fimmtudagur, febrúar 23, 2006

Svindlað í gær og ekkert hlaupið þrátt fyrir afar gott veður. Kvöldið fór í annað. Fyrst var foreldrafundur hjá 4. flokki kvk Víkings þar sem var verið að ræða sumarið, væntanleg mót og aðra praktiska hluti. Síðan fórum við í kvöldkaffi til mömmu en hún fyllti 82 ár í gær. Hún er afar hress og vel á sig komin og hefur virkilega átt góð ár hér syðra eftir að þau hættu búskap fyrir vestan og fluttu í bæinn fyrir tæpum 11 árum.

Jói bróðir hennar var einnig í heimsókn en hann er 77 ára gamall. Hann kom úr skíðaferðalagi til Ítalíu um helgina en þar var hann í tvær vikur. Hann rifjaði m.a. upp þegar hann hætti að reykja fyrir tæpum 20 árum síðan og hafði þá reykt síðan hann var ungur maður. Þá var hann svo illa farinn að hann komst varla gangandi milli húsa. Hann fór í þræðingu og einhversstaðar var leitt fram hjá í æðakerfinu en uppskeran var allt annað og betra líf. Hann náði ekki fullu þreki aftur en kemst ferða sinna í rólegheitum gengur á fjöll og er mjög iðinn við að hreyfa sig. Hann segist ekki vera góður í hóp því hann verði að ráða hraðanum sjálfur en ef hann fær að halda þeim hraða sem passar honum þá kemst hann það sem hann ætlar sér. Esjan, Móskarðshnjúkarnir, Helgafell og Keilir eru árlegir áfangastaðir hjá honum hér í nágrenni borgarinnar.

Maður getur ekki annað en hugsað um svona frásagnir þegar maður sér unga krakka sem maður kannast við vera að byrja að fikta við reykingar. Hér áður var umræðan önnur og ekki eins upplýst og nú um reykingar en það er ekki hægt að skýla sér bak við það nú á dögum. Jói frændi er frekast einn af þeim heppnu að hafa þó náð sér svona á strik aftur eftir að hafa verið orðinn allt að því ósjálfbjarga áður en hann varð sextugur. Ég segi alltaf ef ég er spurður um hvort það sé ekki bilun að vera að hlaupa svo mikið sem ég og fleiri gera að það sé enn meiri bilun að reykja.

Engin ummæli: