miðvikudagur, mars 16, 2005

Var hálf slappur í gær með innantökur og lá fyrir þegar ég kom heim. Það hafði verið lumbra í mér frá því á sunnudagsmorgun sem kláraðist í gærkvöldi. Því var ekkert hlaupið eða lyft í gær eins og planið hljóðaði upp á. Notaði tímann til að lesa nokkrar bækur sem ég keypti á bókamarkaðnum um daginn. Hallgrímur Sveinsson staðarhaldari á Hrafnseyri við Arnarfjörð hefur gefið þessar bækur út ásamt fleiri bókum sem fjalla um vestfirskt mannlíf. Þar á meðal voru kver sem fjölluðu um mannlíf í Dýrafirði og nágrenni hér áður fyrr út frá ýmsum sjónarhornum. Meðal margvíslegra þjóðfélagsþátta er skotið inn ýmsum gamansögum þaðan að vestan. Þar á meðal var sögð saga af því þegar Sighvatur Dýri var í smalamennsku í Dýrafirðinum á þeim tíma sem hann var upp á sitt besta sem hlaupari. Hann fór á eftir kindum upp fjall í þoku þar sem hann var fótfráastur smalanna. Hann missti af kindunum í þokunni sem ekki er óalgengt í smalamennskum og kom tómhentur niður aftur. Þá gall við í Þórarni á Höfða, frænda hans, að það þýddi lítið að geta hlaupið ef ekkert fylgdi með vitið. Nú er þetta vitaskuld í gamni sagt en samt sem áður er rétt að hafa orð Þórarins í huga þegar farið er í mjög löng hlaup. Undirbúningur undir þau snýst vitanlega meðal annars um að byggja upp úthald og styrk en hann snýst einnig mikið um skipulagningu, andlegan undirbúning og að gleyma ekki einhverjum smáatriðum sem geta orðið afdrifarík þegar á hólminn er komið því þá er of seint að bæta úr þeim og þau verða að aðalatriðum. Nú ætla ég að hlaða upp með Carbolode fyrir marsmaraþonið til að hafa orkubúskapinn betri en í Pétursþoninu. Það lítur heldur vel út með veður, alla vega verður farið að hlýna.

Engin ummæli: