mánudagur, júlí 11, 2005

Fór út að skokka um helgina sem er svo sem ekki í frásögur færandi. Var svona að testa hvernig staðan væri og allt var í fínu lagi. Tók léttan rúnt út í Nauthólsvík á laugardaginn og fór síðan niður í Laugardal á sunnudagsmorguninn og hitti félagana í Vinum Gullu. Þar eru uppi mikil áform um að fara í Berlínarmaraþon í haust og ætlar stór flokkur góðra hlaupara að taka þátt í því í ásamt ca 40.000 til viðbótar. Það verður vafalaust mikil upplifun að hlaupa innan um allan þann fjölda.

Ég er að velta fyrir mér Laugaveginum, mig langar til að fara hann í frekar afslöppuðum gír. Veðurspáin er góð þannig að það ætti að vera gaman að rúlla hann í góðum félagsskap. Kemur í ljós, ég þarf að fara einu sinni á Esjuna til að sjá hvort orkubúskapurinn sé ekki í lagi.

Ég er búinn að sjá að líklega hefur maður verið að hlaupa í of litlum skóm hingað til. Þegar maður hefur verið að merja á sér neglur í venjulegum götuhlaupum er því eingöngu um að kenna að skórnir eru of litlir. Ég hef oft hlaupið í nr. 11 en héðan í frá ætla ég ekki að nota minna en 11.5 eða 12. Það munar miklu að hafa vel rúmt um tærnar.

Nú er eitt helsta klisjuorðið að hitt og þetta sé karllægt. Það er ekki góður dómur í munni margra. Einn af sjálfskipuðum stefnumótendum í þessu efni skrifaði t.d. um daginn í Moggann að stjórnarskráin væri karllæg. Það þýðir að hún sé varla nothæf. Orðið drengskaparheiti er til dæmis ekki gott orð þar sem það er karlægt og kent við dreng sem er karlkyns orð. Hvað yrði sagt ef einhverjir karlar færu að skrifa um að hitt eða þetta sé kerlingarlægt (eða kerlingarlegt)? Ætli að yrði ekki rekið upp ramakvein á Femin.is? Það er svo sem hægt að nota orðið stúlkuskaparheiti í sama tilgangi og drengskaparheiti. Sama er mér ef þessu liði myndi líða betur.

Umræða sama efnis hefur átt sér stað um dóm í morðmáli sem féll nýlega og þótti karllægur. Ég ætla ekki að blanda mér í þá umræðu en vildi bara minna á að ég hef lesið umfjöllun marga dóma í norrænum blöðum þar sem sakborningi hefur verið metið til málsbóta við uppkvaðningu dóms að hafa sætt harðræði eða ofbeldi (líkamlegu eða andlegu) af hálfu fórnarlambsins. Oft hafa sakborningar í þeim málum verið konur. Aldrei hefur verið minnst á að dómur hafi verið metinn kvenlægur í slíkum tilfellum. Spurningin snýst fyrst og fremst um túlkun dómsins á réttlæti. Hvert er hið endanlega réttlæti er alltaf afstætt en dómstólar eru hinn formlegi aðili til að fá niðurstöðu þar um.

Var að skoða frásögn á www.utivera.is af undirbúningi þeirra Pétranna, Trausta og Erlendar sem eru að fara til Grænlands og taka þátt í nokkura daga útivistarmaraþoni (hlaup, kajak, klifur, hjólreiðar og ég veit ekki hvað). Þetta verður mögnuð upplifun hjá þeim og spennandi að fylgjast með hvernig þeim félögum gengur. Ef ekkert óvænt kemur upp á (óhöpp, meiðsli, veikindi) er ég ekki í vafa um að þeir munu að standa sig með sóma. Það getur hins vegar margt komið upp á á langri leið.

Engin ummæli: