föstudagur, febrúar 17, 2006

Á aðalfundi UMFR36 var tekin létt upphitun um stund áður en formleg fundarstörf hófust eins og sæmir reyndum hlaupurum. Upphitunin fólst í að segja skemmtisögur. Einhverra hluta vegna áttu margar þeirra uppruna sinn í Reykjafjarðarhreppi hinum forna í Inndjúpi. Ástæða þess gæti verið sú að ritari félagsins er uppalinn í þeim ágæta hreppi. Svo var að sóknarpresturinn Baldur í Vatnsfirði kom fyrir í mörgum þeim sögum sem sagðar voru. Flestar þeirra sagna sem sagðar voru sem eru best geymdar í mæltu máli en eina er þó hægt að festa á blað. Jörundur stórsócialisti sagðist einu sinni hafa verið á ferð um Djúpið með tveimur vinum sínum og stórvinum séra Baldurs. Töldu þeir allir þrír sig eiga pólitískt sálufélag við Vatnsfjarðarklerk og fannst upplagt að heimsækja hann í þessari ferð sinni þar vestra. Ekki skemmdi fyrir að þeir höfðu haft af því pata að messað skyldi í Vatnsfirði þennan sama dag og hugðust því slá tvær flugur í einu höggi, njóta blessunar prests við messuhald og herða upp á pólitískum burðarskrúfum í kirkjukaffi á eftir. Þegar þeir komu heim að Vatnsfirði á þeim tíma sem messa skyldi vera að hefjast þótti þeim heldur skrítið að engin mannaferð var sýnileg á staðnum, engir bílar kirkjugesta við kirkjuvegg né nokkuð annað sem minnti á messuhald. Þeir gengu heim að húsi prests og knúðu dyra. Lengi vel svaraði enginn en eftir endurtekið bank opnaðist gluggi á efri hæð hússins og prestur stakk út höfði sínu og spurði ómjúkum rómi hverju hark þetta sætti við aðaldyr húss síns. Þeir litu upp, köstuðu kunningjakveðju á klerk og spurðu hvort ekki væri fyrirhuguð messugjörð í Vatnsfirði þennan dag. "Nei", urraði prestur, "það var messufall", skellti síðan aftur glugganum og lét ekki sjá sig meir.

Fuglaflensuumræðan heltekur alla fréttatíma. maður veit ekki sitt rjúkandi ráð í þessu. Menn í geimferðabúningum eru að tína saman dauða svani og her fréttamanna og ljósmyndara fylgist með hverjum og einum. Er Svarti Dauði á leiðinni? Svo mætti halda. Spurningin er sú hvort það verði 50 milljónir eða 100 milljónir sem farast samkvæmt fréttum. Það er voðalega erfitt að höndla þessa umræðu. Síðan les maður frétt í dönsku blöðunum í morgun þar sem Steffen Giismann frá Statens Serum Institut segir að sjúkdómurinn sé fyrst og fremst áhugaverður fyrir sérfræðinga í fuglasjúkdómum og alifuglabændur sem geta orðið fyrir skaða ef hann berst í búin. Hann segir að þegar kemur slæm flensa til Danmerkur annað eða þriðja hvert ár þá deyja 1000 til 2000 manns úr henni. Sérstaklega er það eldra fólk sem er veilt fyrir slæmri flesnu. Í því ljósi eigum við að líta á hættuna að fuglaflensunni segir Steffen. Hann segir að venjuleg flensa sé hættulegri en fuglaflensa. Hún sé ekki hættuleg venjulegu fólki. Smit getur verið mun algengara í fuglum en menn vita og dánartíðnin því verið mjög lítil. Steffen segir að það séu margir hlutir sem séu hættulegri fyrir venjulegan Dana en fuglaflensan. Það er hættulegra að ganga yfir götu. Það er meiri hætta að stunda kynlíf án varna með ókunnugum vegna kynsjúkdómahættu og hættu á HIV smiti. Undir þetta tekur Peter Skinh¢j, yfirmaður farsóttardeildar á Ríkisspítalanum í Danmörku. Það er einungis við mjög sérstakar aðstæður sem fólk hefur smitast af fuglaflensu. Hann tekur sem dæmi að maður þurfi allt að því að nudda sig allan með dauðri önd til að eiga á hættu að smitast. Minna má á að börnin í Tyrklandi sem létust af fuglaflensu höfðu notað hausa af dauðum fuglum sem leikföng. Ég veit ekki til að slík leikföng séu mjög algeng hér um slóðir.
Fuglaflensa hefur verið þekkt síðan um 1880 og hefur verið greind í 15 stofnum. Þessi sem hefur verið nefnd H5N1 er sú eina sem getur verið mönnum hættuleg.

Dreinfing hf fyrirhugar að ráða 10 pólverja í útburð blaða samkvæmt fréttum. Gaman væri að vita á hvaða kjörum þeir eru ráðnir. Með tilvísun í hvaða kjarasamning verður starfssamningur gerður við þá. Í þau rúmu þrjú ár sem ég hef fylgst með málefnum blaðbera hafa forstandsmenn Dreifingar Fréttablaðsins ekki getað nógsamlega lýst yfir vilja sínum til að ganga frá formlegum kjarasamning um störf blaðbera. Viðræður þeirra við VR hafa staðið yfir á annað ár. Einhverra hluta vegna hefur ekkert gerst. Ég er hræddur um að ef um væri að ræða starfsmenn við Kárahnjúka eða starfsmenn einhverrar starfsmannaleigunnar þá hefðu aðgerðir hafist fyrir margt löngu að hálfu til þess bærra aðila.

Það var hlaupið í gærkvöldi. Það var ekki eins kalt og ég hélt og ekki heldur eins hvasst. Fínt kvöld.

Engin ummæli: