fimmtudagur, október 30, 2008

Við bjuggum í Fossvognum frá 1989 til 1994 eða í Huldulandinu nánar til tekið. Rétt fyrir neðan var lítill fótboltavöllur. Þar var gjarna hópur áhugasamra krakka í fótbolta. Einn nágranna okkar var kröftug stelpa sem spilaði alltaf fótbolta með strákunum. Hún og Sveinn spiluðu oft saman á móti öðrum en Jói var settur í markið því hann var minnstur og yngstur (3ja til 4ra ára). Síðan stofnuðu þau fótboltafélagið Minkarnir (FC Minks). Stelpan var fyrirliði. Það fer svo sem ekki sögum af afrekum þessa félags í fotbolta en það lifir enn í minningu þeirra sem voru félagar í þeim ágæta klúbbi. Ekki veit ég hvernig nafnið var til komið nema það getur verið að það setið í strákunum að í sumarfríi norður í Eyjafirði sáum við einu sinni mink í fjörunni sem dansaði minkadans að sögn þeirra. Það var mjög merkilegur atburður sem var lengi í minnum hafður. Seinna óx félagsmönnum FC Minks ásmegin og nafninu var breytt í Risaeðlurnar. Síðan fluttum við norður og FC Minks / Risaeðlurnar lagði upp laupana. Þegar árin liðu sáum við að stelpan hafði haldið sínu striki í fótboltanum, gengið í Val og stefndi hátt. Hún fór ung að spila með meistaraflokki og var síðan valin í landsliðið. Það var gaman að sjá fyrrverandi fyrirliða Minkanna í landsleiknum í kvöld. Tvö mörk steinlágu og fínn leikur hjá henni eins og hjá landsliðinu öllu.
Glæsilegur árangur hjá landsliðinu og það verður vafalaust gaman að sjá þær spila við bestu lið Evrópu næsta sumar. Mér finnst þessi árangur fyrst og fremst bera þess merki að Ísland stendur mörgum Evrópskum löndum framar hvað snertir jafnréttismál kynjanna. Stelpur fá æfingaaðstöðu eins og strákarnir, þær fá góða þjálfara og það eru gerðar kröfur til þeirra eins og strákanna. Það skilar árangri.

Ég fór út í Bónus í kvöld á hjólinu. Þegar ég var að læsa hjólinu við grindverkið hjá stæðinu fyrir fatlaða renndi bíll í stæðið. Ég renndi augunum á bílinn og sá að það var ekkert P merki í framrúðunni. Eitthvað hefur konan sem steig út verið svolítið skömmustuleg því hún spurði formálalaust: "Ætlarðu nokkuð að skamma mig?" "Nei", sagði ég, "En mér finnst þetta vera dálítil frekja því það er nóg til af bílastæðum" og fór svo inn. Útundan mér sá ég að hún fór inn í bílinn og færði hann í annað stæði!!

Ég heyrði í kunningja mínum í dag. Hann vinnur í banka. Hann sagði mér að lánafulltrúarnir / ráðgjafarnir hefðu verið á bónusum fyrir að ná að koma út lánum. Ef þeim tókst að telja unglingum trú um að það væri mjög skynsamlegt að hafa yfirdrátt, þá hækkuðu launin þeirra. Ef þeim tókst að telja einhverjum trú um að það væri mjög skynsamlegt að kaupa sér nýjan bíl á allt að 100% erlendum lánum þá hækkuðu launin þeirra. Ef þeim tókst að telja einhverjum trú um að það væri mjög skynsamlegt fyrir ungt fólk að skuldsetja sig yfir haus í íbúðarkaupum þá hækkuðu launin þeirra. Ef þeim tókst að berja í gegn að einhverju byggingarfyrirtækinu væri veitt risalán til að byggja enn eina blokkina þá hækkuðu launin þeirra rosalega. Hann sagði að það hefði ekkert verið við þetta lið ráðið. Mest megnis voru þetta krakkavitleysingar nýkomnir út úr viðskiptafræðinni sem ætluðu sér að verða rík á svipstundu og héldu að peningar yrðu til í bönkunum. Er það furða að svona rugl gæti ekki gengið endalaust þegar það viðgekkst einnig hjá toppunum?

Nú er samkvæmt fréttum verið að skera bankastarfsmenn niður úr snörunni ef þeir hafa keypt hlutabréf í bankanum með lánum sem þau ráða ekki við svo að þeir geti unnið í bankanum áfram. Hvaða rugl er þetta? Ef að almenningur, sem snýtir rauðu þessa dagana og næstu misserin, fær svona lagað framan í sig þá verður allt endanlega vitlaust.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Einu sinni fyrir "langalöngu" þegar þeir voru að byggja Seðlabankahúsið þá var sett upp að mig minnir fín íþróttaaðstaða í kjallaranum. Það var eitthvað verið að agnúast út í bruðlið en því var svarað til í fréttum með að þetta væri gert fyrir peninga sem hefðu "orðið til í bankanum".
Takk fyrir góða pistla.
Jóhanna Hafliðadóttir