sunnudagur, febrúar 26, 2006

Dagurinn tekinn kl. 8.30 og fyrst farinn Poweratehringurinn. Kom niður í Laugar rétt fyrir kl. 10.00 og hélt svo vestur á Eiðistorg með Gauta og Bigga. Heim var komið eftir 32 km og 2 klst 50 mín hlaup með öllum stoppum, spjöllum og drykkjarstöðvum.

Í gær stoppaði viktin í fyrsta sinn fyrir neðan 85 kg eftir áramót. Um áramótin stóð hún í 90 kg en hefur lækkað jafnt og þétt síðan. Tvö kg fóru í jan og rúm tvö hafa farið í febr. Ég þyngdist töluvert í haust og síðan skildu jólin og áramótin eftir ákveðin skilaboð. Ég ætla að reyna að vera kominn niður í um 80 kg í sumar. Með því að borða aðeins skynsamlegar, draga úr kexáti og auka grænmetisskammtinn þá hefst þetta jafnt og þétt.

María keppti í dag á seinni dag meistaramótsins. Hún fékk engin verðlaun en varð í fjórða sæti í tveimur greinum og fimmta sæti í þeirri þriðju.

Sá viðtal í Silfri Egils við strák sem hafði áhyggjur af afa sínum og ömmu sem fá ekki vistun saman á öldrunarstofnun. Hann sagði að um 200 manns væru á ungan þeim í biðröðinni, þau væri bæði þunglynd og niðurbrotin. Þetta á náttúrulega ekki að vera hægt að láta málefni gamlafólksins sitja svona á hakanum eins og Sólvangsumræðan sýnir þar sem eru allt að fimm manns saman í herbergi. Gamla fólkið liggur á göngum á spítölunum vegna þess að það er ekki pláss fyrir það á til þess gerðum öldrunarstofnunum. Á sama tíma vilja þeir þjóðfélagshópar sem hafa betri aðstöðu til að láta á sér bera og hafa meiri ítök í kerfinu láta skattgreiðendur borga sem mest fyrir sig. Leikskólagjöldin, mat barnanna í grunnskólanum, feðraorlof og lengra fæðingarorlof, ættleiðingar barna erlendis frá, þátttökugjöld barna í íþróttafélög og þannig mætti áfram telja. Það er alveg ljóst að ef að það á að ganga að öllum þessum kröfum þá þýðir það töluverða hækkun á skattprósentu eða þyngri skattbyrði hjá þeim sem greiða skatta til sveitarfélaganna. Það er allt í lagi að leggja þeim hendi sem á því þurfa að halda en mér finnst að þeir sem hafa efni á því að greiða fyrir sig eigi bara að gera það vegna þeirra atriða sem talin eru upp hér að framan. Maður getur séð hvernig þessi mál hafa þróast á norðurlöndunum þar sem kröfur almennings á hið opinbera hafa farið úr böndunum og allri segjast hafa rétt á að ríkið greiði þetta og hitt. Skattprósentan er orðin svo há þar að hún leggst sem lamandi hönd á atvinnulífið. Kröfur á peninga úr vösum skattgreiðenda vaxa sífellt. Fólk hérlendis sem hefur löngun til að ættleiða börn erlendis frá segist t.d. hafa rétt á greiðslum frá ríkinu því verðandi mæður fái mæðraskoðun o.s.frv. Mér þætti gaman að fá kostnaðarmat á hvað hið opinbera leggur í mikinn kostnað í gegnum skoðanir og fæðingarhjálp hjá venjulegri móður sem fæðir barn. Mér finnst að það ætti að láta málefni gamla fólksins hafa ákveðinn forgang áður en farið er að ganga í auknum mæli undir fólki með peningum skattgreiðenda sem hefur alveg nóg fyrir sig og sína.

Engin ummæli: