föstudagur, febrúar 10, 2006

Fór hverfishringinn í gærkvöldi. Milt og gott veður en aðeins hálka vegna þess að frysti með jörðinni.

Ég hef sett inn undanfarna daga nokkrar myndir frá því að ég var á sjó fyrir vestan fyrir rúmum aldarfjórðungi. Tíminn líður giska hratt. Sölutúriunn til Grimsby var mín síðasta sjóferð. Um haustið fór ég í skóla til Svíþjóðar og rest is history. Það er gaman að rifja upp þessa daga en ekki eins ánægjulegt að rifja upp ýmislegt sem hefur breyst á þeim árum sem liðin eru. Árið 1980 voru 12 stórir vertíðarbátar á Ratró og einn togari. Nú eru líklega um 4 stórir bátar þar, nokkrir hraðfiskibátar en enginn togari. Á þessum árum bjuggu nær 1100 manns á Patró en nú búa þar um 700 manns. Í Vesturbyggð búa nú um 1000 manns og fækkunin frá þeim tíma sem ég var að rifja upp með þessum gömlu myndum er eins og Bíldudalur, Rauðasandshreppurinn og Barðaströndin hafi öll tæmst.

Ég hef verið að skoða undanfarið þróun mismunandi aldurshópa í svetiarfélögum landsins á á árunum 1995 - 2005. Í þeim sveitarfélögum þar sem íbúum hefur fækkað er það nær undantekningarlaust að ungafólkinu, börnum á leikskólaaldri og grunnskólaaldri hefur fækkað hlutfallslega mun meir en sem nemur fólksfækkun í samfélaginu. Í sumum þokkalega stórum sveitarfélögum er einungis rúmur helmingur barna á grunnskólaaldri nú miðað við þann fjölda sem var í þeim árið 1995. Tíu ár er ekki langur tími. Maður getur ekki annað en velt fyrir sér hvernig staðan verður eftir næstu tíu ár. Sumir spá því að við höfum gengið í Evrópusambandið innan níu ára. Ég deili ekki þeim spádómum.

Á hinn bóginn spái ég því að þróunin verði þannig í sumum héröðum landsins að fólksfækkunin verði orðin það mikil í einhverjum sveitarfélögum eða sveitarfélagahlutum að óbreytttu að málum þar verði ekki bjargað. Það spyrja vafalaust einhverjir, skiptir það einhverju máli? Fóru ekki Hornstrandir í eyði, Flatey á Breiðafirði og aðrar breiðfirskar eyjar, Flatey á Skjálfanda, Fjörður, vestasti hluti Austur Barð, Sléttan að miklu leyti, Djúpið orðið afar fámennt og þannnig mætti áfram telja. Þessir staðir eiga það sameiginlegt að hafa verið landfræðilega afskekktir og erfiðir til búsetu. En þróunin stoppar ekki þar að óbreyttu. Við þær gríðarlegu breytingar sem átt hafa sér stað í þjóðfélaginu öllu á undanförnum áratugum og ekki síst í frumframleiðslugreinunum þá lætur eitthvað undan sem áður var talið sterkt. Kröfur íbúanna og viðhorf hafa einnig breyst. Þegar maður vann í frystihúsinu fyrir vestan hér áður þá var það lélegur dagur ef ekki var unnið til kl. 19.00. Það var léleg vika ef ekki var unnið á laugardögum og toppurinn var ef unnið var líka á sunnudögum. Þetta þýddi vart að bjóða venjulegu fólki í dag. Það er hins vegar spurningin hvar á viðspyrnan að vera og hvernig á hún að vera. Áður voru það fyrst og fremst minni sveitarfélögin sem kveinkuðu sér undan tilfærslum á fiskveiðiheimildum. Nú er farið að banka á dyrnar hjá Akureyri og Akranesi. Það liggur vitaskuld fyrir að það er mjög erfitt að innleiða nýja atvinnuhætti hjá samfélögum sem fyrst og fremst hafa byggt tilveru sína á auðlindum hafsins. Dæmin sýna þó að það er ýmislegt hægt. Vestur í Tálknafirði er hafin tilraun með að selja erlendum ferðamönnum aðgengi að kvótanum í gegum sjóstangaveiði. Undirtektir hafa farið fram úr björtustu vonum. Vafalaust er eitt og annað hægt ef frískar hugmyndir eru til staðar, vel er að málum staðið og einhverjir aurar eru til að vinna þróunarvinnu og láta markaðinn vita af sér.

Engin ummæli: