miðvikudagur, september 02, 2009

Það var viðtal á Stöð 2 við manninn í Keflavík sem skuldar rúmar 8 milljónir króna. Hann er ósáttur við að lánið hans hefur hækkað á síðustu árum. Líklega er lánið til 40 ára og með a.m.k fimmkommaeitthvað% raunvöxtum. Það ættu allir að vita þegar lán eru tekin til langs tíma að þá borga menn höfuðstólinn mjög lítið niður fyrstu tuttugu árin eða svo. Á verðbólgutímum hleðst verðbótaþátturinn ofan á höfuðstólinn. Þegar ástandið er normalt þá hækka launin álíka og verðbólgan er. Nú er ástandið mjög ónormalt. Þaunin lækka en lánin hækka. Átta milljónkrónamaðurinn sagðist ósáttur við að eignast ekkert í íbúðinni þrátt fyrir að hann borgaði og borgaði. Þar kmeur tvennt til. Í fyrsta lagi er lánið örugglega til eins langs tíma og mögulegt er. Í öðru lagi er íbúðaverð ekki föst stærð. Það hækkar og lækkar eftir því sem vindar blása á íbúðamarkaði. Í þriðja lagi hafa laun þessa manns örugglega hækkað á þeim tíma sem liðinn er frá því hann keypti íbúðina.

Síðan er spurning hvernig menn líta á íbúð. Er íbúð fjárfesting eða heimili? Ég þekki íbúðamarkað einna best í Danmörku. þar er mjög þróað leiguíbúðakerfi eins og svo víða. Margir taka ákvörðun um það að búa alla æfina í leiguhúsnæði. Þá eignast þeir aldrei íbúðina en eru bara ánægðir með sitt. Þeir láta þá peningana sem ella væru bundnir í íbúðinni í eitthvað annað. Aðrir kaupa sér íbúð. Greiðslugetan er reiknuð út eftir fjölskyldutekjum. Mikilvægast af öllu er að hafa vinnu. Síðan taka menn lán til langs tíma og borga síðan sína föstu greiðslu því þeir eru fyrst og frmst að tryggja sér heimili. Vitaskuld getur verð íbúða hækkað svo fólk getur grætt peninga ef það selur í slíkum verðbólum og kaupir sér annað ódýrara. Það er frekar undantekning. Hérlendis var lengi vel litið á íbúð sem eina vitræna sparnaðarformið, sérstakleg þegar allt sparifé brann upp í verðbólgunni. Það hefur síðan gerst svo ótal oft að fólk hefur setið uppi með neikvæða eiginfjárstöðu hvað íbúðina varðar. Fyrir nær 30 árum var íbúðaverð víða hátt á landsbyggðinni enda meðaltekjur víða mun hærri en á hhöfuðborgarsvðinu. Það gjörbreyttist á fáum árum þegar veiðikvótinn var skorinn niður og tekjumöguleikarnir minnkuðu. Fjölmargt fólk missti allar eigur sínar og læstist jafnvel inni því það sat í verðlausu húsi og hafi ekki efni á að byrja frá grunni annarsstaðar. Það deplaði enginn auga yfir þessu. Margir hugsuðu sem svo að þetta fólk gæti bara sleikt af sér fyrst það var svo fyrirhyggjulaust að festa fé í íbúð úti á landi. Ég þekki persónulega til þess að fjölskylda úti á landi þurfti að yfirgefa verðlausa íbúð með áhvílandi lánum vegna þess að vinnan var búin. Ég og fleiri reyndu að tala máli þeirra hjá lánastofnunum en allt kom fyrir ekki. Þau voru bara skilgreind sem vanskilafólk og höfðu takmarkaða möguleika á bankaviðskiptum um nokkurra ára skeið, hvað þá að kaupa sér íbúð. Þau höfðu ekki hagað sér óskynsamlega heldur varð alger forsendubrestur í búsetu þeirra.

Staða fólks er grófflokkuð í þrjá flokka. Í fyrsta lagi er það fólks er með fjármálin í jafnvægi. Það er ekki skuldsett umfram getu þrátt fyrir hrun krónunnar. Í öðru lagi er sá húpur fólks sem þarf að halda vel á sínu til að halda undirtökum á fjármálum sínum. Það á að geta klárað sig með ákveðinni ráðdeild.
Í þriðja lagi er sá hópur fólks sem skuldsetti sig mjög áður en krónan hrundi. Það stóð mjög höllum fæti gagnvart miklum sveiflum enda þótt enginn hafi búist við algeru kerfishruni. Það er margt hvert mjög illa statt og getur ekki staðið undir skuldbindingum sínum. Bílalán hafa einnig farið illa með marga því þau voru yfirleitt í erlendri mynt.
Svo má tiltaka fjórða flokkinn sem er illa staddur vegna annarra aðstæðna s.s. mikillar tekjulækkunar eða atvinnuleysis. Að greiða úr vandræðum þeirra sem illa eru staddir er mjög vandasamt og jafnvel ómögulegt. Hvar á að setja mörkin? Hvernig á að vinna slíka hluti? Hvaða kröfur á að gera til fólks um sparnað og ráðdeildarsemi? Þeir hlutir eru vitaskuld mjög mismunandi milli einstaklinga. Það er mjög auðvelt að setja fram kröfuna um að skjaldborg skuli slegin um heimilin og jafnvel að gefa loforð í þá átt en það er mjög erfitt og vandasamt að framkvæma slíka hluti. Ég hef áður lýst þeirri skoðun minni að flöt niðurfærsla lána er afar slæm aðferð. Á að ganga á höfuðstól lífeyrissjóðanna til að bjarga málum? Hæpið er að það náist sátt um slíka aðferðafræði.

Hvað þýðir það að bloggheimar logi? Er það þegar þessir 50 til 100 manns sem eru virkastir við að skrifa á moggabloggið skrifa allir í einu?

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Mig rak í rogastans þegar ég las þetta: "...fólk getur grætt peninga ef það selur ís...". Hvað er hann að fara núna? Er hann loksins kominn með lausnina sem við höfum öll beðið eftir?
Svo las ég setninguna aftur "...fólk getur grætt peninga ef það selur ís líkum verðbólum..." og sá að líklega var þetta lyklaborðs feill og ég verð að halda áfram leitinni að Gullna Kaleiknum. ;-)

En það er eitt í sambandi við þetta allt saman sem við ellibelgirnir megum ekki gleyma. Þegar ég og jafnaldrar mínir komum út á húsnæðismarkaðinn, þá var hægt að fiska fyrir afborgun á fyrstu íbúð á einni netavertíð. Ég hefði líklega getað fiskað fyrir fyrstu íbúðinni minni á þremur vertíðum.

Fólk sem kom í fyrsta skipti út á íbúðamarkaðinn síðustu 5 - 10 ár er að eyða miklu stærri hluta af ráðstöfunartekjum í húsnæði. Þetta fólk þurfti að skuldsetja sig miklu meira þegar það keypti sína fyrstu íbúð. Það voru ekki ódýrar íbúðir í boði og andinn í þjóðfélagin var líka þannig að menn létu ekki bjóða sér það sem við þáðum með þökkum.

En burtséð frá því, þá virðast reyndar flestir sem koma fram í fjölmiðlum að bera sig upp undan ástandinu vera á mínum aldri...

Gunnlaugur Júlíusson sagði...

Það er ekki verra að geta grætt á því að selja ís. Bara að fari ekki of margir í slíkan business því þá er hrunið skammt undan. Ég hef haldið því fram að það hafi aldrei (sjaldan) verið jafn auðvelt fyrir fólk að koma sér upp þaki yfir höfuðið eins og á undanförnum árum. Fyrir 30-40 árum voru lán Húsnæðisstofnunar kannski 30-35%. Venjulegt fólk sem var að bagsa við að koma sér þaki yfir höfuðið veltui afgangnum árum saman á undan sér á víxlum, það vann margfalda vinnu og svo var unnið í íbúðinni á kvöldin, á nóttunni og hvenær sem auð stund var. Það var flutt inn strax og húsið hélt vatni og vindum og jafnvel búið í húsinu hálfköruðu árum saman. Það er allt í lagi að halda þessu til haga í umræðu nútímans. Síðan mætti alveg rifja upp ástandið á árunum 1983-1988 eftir að kaupgjaldsvísitalan var tekin úir sambandi en lánskjaravísitalan æddi áfram. Þá urðu margir gjaldþrota.