miðvikudagur, apríl 19, 2006

Fór út í gærkvöldi í afar góðu og þægilegu veðri. Þetta er fyrsti dagurinn síðan í febrúar sem maður getur farið út að hlaupa án þess að vera kappklæddur. Kláraði 16 km í góðum gír. Nú er orðið svo bjart fram eftir að maður getur verið að langt fram eftir kvöldi í góðri birtu.

Heyrði í yfirdýralækni um páskana varðandi fuglaflensuna og var dálítið hugsi. Hann var að fjalla en einn ganginn hve nauðsynlegt væri fyrir okkur að byggja upp fullkomna greiningaraðstöðu þannig að hægt væri að greina dauða fugla á einum sólarhring en ekki á tveimur til þremur eins og gert er í dag þegar hræin eru send úr landi. Hann lýsti þessari rannsóknaaðstöðu sem forsendu þess að geta brugðist skjótt við og upprætt veikina ef hún greindist hér. Upprætt veikina!!! Hvað á maðurinn við? Ef villtur fugl finnst dauður úr fuglaflensu hérlendis hvernig er þá hægt að uppræta hana. Á að stilla Landsbjörgu upp á suðurströndina með Kalasnikoff hríðskotariffla og skjóta allt sem kemur fljúgandi af hafi. Ef veikin berst til landsins, sem hún hefur líklega gert nú þegar því fuglaflensan er ekki ný af nálinni, þá er ekki hægt að uppræta hana að mínu mati. Þeir fuglar drepast sem drepast á annað borð en hinir fljúga af landi brott síðla sumars. Mér finnst viðbúnaðaráætlun Bandaríkjamanna skynsamleg. Þeir gera ráð fyrir að ákveðinn fjöldi landsmanna deyi úr skæðri inflúensu en til að draga úr afleiðingum veikinnar þá skipuleggja þeir fjöldabólusetningar.

Elliðavatnssvanurinn reyndist síðan hafa dáið af náttúrulegum orsökum. Líka hrafnarnir tveir sem fundust dauðir um daginn svo og endurnar tvær sem ku hafa flogið á símalínu. Hvað ætli drepist margir fuglar hérlendis á hverju ári. Þeir skipta tugum þúsunda. Ef á að greina öll þau hræ sem menn finna þá verður ekki gert annað á meðan.

Það greindist fuglaflensa af þessum umrædda stofni í Danmörku og Svíþjóð fyrr í vetur. Maður heur ekki heyrt af gríðarlegum fugladauða í þeim löndum síðan þá eða á annað borð að fleiri fuglar hafi greinst sýktir þarlendis. Ef fuglar væru að strádrepast í Evrópulöndum vegna óþekktrar veiki þá skyldi ég deila áhyggjum mínum með yfirdýralækni en eins og umræðan er þá finnst mér eitthvað vera bogið við hana.

Enn ein könnunin fyrir sveitarstjórnarkosningar var birt í gærkvöldi þar sem Framsóknarflokkurinn fékk hraklega útkomu. Nú var það Akureyri. Áður höfðu verið birtar niðurstöður álíka kannana frá Akranesi og Árborg. Nú er hér ekki um niðurstöður kosninga að ræða heldur könnun á afstöðu kjósenda en sama er, þróunin virðist vera öll í sömu átt. Ef fer sem fram horfir og flokkurinn geldur afhroð í sveitarstjórnarkosningum í næsta mánuði þá er niðurstaðan mjög skýr. Afmunstra skal skipstjóra sem ekki aflar og fá annan fisknari í hans stað.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Afmunstra, segirðu. Ég held að þessi skúta geti ekki annað en siglt í strand. Jafnvel kraftaverk bjargar ekki svona útgerð.
Mundu svo það sem skáldið kvað.
Alltaf má fá annað skip
og annað föruneyti.
Ritarinn