni að sigra hann í 10 k hlaupi en þá var hann hálf lasinn. Fyrir fjórum árum síðan tóku þau ákvörðun um að selja allt sitt, kaupa skútu og leggjast í víking. Síðan hafa þau siglt um heimsins höf meðal framandi þjóða, lært ný tungumál, kynnst framandi menningu og lent í ótal ævintýrum. Þau byrjuðu siglinguna við Mið Ameríku, héldu þaðan yfir Kyrrahaf til keyrrahafseyja, til Eyjaálfu og síðan austur á bóginn. Nú eru þau við Tæland. Slóðin á bloggið hjá þeim er hér til hægri handar á síðunni. Magnað þegar fólk söðlar svona algerlega um og kastar sér út í óvissuna. Það gerist ekkert nema að láta reyna á það.

Fyri helgina var kosið um forsetaembættið hjá ASÍ. Karl og kona voru í framboði. Karlinn var kosinn. Ekkert hefur heyrst í jafnréttissinnum eða feministum um að þarna hafi jafnréttisbaráttan fengið stórt bakslag þar sem launþegahreyfingin hafi misst af tækifæri til að kjósa konu í fyrsta sinn sem forseta samtakanna. Öðruvísi mér áður brá. Tek fram að ég hef enga skoðun á því hvor frambjóðandinn sé hæfari til embættisins. Það er ekki minn tebolli.

Engin ummæli: