sunnudagur, apríl 10, 2005

Lagði af stað kl. 8.00 í morgun og hitti Halldór við göngubrúna um kl. 8.25. Veðrið var heldur leiðinlegt að sjá. Við höfðum verið að velta fyrir okkur að fara út á Álftanes og síðan eitthvað en ákváðum að fara bara hefðbundnar leiðir inn Fossvog og níður í Laugardal, út Sæbrautina og vestur á Eiðistorg og síðan til baka inn með flugvellinum, tvisvar sinnum. Þetta varð hinn besti dagur, við róluðum þetta í hægum en ákveðnum gír. Margt fólk var úti að að hlaupa. Vindurinn var í bakið á austurleiðinni en í fangið á vesturleiðnni. Það stytti upp fljótlega svo það var bara fínt að hlaupa. Við náðum 50 km þegar upp var staðið með smá slaufum í restina til að ná settu marki. Tíminn var upp á prik og punkt 5 klst þegar heim var komið með öllum stoppum. Aðeins örlaði á þreytu en ekkert sem orð var á gerandi. Það er alveg nauðsynlegt að fara svona langa túra og hlaupa í a.m.k. 5 - 6 klst þegar langt er framundan. Við planerum álíka túr á næsta laugardag.

Fór í eftirmiðdaginn að horfa á Víkingsstrákana spila við Fram í úrslitariðli íslandsmótsins. Fyrr um morguninn höfðu þeir unnið Haukana sem eru ekki árennilegir með fjóra menn yfir 1.90 (sextán ára gamlir). Leikurinn við Fram var aldrei alveg öruggur en þó höfðu Víkingarnir undirtökin mestan partinn og unnu þegar upp var staðið með 4 mörkum. Þetta var úrslitaleikum um hvort liðið léki við FH um íslandsmeistaratitilinn en þeir unnu hinn riðilinn. Sá leikur verður á morgun kl. 11.00 uppi í Mosfellsbæ.

Fór til Ingu systur undir kvöldið. Hún var fimmtug í gær og bauð stórfjölskyldunni heim. Áttum gott kvöld við spjall um heima og geyma og upprifjan á gömlum og góðum minningum eins og tilheyrir við slík tímamót.

Engin ummæli: