mánudagur, apríl 11, 2005

Fór á Esjuna í kvöld. Það var heldur leiðinlegt, snjóruðningur á stígnum, frekar hvasst og gekk á með éljum og kólnaði eftir því sem ofar dró. Fór töluvert ofar en síðast en samt ekki alveg upp að steini. Það var varið að skyggja töluvert á bakaleiðinni en samt gat ég skokkað létt niður. Bæði var snjórinn heldur góður að hlaupa í og svo er stígurinn heldur góður víðast hvar. Það verður gott að taka túrana þarna upp þegar veður er farið að batna. Hnéð virðist alveg hafa náð sér því ég fann ekkert fyrir neinu hvorki á upp- eða niðurleiðinni. Ég endurtek það síðan sem ég hef áður sagt, þvílíkur lúxus að hafa Esjuna við bæjardyrnar.

Sá á netinu í dag að Guðmann og Sveinn Ernstsson höfðu tekið þátt í Rotterdam maraþoninu á laugardaginn. Sveinn var í 131 sæti á 2.43 en Guðmann í 156 sæti á 2.46. Vonandi fer ég rétt með tíma og sæti. Glæsilegur árangur hjá þeim að skila toppárangri eftir æfingar yfir háveturinn við allavega aðstæður. Þriðji maður var einnig í þoninu sem kláraði á rétt rúmum 4 klst en ég þekkti hann ekki.

Fékk email frá Pétri Reimars í dag. Honum fannst leggjast lítið fyrir okkur Halldór að vera að lulla á jafnsléttu og gaf slíkum æfingaplönum háðulegar nafngiftir. Hann sendi okkur prógram fyrir næsta laugardag með alla vega sjö snörpum brekkuæfingum. Ég tel víst að því verði fylgt eftir, sérstaklega þar sem Pétur og fleiri verða að streða í Boston maraþoninu á sama tíma. Við verðum að taka á því hér heima þeim stuðnings.

Tíminn hefur liðið hratt. Það er nú komið á fjórða mánuð síðan formlegar æfingar hófust fyrir WS 100. Planið hefur gengið upp að fullu til þessa og maður hefur blessunarlega sloppið ennþá við öll áföll sem alltaf geta komið upp á. Vissulega er ekki öll nótt úti enn en saman er að líkurnar aukast á að það gangi upp sem ætlað var. Vitanlega getur alltaf eitthvað komið uppá en sem stendur er skrokkurinn í fínu lagi. Við ætlum að taka langa túra um næstu helgi, síðan verður hvíldarhelgi sem er nauðsynlegt því um mánaðamótin verður Þingvallahlaupið. Það verður um 70 km langt ef allt fer sem ætlað er.

Engin ummæli: