laugardagur, febrúar 25, 2006

Ekkert hlaupið í gær. Á leiðinni heim úr vinnunni kom ég við á útsölunni í Síðumúlanum hjá Daníel og félögum. Hitti ritara allra tiltækra félaga í hlaupageiranum þar á útleið með fangið fullt af prýðilegum vörum, þar á meðal próteinduftdunkum sem seldir eru á góðum afslætti. Við tókum aðeins tal saman um próteinneyslu. Ég er búinn að nota Leppin prótein á aðra viku í hádeginu í staðinn fyrir brauð með mismiklu af misþungu áleggi. Ég blanda saman einum til tveimur banönum, mjölkurslettu og nokkrum vel völdum skeiðum af próteindufti. Mér finnst ég strax merkja verulegan mun. Maður er vel saddur en ekki eins uppþemdur og þungur eins og af brauðátinu. Kílóunum hefur einnig fækkað. Ritarinn var mér alveg sammála um reynsluna að próteinneyslunni. Þegar við skildum þá snerist hann á hæli, tók enn einn dunk af próteini og góðan Búst poka og bætti við það sem hann hafði keypt áður. Ég sló mér sömuleiðis á einn próteindunk til viðbótar við þá sem ég hafði keypt áður. Samtöl geta oft verið uppbyggjandi og leitt til niðurstöðu. Ég held þessu áfram þar til mér verður sýnt fram á annað.

Ég hef verið að velta fyrir mér auglýsingunum frá Blátt áfram, UMFÍ og fleirum um ofbeldi gagnvart börnum. Ég er efins um þær. Hvenær er umræðan gagnleg og upplýsandi og hvenær virkar hún í andhverfu sína er virkilega vandrataður línudans. Ég er t.d. alls ekki viss um að allskonar forvarnarverkefni um fíkniefni hafi endilega jákvæð áhrif. Forboðnu eplin eru ætíð spennandi í augum krakka og unglinga. Ef er sífellt verið að tala um hvað þetta og hitt sé hættulegt þá freistar það vafalaust einhverre enn frekar til að prófra. Alla vega er staða þessara mála í dag á þann veg að það er spurning um hvaða árangri umræðan hefur skilað. Hvað þessar fyrrgreindu auglýsingar varðar þá virka þær ekki vel á krakkana sem horfa á þær heima hjá mér. Það má einnig varast að mála skrattann svo kyrfilega á vegginn að hann glotti við manni úr hverju horni, hvert sem litið er.

Horfði um stund á Idolið í gærkvöldi. Krakkarnir stóðu sig flestir mjög vel en einn var þó sýnu sístur. Hann datt út. Héðan í frá verður það blóðtaka hvert kvöld því þau sem eru eftir eru hvert öðru betra.

Engin ummæli: