föstudagur, apríl 15, 2005

Frídagur í dag og ekkert hlaupið. Það er ágætt að fá einn frídagi í viku og nauðsynlegt að hlaða fyri rnæstu viku. Mér líst ekkert á veðrið á morgun, það er spáð bæði roki og rigningu. Það er allt í lagi að hlaupa í roki en verra ef það er ausandi rigning með. Kannski verður lendingin að taka hringi í Elliðaárdalnum, nokkuð marga. Við Halldór ákváðum að gefa hvor öðrum frí á morgun þannig að við værum ekki að hindra hvorn annan fyrst svona stendur á.

Ég hef undanfarna daga kíkt í sænsku blöðin eins og svo oft áður. Þar hefur verið töluverð umræða um að fólk sem er skilgreint "útbrunnið" fari á örorkubætur eða sjúkradagpeninga og þurfi ekki að vinna þaðan í frá. Prófessor í Gavle hélt því fram að flest þessara tilfella væru tóm vitleysa og ættu ekkert skylt við sjúkdóm eða veikindi. Aðrir risu upp og mótmæltu meðmörgum rökum og gáfulegum. Blaðamaður á Aftonblaðinu (ca 25 ára gamall) ákvað að láta reyna á málið og fór til læknis og var hjá honum í 43 mínútur, þar af var læknirinn 12 mínútur í kaffi. Blaðamaðúrinn lýsti því hve hann væri útbrunninn í starfi, stressaður í vinnunni, ætti erfitt með að einbeita sér og gæti ekki sofið. Eftir 43 mínútur stóð hann úti á stéttinni með vottorð upp á að hann gæti ekki sinnt vinnu sinni og ætti að fara á sjúkradagpeninga. Það er orðið verulegt þjóðfélagslegt mein í Svíþjóð hve margir af þeim sem eru á venjulegum vinnualdri eru hættir að vinna og lifa á bótum frá því opinbera. Enda eru skattarnir með því hæsta sem gerist þarlendis.

Það hefur staðið upp úr mörgum á undanförnum dögum að það eigi að senda almenningi bréf í símanum heim til almennings í pósti. Ég er alfarið á móti þessari aðferðafræði og skal reyna að rökstyðja þá skoðun mína. Í fyrsta lagi er að mínu mati alls ekki samasem merki milli þess að ríkið eigi fyrirtæki sem auki almannagæði og að ég eigi prívat og persónulega hlut í fyrirtækinu. Síðan má velta því fyrir sér hvað með þá sem deyja daginn áður en bréin yrðu póstlögð eða þá sem fæðast daginn eftir póstlagningu. Ef almenningur myndi fá bréfin send heim þá yrði bréfunum ráðstafað á eftirfarandi hátt (að öllum líkindum): Einhver hluti myndi glata sínum bréfum. Þetta þekki ég af fyrri reynslu af því að senda verðmæti til fólks. Hluti myndi vilja halda sínum bréfum í þeirri von að þau myndu hækka og einhver hluti myndi selja bréfin. Fjárfestar mydnu því eignast símann fyrir mun lægri upphæð en ef þeir hefðu keypt hann af ríkinu. Að lokum er rétt að skoða hver er staða ríkisins. Ríkið gæti fengið ca 40 milljarða fyrir símann. Ef bréfin yrðu send almenningi fegni ríkið ekkert. Ef ríkið hefði fyrirhugað að leggja það fjármagn sem það myndi fá fyrir símann í vegaframkvæmdir, hvernig ætti þá að fjármagna þær ef ekkert fengist fyrir símann. Það yrði tekið lán og hvernig yrði lánið borgað, jú, með skattpeningum almennings. Ergo, ef hlutabréf símans yrðu send almenningi væri það ávísun á skattahækkun (eða að skattar myndu lækka seinna en ella). Það má í því sambandi minna á að það er einungis hluti landsmanna sem greiðir tekjuskatta og sá hluti fer minnkandi. Það er því að mínu mati tóm vitleysa og hreinn popúlismi að halda því fram það sé besta og réttlátasta aðferðin að senda landsmönnum bréfin í ríkisfyrirtækjum.

Vigdís Finnbogadóttir forseti á afmæli í dag og er 75 ára. Ég óska henni til hamingju með daginn. Hún kom norður til okkar á Raufarhöfn fyrir tæpum 10 árum þegar haldið var upp á 50 ára afmæli þorpsins og lagði sitt af mörkum að gera daginn ógleymanlegan í huga heimamanna.

1 ummæli:

Gunnlaugur Júlíusson sagði...

Ég verð nú að segja að ég skil þetta ekki alveg. Framsókn eða ekki Framsókn, ég hef bara ekki heyrt eitt einasta orð um að fyrirtæki sem menn geta tengt flokksböndum við þann flokk séu á höttunum eftir Símanum nema innantómar spökulasjónir frá blaðamönnum sem virðast vera með Framsóknarfóbíu. "Marga grunarað ekki séu allir ráðmenn með hreint mjöl í pokahorninu" Hvaða innlegg er það er það í umræðuna? Af hverju talarðu bara ekki hreint út í stað þess að vera með dylgjur og hálfkveðnar vísur? Þetta er svona svipað og útvarpsumræðan, þar át hver ruglið upp eftir öðrum án þess að nokkur gæti sýnt fram á eða sannað eitt eða neitt orðum sínum til stuðning. Leigubílstjóratilvitnunin var líklega það sem næst var komist að hægt væri að festa hönd á einhverju. Það bara grunaði marga.....Ég sagði að eignir ríkisins séu ekki persónuleg eign hvers og eins einstaklings í samfélaginu heldur almannagæði og ég stend við það. Við höfum ákveðið kerfi í landinu til að fara með stjórn á eigum og starfsemi ríkisins og það er fulltrúalýðræði. Þjóðin fær þá stjórnmálamenn sem hún á skilið, það er eðli lýðræðisins. Menn eru hinsvega misjafnlega ánægðír með þá og það er líka eðlilegt. Það er nú bara svona. Ég er ekki talsmaður forgangsröðunar Héðinsfjarðaganga og nefndi þau ekki einu orði sem skynsamlega ráðstöfun almannafjár. Ég gæti hins vegar talið upp fyrir þér margar fjárfestingar í samgöngumálum sem ég myndi setja fyrr í forgangsröðinni en þau sem myndu auka almannagæði verulega (eða ertu kannski á móti fjárfestingum í samgöngumálum). Ef þú vilt senda hlutabréf símans beint til einstaklinganna í stað þess að ríkið ráðstafi fjármununum, viltu þá ekki bara að það sé hætt við að innheimta skatta og hver einstaklingur borgi bara fyrir sig það sem hann þarf. Þá ættirðu að vera öruggur um að það sé ekki farið óskynsamlega með peningana þína. Ég vil hins vegar taka það fram að það er mín skoðun að umsvif hins opinbera eiga ekki að vera meiri en nauðsynlegt er. Hvað er mikið eða lítið í þeim efnum eru vafalaust mismunandi skoðanir á.