föstudagur, mars 25, 2005

Var að hugsa um að taka hlaup í morgun þegar blaðaútburðinum lauk en nennti því síðan ekki. Veðrið var eins og best var á kosið, hlytt og logn. Ég sá það svo seinni part dagsins að það hefði berið betra að taka hring um morguninn því það fór að hvessa þegar leið á daginn. Um kvöldmat fór að rigna drjúgt svo mér leist ekkert á að ég kæmist fyrirhugaðan túr. En um kl. 2200 leit ég út og þá var komið hið besta veður svo ég dreif mig af stað og tók texta dagsins, 16 km. Það var ansi stífur mótvindur alla leið inn fyrir Fáksvöll en við brúna við Breiðholtsbraut fékk maður vindinn í bakið og allt varð léttara. Missti af beinni útsendingu af hingaðkomu Fishers en hvað með það, aðalatriðið er að kallgreyið sé laus úr steininum. Náði settu marki sem var að hlaupa nær 140 km á sex dögum. Það er lengsta vika sem ég hef nokkru sinni hlaupið. Ég finn ekkert fyrir þessu, ég fer yfirleitt heldur rólega enda er ekki markmiðið að setja hraðamet heldur að fara sem lengst. Þetta þýðir að ég er að hlaupa í 14 - 15 klst á þessum tíma. Sá um daginn á disknum sem ég fékk um WS100 að sigurvegarinn Scott Jurek er að hlaupa upp í 25 klst á viku, enda gerir hann varla mikið annað.

Prófaði höfuðljós sem ég er nýbúinn að fá mér. Það kom vel út, er kannski í þyngsta lagi en það logar líklega nokkuð lengi á því. Fór Hattinn eins og vanalega og ljósið kom vel út á stígum.

Þegar maður er að hlaupa svona einn er mjög gott að hlusta á útvarp. Vandræðin eru hinsvegar að það er ekki alltaf neitt sérstaklega skemmtilegt sem maður getur gengið að til að hlusta á. Ég sakna Skonrokks og Stjörnunnar, þar gat maður gengið að góðu lagavali. Ég hlusta aldrei á Bylgjuna nema fréttir, mér finnst hún yfirleitt svo leiðinleg. Rás tvö er mjög misjöfn, stundum í lagi en oft hundleiðinleg. Oft verður þrautalendingin að hlusta á Útvarp Latabæ, þar eru þó yfirleitt lög sem renna hæfilega áreynslulaust í gegn.

Engin ummæli: