fimmtudagur, júlí 28, 2005

Keyrði vestur á Rauðasand á mánudagsmorgun. Það birti eftir því sem vestar dró og frá Bjarkarlundi var heiðríkja, hiti og dæmafátt veður. Það hélst svo óslitið þessa tvo sólarhringa sem ég var fyrir vestan. Ég fór einn og var tilgangurinn að keyra sandi inn í grunninn á húsinu heima en endurreisnartímabilið hófst í vor. Nú á allt að vera tilbúið undir að skella gólfinu í húsið seinna í sumar. verkið gekk vel og betur en ég bjóst við. Ýmsar framkvæmdir hafa staðið yfir að undanförnu í þessari litlu sveit og er Kjartan Gunnarsson þar betri en enginn. Hann er búinn að endurbyggja litla húsið í Kirkjuhvammi og þar hefur verið rekin veitingastofa í sumar. Þá stuttu stund sem ég stoppaði þar var drjúgur gestagangur og greinilegt að fólki líkar vel að geta sest inn og fengið sér kaffitár og köku þegar það er að ferðast um. Hér á árum áður var drukkið úr mörgum kaffibolla í Kirkjuhvammi hjá Jónu heitinni langömmusystur minni og má segja að sagan endurtaki sig þarna þótt í öðru formi sé. Búið er að hlaða gríðarmikinn og flottan steingarð í kringum kirkjuna í Saurbæ sem setur mikinn svip á staðinn. Ekki er saman að jafna hve yfirbragð Sandsins verður annað og betra við þessar framkvæmdir þegar hrörnunandi mannvirki víkja og endurfæðast og þau fara að hæfa landslaginu sem lætur engan ósnortinn. Ég hitti ferðafólk á förnum vegi sem var að koma niður á Sandinn í fyrsta sinn og sagðist varla geta slitið sig burtu. Þetta setur í mann aukinn kraft í að koma húsinu heima í almennlegt horf fyrr en síðar.

Hitti Ásdísi Thoroddsen safnvörð á Minjasafni Egils á Hnjóti. Hún er ásamt fleirum að vinna í að merkja gömlu gönguleiðirnar um Rauðasandshreppinn til hægðarauka og öryggis fyrir ferðafólk. Ég þekki það vel hve vel merktar leiðir laða göngufólk að því ókunnum svæðum. Þetta er mikið framfaraskref fyrir svæðið og ferðaþjónustu á því. Leiðinlegt var þó að heyra að einhverjir landeigendur þar vestra eru hafa ekki áhuga á að láta reka stikur niður á gömlum gönguleiðum í sínu eignarlandi, jafnvel þótt uppi á fjöllum sé. Óskiljanlegur hugsunarháttur.

Keyrði suður í gær og var kominn í Borgarnes vel fyrir kl. sex. Þar hitti ég fulla rútu að glaðbeittum Berserkjum sem voru að fara á fótboltaleik vestur í Ólafsvík. Ég slóst í för með þeim og sá ekki eftir því. Þetta var fín ferð, góð stemming í hópnum með gamla faxa í annarri hendi. Vallaraðstæður voru fínar í Ólafsvík, gott veður og flottur völlur. Berserkirnir héldu uppi dúndrandi stemminu allann leikinn með jákvæðu og skemmtilegu yfirbragði og fylltu strákana í Víkingi R. á vellinum slíkum krafti að þeir unnu nafna sína 4-0. Framkoma hópsins var til mikillar fyrirmyndar, allt rusl hreinsað upp að leik loknum og leimenn síðan hylltir hver og einn þegar þeir komu út. Einhverjir ólsarar voru svolítið stressaðir yfir þessari heimsókn en kannski voru það bara úrslitin sem sátu í þeim.

Kom heim að ganga tvö í nótt eftir góða ferð.

Ég fylgdist ekki mikið með fréttum í þessari ferð. Þó heyrði ég af ólátum og skemmdarverkum við Kárahnjúka. Mér finnst að það eigi að taka með tveimur hrútshornum á slíkum hópum þegar þau fara með skemmdarverkum og vitleysisgangi. þarna eru á ferðinni atvinnumótmælendur sem skilja ekkert nema alvöruna. Meðan þau lesa upp kvæði og kyrja út í loftið skiptir nærvera þeirra ekki máli en þegar einstaklingar eru farnir að stöðva vinnu og skemma tæki, hvað er þá verið að biðja um? Halda þau virkilega að menn hætti bara við framkvæmdir og segi að þetta hafi verið einn stór misskilningur? Svona atvinnumótmælendur minna mig á breskar fótboltabullur sem fara á leiki til að slást en ekki til að horfa á fótboltann. Mæli með myndinni Football Factory til að skerpa skilninginn á þessu.

Eitt verð ég að minnast á að lokum. Hlustaði á einhverja úr feminstafélaginu á leiðinni suður í gær. Þeir voru að tala um nauðsyn þess að berjast gegn nauðgunum um verslunarmannahelgina. Gott og vel. Það er gott og verðugt markmið en málflutningur þessa liðs. Það var talað um að það þyrfti að breyta karlamenningunni og hætta nauðgunum. Ég bara spyr; Er það einhver menning meðal karla að nauðga konum? Það hafa hins vegar alltaf verið til glæpamenn og þeir verða alltaf til. Það gildir sama með nauðgara, þjófa og aðra enn verri. Það þýðir þó ekki að það sé einhver menning að stela eða drepa. Minnst var á að karlmenn þyrfti að breyta um lífssýn í þessu efni og svo framvegis. (Ég held að ég fari með rétt mál). Þá var ég hættur að skilja. Innbrot eru algeng um verslunarmannahelgina þegar fólk er gjarna á ferðalögum. Oftast eru það karlar sem brjótast inn. Á að fara að dreifa frisbydiskum til karla fyrir verslunarmannahelgina þar sem á stendur: "Við brjótumst ekki inn". Ættu karlar að fara að tala sín á milli um t.d. "Nei við skulum ekki brjótast inn þessa helgi heldur fara í Galtalæk í staðinn!!" Svo var klykkt út með að karlar ættu ekki að fara í vörn gagnvart þessari umræðu. Ég veit ekki hvort ég fer í vörn en ég er ósammála þessari frisbydiskaaðferðafræði. Þetta minnir mig á herferðina "Ísland án eiturlyfja árið 2000". Allir vita hvernig staðan í þeim málum er í dag.

Mér finnst blaða- og fréttamenn, þar með taldir kvenkyns fréttamenn, hafa miklu hlutverki að gegna í þessu sambandi. Það er eðlilega forsíðufrétt ef einhver er drepinn en frá nauðgunum er sagt eins og viðkomandi hafi ælt í skóinn sinn. "Helgin var frekar friðsæl, fimm voru teknir fyrir meinta ölvun við akstur og ein nauðgun var kærð. Annars allt rólegt" Svona er fréttaflutningurinn. Hvaða skilaboð eru þetta? Það skilur hver fyrir sig en þetta segir mér ákveðna afstöðu fjölmiðlafólks. Þetta er ekkert stórmál að þeirra mati. Fyrir alla muni hættið þessu frisby kjaftæði og talið íslensku, fjallið um nauðganir eins og alvöru glæpi og hættið að flokka þær í kjaftshöggadeildina.

Engin ummæli: