fimmtudagur, júlí 21, 2005

Veðrið í gær var með eindæmum. Ég held jafnvel að maður njóti svona góðs veðurs betur hér heima heldur en erlendis vegna þess hve góð tilbreyting það er hér norður við heimskautsbaug. Það er með góða veðrið eins og jólin. Ef það væru jól á hverjum degi held ég að maður væri orðinn ansi leiður á þeim um páska og jafnvel fyrr. Það er fínt að vera í rólegheitum heima við og dunda við að klára eitt og annað sem hefur dregist.

Sá ti leiðinda á vefnum í morgun að eithvað hafði gerst hjá þeim Grænlandsförum þannig að einn hafði helst úr lestinni og hópurinn þannig verið dæmdur úr leik. Synd. Það getur hins vegar margt gerst á langri leið. Þegar fæturnir eru orðnir stirðir eftir margra daga erfiði þarf ekki nema að reka tána einu sinni og detta og allt er búið. Þetta hefur á hinn bóginn vafalaust verið mikil upplifun hjá þeim og verður gaman að fá ferðasöguna og sjá myndir.

''Pink ladies'' Bibba!! Án þess að ég vilji skipta mér af svona grundvallaratriðum í framtíðaráformum þínum þá verð ég að koma því á framfæri að ''Iron ladies'' ,''Mountain ladies'' eða ''Ladies for a Victory'' hljómar betur í mínum eyrum. Láttu þetta bleika vera þar sem það á heima, í kjaftaklúbbum á 101. En aðalatriðið er þó að vera og gera.

María keppti á Reykjavíkurmóti unglinga í frjálsum íþróttum í gær og verður mótinu framhaldið í dag. Hún stóð sig vel sem fyrr og vann tvö silfur og tvö gull. Sá gamli var betri en enginn. Mér þótti tímatakan (handtaka) vera svolítið óörugg þannig að ég tók til öryggis myndir af úrslitahlaupinu í 60 metrum á nýju vélina sem ég keypti í USA. Það kom sér heldur betur því tímamælingamenn höfðu röðina ekki rétta í markinu og var myndin þvi það gagn sem gerði það verkum að hver keppandi fékk þau verðlaun sem hann hafði unnið til.

Talandi um innkaup í USA. Ég keypti fartölvu fyrir Svein þar vestra eins og við höfðum lofað honum. HP tölva með öllu, breiðum skjá, 80 GB diski, 512 KB vinnsluminni og tveggja milljóna örgjörva. Sem sagt ágæt. Hún kostaði 1250 USD og þar af fæ ég 200 USD endurgreidda. Sem sagt hún kostaði um 70.000 kall. Svona tölva kostar hér samkvæmt verðlistum um 180 - 190 þusund kall. VSK er 8% í Kaliforníu en 24,5% hér. OK. Það skýrir eitthvað. Ef maður setur 100% toll á grunnverð þá minnkar bilið en sama er. Álagningin hérna er alveg svakaleg. Það liggur við að verðmunurinn á tölvunni hafi borgað flugfarið og hótelgistinguna þar vestra. Það er ekki spurning að ef einhevrn vantar fartölvu þá margborgar sig að fljúga til Boston eða á einhvern annan stað á austurströndinni í helgarfrí og láta mismuninn borga fríið og gott betur.

Engin ummæli: