laugardagur, apríl 02, 2005

Hljóp ekki 1. apríl, hvorki í eiginlegri merkingu eða óeiginlegri. Er að jafna mig í hnénu. Ég fékk svokallað parketthné sem maður fær við að leggja parkett. Maður virðist togna rétt fyrir ofan hnéskelina við að liggja mikið á hjánum og rykkja sér á fætur. Þetta er að batna en ég finn samt fyrir því við að ganga upp og niður stiga.

Umtalaður Auðun hætti við að hefja störf í Efstaleytinu. Vitaskuld. Hvernig gat honum yfir höfuð dottið í hug að fara inn í þessa ljónagryfju eftir allt sem á undan var gengið? Nú er útvarpsráði og Markúsi vandi á höndum. Í einkafyrirtæki væri hreinsað út. Jafnvel hjá opinberum stofnunum. Mér er sem ég sæi ef svona ástand kæmi upp á mínum vinnustað. Ef ráða ætti framkvæmdastjóra og starfsmenn vildu fá einn úr eigin hópi (kannski til að geta verið vissir um að geta haldið áfram með siði og venjur sem hafa viðgengist lengi) en annar væri ráðinn. Þá myndu starfsmenn bindast samtökum um að leggja viðkomandi í einelti og gera honum allt til bölvunar sem frekast mætti. Stofnunun værfi óstarfhæf og ekkert að gera annað en að hreinsa út, hvort sem nýráðinn framkvæmdastjóri væri hæfur eða ekki. Það myndi bara koma í ljós.

Ég er á þeirri skoðun að það þurfi að taka til í Efstaleitinu á ýmsan hátt. Þar virðist t.d. viðgangast sjálfhverf umræða sem gerir fréttamat afar einkennilegt á stundum. Það þarf enga snillinga að lesa upp fréttir af því hvort páfinn sé lífs eða liðinn en þegar frétta- og dagskrárgerðarmenn meta hvað er fréttnæmt er margt skrítið á ferðinni. Mér kemur t.d. í hug þetta feministaofstæki sem virðist ríða húsum í RÚV. Bendi á "frétt" sem var flutt þann 31. mars t.d. Eitthvað framsóknarfélag í RvkN ætlaði að halda kallakvöld og nokkrar konur ætluðu að ganga um beina. Þetta þótti fréttamanni RÚV gríðarleg niðurlæging fyrir konur og tók eitt það vitlausasta viðtal sem ég hef heyrt lengi við Kristinn H. Gunnarsson sem fjasaði um að svona gerðu menn ekki í nútíma samfélagi o.s.frv. o.s.frv. Það var nú ekki eins og það hafi átt að bjóða konurnar upp og selja þær hæstbjóðanda. Ég var á kallakvöldi hjá Víking í gærkvöldi. Fínt kvöld með Gísla frá Lundi og Jóa frá Brekku sem góða skemmtikrafta. Þeir eru hvor um sig betur þekkuir undir fullu nafni og starfsheiti en þessi verða að nægja. Þar tóku konur af borðunum og unnu á barnum. Þegar konurnar í klúbbnum hafa sitt konukvöld þá þjóna kallarnir til borðs og vinna á barnum. Allir ánægðir með að hjálpast að á víxl við að skemmta sér. Þessa verkaskiptingu meta einhverjir fréttamenn hjá RÚV sem niðurlægingu fyrir konur og fabúlera um þetta í fréttatímum. Er nema von að maður sé hugsi yfir að vera píndur til að borga þessu liði kaup.

Annað dæmi. Í fyrra skrifaði einhver feministinn til grein í Moggann um afar óhuggulega upplifun sem hún hafði orðið fyrir. Hún hafði lagt sig með útvarpið á. Þegar hún vaknaði fór hún að hlusta á textann í svefnrofunum. Einhver rappari var að flytja lag og í laginu komu fyrir orðin "motherfucker" og "bitch". Mér finnast rapplög leiðinleg og hlusta ekki á þau og því pirra textarnir mig ekki. En það er annað mál. Þessi upplifun þarna í svefnrofunum varð til þess að stúlkan skrifaði grein í Moggann um þessa hræðilegu lífsreynslu sína. So far so good. En daginn eftir er hún kölluð upp í RÚV í dægurmálaútvarpið og þar var fabúlerað heillengi fram og aftur um orðaval rappara út frá feminisku sjónarhorni og hvað þetta hefði verið hræðileg lífsreynsla og ég veit ekki hvað. Maður á eiginlega ekki orð yfir svona löguðu. Fyrir hvað er maður að borga?

Staðan nú er sú eftir 1. apríl að dagskrárgerðar- og fréttamenn RÚV eru sem stendur algerlega sjálfráða í störfum sínum. Þeir hafa í raun rænt RÚV. Þeir geta fellt niður fréttatíma ef þeim sýnist svo án viðurlaga. Þeir geta afflutt staðreyndir með hálfsannleika með því að taka bara viðtöl við þá sem eru sammála þeim s.b.r. viðtölin við Jónatan Þórmundsson og manninn að norðan, Inga eða hvað hann heitir. Þeir geta lagt ákveðna einstaklinga í einelti. Þeir geta notað opinbera stofnun (útvarpið) til að berjast fyrir sínum persónulegu skoðunum. Hvar myndi þetta líðast annarsstaðar? Hvað kemur næst? Það verður spennandi að sjá.

P.S. Ef einhver skyldi lesa þetta þá vil ég taka fram að ég hef aldrei séð nefndan Auðun og vissi ekki að hann væri til þar til fyrir skömmu, hann er ekki skyldur mér eða tengdur, það ég veit erum við ekki í neinu félagi saman, hvorki Framsókn, Víkingi, UMFR36, Félagi 100K eða neinu öðru. Ég er einfaldlega að tala um princip.

1 ummæli:

Gunnlaugur Júlíusson sagði...

Takk lesandi. Gaman að fá viðbrögð. Vitaskuld hafa menn sínar skoðanir á hlutunum og sem betur fer eru ekki allir sammála. Ég hefði stutt fréttamennina heilshugar ef þeir hefðu verið að berjast fyrir því að losna við óhæfan fréttastjóra samkvæmt fenginni reynslu, en hann fékk aldrei sjéns. Það er málið. Meðan eithvað kerfi er við lýði þá verður að vinna eftir því. Annars á að vinna að því breyta kerfinu. Að lokum. Ég gleymdi að skammast út í það þegar borin var inn á þriðja bannfæringarfundinn gróusögur einhvers leigubílstjóra. Maður velti fyrir sér hvort engin takmörk væru fyrir því hve langt væri hægt að seilast. Mér fannst þetta vægt sagt vera ómerkilegur málflutningur og vera í takt við margt annað.