fimmtudagur, mars 03, 2005

Hvíld í dag og hvíld á morgun. Það er lágmark að hvíla sig í tvo daga fyrir maraþonhlaupið enda þótt það sé kannski svolítill lúxus. Geri það engu að síður af því ég hef verið að taka vel á í tækjunum til viðbótar við hlaupin. Það er ekkert voðalega sniðugt að fara í maraþonhlaup með harðsperrur. Ég þarf hins vegar að ná vel yfir 400 km í mars til að halda áætlun. Get þó huggað mig við að janúar og febrúar voru ágætlega yfir því lágmarki sem ég hafði sett mér. Nú fara veður vonandi að verða heldur betri þannig að það á að verða þægilegra að hlaupa. Kvefið er alveg að hverfa þannig að ég má prísa mig sælan að hafa ekki orðið veikur fyrir alvöru (7 - 9 - 13). Miðað við það sem maður hefur heyrt af veikindum hjá fólki þá hefðu alveg getað dottið út 2 - 3 vikur vegna veikinda ef maður hefði verið óheppinn. Ég þarf síðan að fara að taka næturhlaup í Heiðmörkinni með vasaljós til að finna hvernig það er að hlaupa við þær aðstæður. Ef maður er seinn fyrir getur maður lent í því að hlaupa í 6- 7 tíma í myrkri. Maður þarf að vera búinn undir allt. Minnstu smáatriði geta orðið til að setja allt í uppnám ef þau eru ekki í lagi. Það er þó vel hugsað um fólkið á drykkjarstöðvum með læknum og hjúkrunarfólki en sama er. Það reddar enginn því sem maður gleymir eða klikkar á.

Ég fór að hugsa um það í kvöld undir kvöldfréttum sjónvarpsins að það er eins og fátt sé fréttnæmt í þeirra augum nema að það gerist niðri á Alþingi. Óskapleg naumhyggja er þetta. Þarna hanga fréttamennirnir á þingpöllum og bíða eftir að einhverjir þingmenn fari að jagast og þá er það orðin frétt í kvöldfréttum. Fínt, búið að fylla upp í tilskylinn tíma. Ég tala nú ekki um ef einhver er með upphlaup og lætur stóryrði eða fúkyrði fjúka. Þá er sá hinn sami umsvifalaust tekinn í Kastljós til að geta látið ljós sitt skína enn betur.

Heyrði í gærkvöldi í Merði Árnasyni vera að fárast yfir því að það sé ekki lengur lögskipað að þýða á íslensku einstaka reglugerðir sem varða ýtrustu fagmennsku s.s. í flugi þar sem enska er alþjóðlegt starfsmál. Alveg er ótrúlegt að heyra þennan málflutning. Skyldi hann vera formaður í þýðarafélaginu? Hvað skyldi Gísli segja um þetta?

Umhugsunarvert og jafnvel áhyggjuefni hvað ungt fólk þekkir lítið til stjórnmálamanna? Ég hefði af þessu áhyggjur væri ég í þeirra hópi.

Engin ummæli: