mánudagur, apríl 18, 2005

Tók Esjugöngu eftir vinnu í dag. Var kominn tímanlega heim og dreif mig uppeftir fyrir kvöldmat. Fór tvo túra upp og niður á réttum tveimur tímum. Fór þó bara upp að efsta læknum á eystri leiðinni í seinna skiptið áður en maður fer að pjakka upp grjótið. Fín æfing og fann ekkert fyrir þreytu í fótunum þrátt fyrir langa æfingu í gær. Ég er farinn að stækka skammtinn af Leppin recoveryduftinu og nota nú 5 - 6 skeiðar í hálfan líter af mjólk. Búin að vera mjög góð brekkuæfingarhelgi. Einna mesta vandamálið í sumar getur verið að hafa nægt pláss fyrir tærnar svo þær pressist ekki fram í skóna á löngum hlaupum niður brekkur og verði allar út í blöðrum. Eystri leiðin á Esjunni er prýðileg leið að æfa fyrir svona upp og niðurtúra. Maður sér það best þegar slóðinn er kominn undan snjó að það er hægt að skokka hann að mestu hindrunarlaust niður. Þannig fær maður bestu æfinguna á vöðvana framan á fótunum.

Fékk bréf frá Greg skipulagsstjóra WS 100 í dag. Hann var að gefa góð ráð fyrir sumarið en mesta áherslu lagði hann á mikilvægi brekkuhlaupa og að þeim yrði að sinna vel það sem eftir væri af æfingatímanum.

Fór upp í útvarp í eftirmiðdaginn og spjallaði í dægurmálaútvarpinu um málefni blaðbera í framhaldi af grein sem birtist í Mbl í morgun. Það var mikið að þeir veittu þessu einhverja athygli.

Sá tíma Bostonfara í kvöld. Það hljóta að hafa verið heldur erfiðar aðstæður miðað við tímana en vafalaust hefur verið stórkostlega gaman að taka þátt í hlaupinu. Vonandi rennur sú stund upp síðar.

Engin ummæli: