þriðjudagur, mars 29, 2005

Gekk á Esjuna í kvöld. Lagði af stað frá Mógilsá umkl 21.30 þegar var orðið vel dimmt, enda var leikurinn til þess gerður. Nú skyldi nýja höfuðljósið prufað við almennilegar aðstæður. Ég fór upp austan til en ég hef fram til þessa ætíð farið beint af augum. Þarna er hins vegar betri stígur en lengri. Ljósið var mjög gott og lýsti stíginn vel upp en hann er ósléttur og grýttur á köflum eins og allir vita sem til þekkja. Gönguferðin gekk mjög vel og ég fór langleiðina upp að steini en þá var þokan orðin svo dimm að ég sá varla niður á lappirnar á mér. Ég sneri þá við frekar en að lenda í einhverju rugli. Á leiðinni fór maður að hugsa um gullaldarbókmenntir eins og Baskervillhundinn og annað álíka, en ekkert í þeim dúr kom út úr þokunni. Ég var 40 mínútur upp og 30 mínútur niður. Það gekk bara vel að skokka undan hallanum þar sem fært var því ljósið lýsti það vel. Það fær því fararleyfi vestur. Næst þarf að átta sig á hver lengi batteríin duga því í WS er hlaupið í myrkri í 5 - 6 klst. Samtals er í WS farið sem svarar ca 9 sinnum upp Esjuna og 10 sinnum niður. Nú verður maður að fara að keyra markvisst á hana í björtu sem í myrkri. Þvílíkur lúxus að hafa svona æfingaleið í seilingarfjarlægð.

Fylgdist með undarlegri umræðu í kastljósinu í kvöld. Umræðan átti að fjalla um málefni fanga en þar fengu tveir glæpamenn að fimbulfamba um það sem þeim fannst vera illa farið með sig af hálfu yfirvalda á hrauninu. Mín skoðun er að tilgangurinn með því að loka glæpamenn inni sé fyrst og fremst verið að vernda samfélagið gagnvart þeim. Ég get bara ekki tekið undir það að það eigi að setja í forgang einhverjar kröfur sem dópsalar, barnaníðingar og morðingjar setja fram um réttindi sín á meðan á refsivist stendur. Mér finnst að það hefði ekki síður mátt tala við einhvern úr þeim fjölskyldum sem viðkomandi einstaklingar hafa stórskaðað eða jafnvel eyðilagt fyrir lífstíð jafnframt því sem glæpamennirnir fengu að láta móðan mása.

Ég kom til Nýfundalands og Nova Scotia fyrir nokkrum árum. Maður greip í blöðin þar eins og gengur til að sjá hvað væri í umræðunni í samfélaginu. Fyrir tilviljun var mikil umræða um fangelsismál þá stundina. Myndum úr kvennafangelsi hafði verið smyglað út. Þær sýndu meðal annars ákveðinn kvenfanga í glaðværu samkvæmi, uppáklæddan við veisluborð og við fleiri tækifæri við aðstæður sem margir settu spurningarmerki við. Þessi manneskja sat inni fyrir að myrða yngri systur sína á viðurstyggilegan hátt sem ég ætla ekki að lýsa hér í smáatriðum. Kanadamenn urðu brjálaðir og vildu fá að vita hvort fangelsin væru orðin að þægilegum hressingarhælum eða til hvers þau væru yfirleitt. Svíar hafa lengi gengið á undan öðrum þjóðum með að það eigi að nota fangelsin til að endurhæfa fangana, kenna þeim, byggja þá upp og láta þá fara í helgarfrí. Svo mikil áhersla er lögð á þetta að það virðist sem svo að sjálf fangelsunin sé orðin að aukaatriði. Ég les sænsku blöðin oft á netinu. Það líður varla sá mánuður sem sænska löggan er ekki að elta stórglæpamenn sem strjúka úr fangelsun. Þá er ekki verið að tala um einhverja sjoppuþjófa heldur meðal annars fjöldamorðingja, margfalda lögreglumorðingja og sálsjúka kynferðisglæpamenn sem dæmdir hafa verið í æfilangt fangelsi. Sænski fangelsismálaráðherrann er orðinn mjög valtur í sessi vegna þessa ástands. Miðað við umræðuna í kastljósinu í kvöld dettur manni helst í hug að maður eigi eftir að sjá fangana á Hrauninu í 1. maí göngu með kröfuspjöld einhvert árið.

Þessi umræða er mér kannski frekar ofarlega í sinni vegna þess að Sigrún lenti í vopnuðu ráni í apótekinu fyrr í vetur. Þar rændu tveir glæpamenn peningum og lyfjum og hótuðu starfsfólkinu með hnífum. Hvað ef þeir hefðu beitt vopnunum og drepið einhvern við ránið eins og gerðist t.d. þegar bensínstöðin í Stóragerðinu var rænd hér um árið. Ætti maður svo að þurfa að horfa upp á viðkomandi í sjónvarpinu að tala um einhver réttindi á meðan á afplánun dómsins stæði? Takk fyrir kærlega.

Engin ummæli: